Sautjánda blogg

Já, sennilega er Moggabloggið að syngja sitt síðasta, hvort sem það er nú vegna áhrínsorða Stefáns Pálssonar eða bara vegna þess að umsjónarmenn þess eru ekki starfi sínu vaxnir. Bloggið er búið að vera óskaplega þungt og hægt að undanförnu og svo birtu þessir snillingar öll lykilorð í morgun og breyttu í kjölfar þess öllum lykilorðum. Ekki er ég viss um að öllum takist að bjarga sér skammlaust út úr þessum hremmingum þó ég hafi nú reyndar verið svo heppinn að takast það. Moggabloggurum mun áreiðanlega fækka vegna þessa og vel gæti það verið upphafið að endalokunum. Þetta er að verða að daglegu ritúali hjá mér að blogga smá. Allt í lagi að halda því áfram. Skínandi gott verður um helgina, einkum á laugardaginn. Eiginlega fannst mér eins og það væri vor í lofti. Nú er hinsvegar heldur að kólna. Fór í smágönguferð í morgun og líklega er pínulítið frost hér á Stórreykjavíkursvæðinu. Þetta virðist vel geta orðið merkilegt ár í ár. Bjarni líklega að gifta sig og flytjast til Bahamas. Benni hugsanlega að selja íbúðina sína og kaupa sér nýja. Og fleiri breytingum má búast við. Samt er eins og ég nenni svosem engu. Þegar ég er ekki á vöktum hengslast ég um og geri ósköp lítið. Kannski breytist þetta allt með hækkandi sól. Ég hef verið að kíkja svolítið á vinsældalistann hérna. Mér finnst merkilegt að Steingrímur Snævarr skuli enn halda efsta sætinu þó hann sé farinn að vinna á fréttastofu Stöðvar 2. Sigmar Guðmundsson í Kastljósi er svo í öðru sætinu ekki mjög langt á eftir. Hinsvegar er svo óralangt í 3. sætið. Hvernig ætli standi á því? Efstu sætin eru einkum skipuð fólki sem ég les oft. Ég  les þó sjaldan bloggin eftir Áslaugu Ósk, Pétur Reynisson og Sóleyju Tómasdóttur. Mér finnst  ég þekkja hin flest sem eru efst á listanum vegna þess  að ég hef oft lesið bloggin þeirra. Prentaði 400 manna  listann út og ætla að kíkja  á hann aftur í næstu viku eða svo og jafnvel að skýra frá því hér. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband