2063 - Um milljónkallinn o.fl.

Tíuþúsundkallinn er víst kominn. Ekki er ég þó farinn að sjá þennan merka grip ennþá. Miðað við gömlu krónurnar sem maður ólst upp við er þetta milljónkall. Segið svo að verðbólgan sé engin. Man eftir því að hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi báðum við Skúla Ingvarsson, sem þá var gjaldkeri kaupfélagsins, að sjá til þess að mánaðarlaunin okkar færu ekki yfir milljón krónur. Hann lofaði að sjá um það. Þetta hefur verið fyrir 1981 því við vorum örugglega að tala um gamlar krónur. Krónurnar í dag eru að verða jafnmáttlausar og þá. Einu sinni var hundraðkallinn rauður, eignalaus maður snauður og dauður maður dauður. Líklega eru þetta ljóðlínur og sennilega stolið frá einhverjum.

Nú er hundslappadrífa hér í Kópavoginum. (Skrifað á fimmtudagsmorgni) Hundslappadrífa er það kallað þegar stórar snjóflygsur falla til jarðar í logni. Annars eru mörg veðurheiti afar skemmtileg. Mér finnst t.d. vera stór munur á kafaldsbyl og öskubyl. Gæti meira að segja lýst honum. Sennilega hefur samt enginn áhuga. Jæja, í kafaldsbyl er mikil ofankoma en í öskubyl er hvasst.

Mikið er af prófkjörsfréttum um þessar mundir. (Allavega hjá Sjálfgræðisflokknum)  Sagt er að þessi sækist eftir þriðja sæti á listanum en hinn eftir öðru sætinu (eða því þrítugasta og fyrsta.) Já, en það er eitt sem ég skil ekki!! „Af hverju bjóða ekki allir sig fram í öll sætin og sætta sig svo bara við niðurstöðuna, eða ekki?“ Reyndar er það nú svo margt sem ég skil ekki. Ef þetta væri nú það eina. Jæja, sleppum því.

Ég held að Gálgahraunsmálið sitji dálítið í fólki. Svona eftirá sýnist mér að hraunið sjálft sé lítilsvirði og þessi vegagerð spilli því eins lítið og hægt er. Hinsvegar ber öll framkvæmdin með sér ofbeldishneigð og augljóst er að hún á afar lítinn rétt á sér ef miðað er við ástandið í þjóðfélaginu að öðru leyti. Ríkisstjórnin mun gjalda þessa máls þó vafasamt sé að hún hafi haft af því nokkur afskipti. Ef eitthvað þessu líkt gerist á Landsspítalanum er hætt við að sjóði uppúr.

Sennilega á ég alltof marga fésbókarvini því þó ég loggi mig nokkuð oft þar inn er það algjört hipsumhaps hvort ég skoða þar allt það sem fésbókin og forrit hennar virðast vilja að ég skoði. Finnst ekki við hæfi að hanga þar heilu dagana eins og sumir virðast gera. Logga mig yfirleitt út þegar ég fæ einhver vafasöm tilboð. Brjánn Einhversson (Brian Curly) gerði annars ágæta grein fyrir fésbókarofbeldinu í status þar fyrir stuttu.

IMG 4272Njóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband