2114 - Vírus

Eiginlega veit ég ekkert hvað ég á að skrifa um Ásgautsstaði. Mest er ég að hugsa um að hætta að byrja bloggin með því að minnast á þá jörð og setja það frekar í endann. Ég er næstum búinn að venja mig á að byrja á þessu. Árborg (les Selfoss, Stokkseyri o.fl.) nýtir þessa jörð án þess að hafa nokkurt leyfi til þess og vill ekki semja við eigendurna (erfingjana). Var spurður hér á blogginu um daginn hvað það ætti að þýða að vera sífellt að skrifa um þetta útskýringarlaust.

Auðvitað veit ég að maður á aldrei að klikka á .exe skrár án þess að vita hvað í þeim er. Fékk þannig skrá í fésbókarpóstinum mínum í gær (þriðjudag). Klikkaði á hana í einhverju hugsunarleysi og fór svo að gera eitthvað annað. Það var eins og við manninn mælt, áður en ég vissi af var ég farinn að dreifa vírusi til fésbókarvina minna (kannski allra, veit það ekki). Pétur á Kópaskeri ráðlagði mér að setja orðsendingu um þetta á vegginn minn, og það gerði ég. Sennilega alltof seint samt.

Annars finnst mér ellin aðallega vera þannig að maður hugsar meira um heilsuna og þessháttar en áður, er ekki nærri eins kraftmikill og úthaldsgóður og fyrr og stundum valtur á fótunum, auk þess sem maður er lengur að öllu. Einkennilegast er eiginlega hvað maður breytist lítið. Útlitið finnst mér ekki breytast að neinu ráði.

Þó ég sé alltaf að kvarta yfir pólitíkinni skrifa ég heilmikið um hana. Sama er að segja um fésbókina. Ég er alltaf að skrifa eitthvað um hana. Nær væri að skrifa um eitthvað annað. Því hefur verið haldið fram að fésbókin sé á fallanda fæti. Sennilega er það rétt. Ætli það verði ekki einmitt vírusar sem verði henni að falli.

Pólitíkin er líka hundleiðinleg. Stjórnarandstaðan virðist í alvöru gera ráð fyrir að geta með skömmum, látum og fyrirgangi hrakið stjórnina frá völdum. Svo verður ekki. Við skulum því bara sætta okkur við að sitja upp með þetta í nokkur ár. Það þýðir þó ekki að rétt sé að láta allt yfir sig ganga mótmælalaust. Eilíf neikvæðni er samt ekkert betri í pólitík en annarsstaðar.

Í sambandi við lekamálið í innanríkisráðuneytinu finnst mér athyglisverðast að enginn ráðherra úr ríkisstjórninni skuli koma Hönnu Birnu til hjálpar. Það er greinilegt að hún er í miklum vandræðum. Hún svarar aldrei þeim spurningum sem lagðar eru fyrir hana og hefur greinilega ekki fundið sökudólg ennþá. Vandamálið er alls ekki lengur skjalið sjálft sem lekið var heldur miklu fremur hvernig tekið hefur verið á þessu máli af henni sjálfri. Að sumu leyti er þetta orðið eins og æsilegasti reyfari. Tekst henni að hanga í embættinu eða ekki? Ég hallast fremur að því að hún segi af sér fyrir rest.

Setti nýlega vísukorn eftir mig á fésbókarhópinn „boðnarmjöður“. Það er fremur vinsæl síða og að ég held einkum fyrir birtingu á limrum og ferskeytlum. Þessi vísa var nú bara afbökun á mjög þekktri vísu, en það er greinilegt að þessi síða er talsvert mikið lesin. Meðlimir á „Boðnarmiði“ eru sagðir vera 425. Einnig setti ég þar í morgun vísu sem svar við vísu eftir Hallbjörn Kristinsson. Þar var um að ræða afbökun á afavísunni alkunnu og hún hefur líka verið lesin af allmörgum. Kannski er réttast að tilfæra þess vísur báðar hér þó ekki séu þær merkilegar.

Fésbókin er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvatvís puttalingur.

Eins og sjá má er þetta afbökun á vísunni frægu sem byrjar svona:  Ferskeytlan er Frónbúans....

Hin vísan var svona:

Latur afi á Litla-Rauð
lötraði suður á bæi.
Sótti þangað sykurfrauð
sem var ekki í lagi.

IMG 5874Áramótabrenna í andarslitrunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hanna Birna verður ekki aðeins að segja af sér, en einnig að biðjast afsökunar.

Framkoma hennar veitir innsýn í margt sem er ljótt í eðli mannsins. Ósannsögli, hortugheit og kjarkleysi til að taka ábyrgð.

Nema hún vilji draga fylgi FLokksins niður fyrir 20%. Gott og vel, mín vegna.

Haukur Kristinsson 29.1.2014 kl. 16:34

2 identicon

Man alltaf þegar við fengum fyrsta vírusinn í Cordata Tölvuna. (sem er ennþá til út í bílskúr :))Ping Pong vírusinn, var þvílíkt ánægður og fór að skoða hann í hex editor. Debug minnir mig að hann hafi heitað.

benni 29.1.2014 kl. 20:15

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk báðir.

Benni, ég vona að þú farir ekki að smíða vírusa!

Á sínum tíma var sagt að Austur-Evrópskir tölvunördar gerðu þetta til að auglýsa getu sína.

Ég man ennþá eftir því, þegar Guðmundur Árni sagði af sér. Að mörgu leyti kom það á óvart. Aðstæður voru líka ólíkar þá.

Sæmundur Bjarnason, 29.1.2014 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband