2065 - Logið með stæl

Jens Guð (og eflaust margir fleiri) fárast yfir því að Merkel og Co. skuli ekki bara hafa bullað út í eitt til að rugla njósnarana frá Guðs eigin landi í ríminu. Gallinn er bara sá að það tekur heilmikinn tíma að ljúga sennilega.

Þetta veit ég af langri reynslu. Hef alla mína tíð logið einsog ég er langur til. Sennilega hef ég samt logið alltof sennilega. Líklega er betra að hafa það ósennilegt. Fólk trúir frekar því sem ósennilegt er. Þegar ég lýg, þá trúa allir mér. Ef ég segi sannleikann þá trúir mér enginn. Það er nefnilega vandlifað í henni verslu. (Veröldinni meina ég.)

Kannski Merkel hafi bara haft annað og merkilegra við tímann að gera en ljúga og bulla í símann sinn. „En hafði hún ekki her manna á launum við að passa uppá sig?“ langar Jens sennilega til að spyrja. „Kannski hafa þeir bara verið svona vitlausir og húmorslausir eða aðstoðarmenn þeirra.“ Þá er nú mesti glansinn farinn af þessum njósnum og Bond gamli miklu skemmtilegri. Hann njósnaði þó með stæl. Var aldrei með neitt helvítis væl.

Mér finnst fólk vilja aukinn jöfnuð í þjóðfélaginu hér á Íslandi. Fram eftir 20. öldinni jókst sá jöfnuður þrátt fyrir mörg bakslög. Jafnvel mátti líkja íslensku þjóðfélgi á ýmsan hátt við þau Skandinavísku. Síðstu áratugina hefur þessu verið þveröfugt farið. Hrunið hafði sín áhrif á þann jöfnuð og áhrif þess eru ekki að fullu komin fram ennþá. Fram að því hafði því verið logið að okkur að jöfnuður væri að aukast. Svo var þó í raun allsekki því þó þjóðarauðurinn yxi var ágóðanum kippt frá pöplinum í Hruninu. Nú er byrjað að efna í annað hrun og miklu sársaukaminna mundi verða að stöðva það núna strax, en að bíða eftir Hruni númer tvö.

Annars er Ísland agnarlítið peð í gróðabralli Vesturveldanna. Samt var þungi hrunsins látinn koma á okkur af fullum krafti. Það er nefnilega enginn annars bróðir í leik. Með alheimsstjórn væri e.t.v. hægt að koma í veg fyrir mestu misskiptinguna í heiminum. Við Íslendingar yrðum samt þar utanborðs lengi. Hjá ofbeldi af hálfu meirhlutans yrði aldrei hægt að komast til lengdar.

Eitt er það sem er öðruvísi í mínu bloggi en flestum öðrum. Ég hika lítið við að nafngreina mína sambloggara en sumir aðrir gera það mjög hikandi eða alls ekki. Sömuleiðis er mjög valt að treysta því að ég skrifi um allt sem ég kemst í kynni við. Hvernig ætti það líka að vera hægt? Aðrir, jafnvel flestir, yrðu eflaust fljótt leiðir á að lesa þetta blogg ef það væri bara einskonar dagbók. Ég er nefnilega ekkert sniðugur, nema þá alveg óvart.

Athyglisvert þetta með að selja aðgang að Strokk, eða öllu hverasvæðinu við Geysi. Líklega er það hugsunin hjá eigendum svæðisins að selja aðgang að því öllu. Miðasöluskúr er kominn við Kerið og líklega eru margir hættir að stoppa þar (a.m.k. ég.) Af tvennu illu er náttúrupassinn skárri hugmynd en skúrarnir. (T.d. við Jökulsárlón, Gullfoss, Goðafoss, Þingvelli og sjálfsagt víðar.) Auðvitað væri best að sleppa við hvorttveggja. En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef í alvöru á að halda áfram að auka sem mest ferðamannastrauminn til landsins verður ekki hjá því komist að hefta átroðninginn við helstu náttúruperlurnar með einhverjum hætti. Ekki dugir að reyna að koma þeim samtímis á náttúruminjaskrá Sameinuðu Þjóðanna og neita því að þær séu til. (Ferðamenn gætu jafnvel frétt af þeim þó bannað væri að auglýsa þær.)

Í borginni Chennai (öðru nafni Madras) á Indlandi hefst þann 7. nóvember n.k. heimsmeistaraeinvígi í skák milli þeirra Carlsen frá Noregi og Anands frá Indlandi. Báðir eru öllum skákunnendum vel kunnir og hafa verið um langt árabil. Carlsen stendur okkur Íslendingum á margan hátt nær. Hann er yngri, ekki nema 22 ára og álitinn öllu sigurstranglegri. Enginn vafi er á að þessa einvígis er beðið með mikilli eftirvæntingu. Lítið er samt fjallað um það í fjölmiðlum. Af einhverjum ástæðum er skák orðin jaðaríþrótt þar og stafar það eflaust af því að illa hefur gengið að gera hana að vinsælli sjónvarpsíþrótt. Áður fyrr var hennar oft getið í fjölmiðlum a.m.k. hér á Íslandi.  

IMG 4300Smíðisgripur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband