Átjánda blogg

Því miður er það svo að ég get ekki betur séð en að þeir starfsmenn Morgunblaðsins sem sjá um þetta Moggablogg séu illa starfi sínu vaxnir. Það er ekki nóg með að þeir birti og rugli öllum lykilorðum hjá notendum þessarar þjónustu og valdi því með þekkingarleysi sínu (geri ég ráð fyrir) að bloggið er venjulega óskaplega hægt og þungt í vöfum heldur virðast þeir sí og æ vera að fikta í fontum, feitletrun, greinaskilum og öðru því sem fólk vill gjarnan hafa í lagi. Annars er mér svosem sama, þessi skrif mín hér eru ekki mikils virði og ég á hvergi afrit af þeim. Ég geri fastlega ráð fyrir að næsta afreksverk þessara umsjónarmanna verði að senda allt sem hér hefur verið skrifað síðustu árin í glatkistuna gaflalausu og hugsanlega bregður þá einhverjum við, þegar ekki verður lengur hægt að ganga að gömlum skrifum, en ekki mér.

Ég sé að fjölskyldan er búin að uppgötva þetta blogg. Lísa hringdi um daginn og þá voru þau Bjössi nýbúin að finna þetta og nokkur atriði þar komu þeim alveg á óvart og þau höfðu ekkert frétt um. Þau koma líka miklu sjaldnar nú eftir að Bónusverslun tók til starfa í Hveragerði, en þau gerðu áður fyrr.

Ingibjörg og Hörður eru víst á Kanarí eins og í fyrra. Kannski við förum þangað einhverntíma, hver veit.

Núna geri ég ráð fyrir að lesendum þessa bloggs fjölgi eitthvað og hingað getur fólk komið og leitað frétta. Líka verður fólk að gera sér grein fyrir að ef það segir mér eitthvað þá má búast við að það rati hingað. Þetta getur svo orðið til þess að mér verður ennþá síður sagt frá hlutum en verið hefur, en því verður að taka. Það er svo gaman að blogga.

Skelfingar bull er þetta hjá mér. Ég sem var að hugsa um að skrifa nú eitthvað gáfulegt þegar mér er orðið ljóst að ég er kominn með fasta lesendur, þó fáir séu. En svona er þetta, ég get svosem skrifað og skrifað án þess að skrifa nokkuð merkilegt. Alveg á sama hátt og ég get ef ég er í rétta stuðinu talað og talað án þess að segja nokkuð. Þetta er gáfa eða eigum við að segja ættarfylgja eða löstur sem mér hefur verið ljós nokkuð lengi.

Ég nenni ómögulega að blogga um fréttir dagsins og stjórnmálaviðhorfið þó vel mætti fjölyrða margt um það. Mínar hugleiðingar bæta samt líklega ekki miklu við. Miklu nær væri fyrir mig að skrifa um eitthvað sem gerðist fyrr á tímum og hefur af einhverjum ástæðum tekið sér bólfestu í heilanum á mér.

Já, líklega er þetta ágætis hugmynd. Ég held samt að ég verði að hugsa svolítið um hana og læt þetta því duga núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband