2064 - Veturinn er kominn

Salvör Kristjana virðist fylgjast nokkuð vel með öllu sem gerist og máli skiptir í netheimum. Ég læt mér nægja að fylgjast með henni á fésbókinni. Vona bara að hún skrifi þar um það sem fyrir hana ber. Sjálfur er ég að mestu hættur að nenna netflakki. Hef heldur aldrei kunnað það vel á tölvur að ég hafi fylgst með nema litlu af því sem gerist varðandi þær. Gefst bara upp og fer að gera eitthvað annað ef ég lendi í vandræðum. Stundum les ég fréttir í gegnum „Pulse“  í kyndlinum mínum og furða mig á hve takmarkaðar fréttir eru í íslensku miðlunum.

Einn helsti gallinn við lýðræðið er hvað fjögur ár eru í rauninni stuttur tími. Þó finnst manni hann stundum vera alltof langur. Kommúnistastjórnin í Kína er ekki bundin af þessum fjögurra ára lýðræðistíma. Skyldi það vera hið eina jákvæða sem hægt er um það stjórnarform að segja? Lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum er það oftast mikill fjötur um fót að mega helst ekki horfa lengra fram á veginn en að næstu kosningum. Oftast tekur mun lengri tíma en það að breyta þjóðfélögum.

Hið íslenska þjóðfélag er þó gjörbreytt frá Hruni. Kannski er það samt ekki Hrunið sjálft, heldur aukið tölvulæsi og samskiptamiðlar eins og Facebook sem hafa breytt því. Alls ekki er að sjá að allir hafi gert sér grein fyrir þessari breytingu. Ekki ég heldur. Ég nota ekkert, eða næstum ekkert, annað en prentað mál. Það er þó greinilega orðið með öllu úrelt. Ljósmyndir og vídeómyndir eru það sem koma skal. Þeir sem ekki kunna að notfæra sér slíkt eru á eftir tímanum.

Stundum finnst mér eins og vinsælli bloggarar en ég hafi fengið hugmyndir héðan. Líklega er það þó tóm vitleysa. Mínar hugmyndir eru yfirleitt frá mér sjálfum komnar, en vitanlega er ekkert nýtt undir sólinni. Ég hef þær bara að láni frá öðrum. Pakka þeim kannski svolítið öðruvísi inn. Það er venjulega allt og sumt. 

Var að enda við að lesa smágrein eftir Óla Gneista Sóleyjarson um höfundarréttarmál. Nú stendur baráttan hjá Smáís ekki við þá sem vilja sleppa við að borga „löglegum eigendum flutningsréttar“ fyrir notkun verka heldur stendur baráttan við þá sem vilja umfram allt greiða fyrir þjóustuna og frekar skipta við Netflix en þá sem njóta velvildar Smáíss. Þetta eru hreinir einokunartilburðir og ekkert annað. Ef þeir treysta sér ekki til að fást við Netflix ættu þeir bara að halda að sér höndum og hætta að skipta sér af dreifingarmálum.

Veðrið er að versna. Sennilega er kominn vetur. Fór í dag á þjóðahátíð í Borgarnesi. Þar var gaman að vera og margt að sjá. Ýmiss konar mat mátti einnig smakka. Haffi Haff skemmti í lokin og ég man ekki eftir að hafa heyrt í honum fyrr. Hann átti auðvelt með að koma flestöllum í stuð, bæði ungum og öldnum. Fjörugur með afbrigðum. Hitti marga sem ég kynntist fyrir fjölda ára en þá vann ég í Borgarnesi í ein átta ár.

IMG 4295Fjallaskarð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband