2060 - Með útsýni til tunglsins - Gálgahraun o.fl.

Allir sem sjá blessað tunglið öðru hvoru út um gluggann hjá sér eru með stórfenglegt útsýni hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Enginn sér það alltaf. Ömurlegt er að sjá bara gluggann á næsta húsi. Í þannig hótelherbergi hef ég dvalið. Fannst líka skrítið í hitabeltinu að sjá tunglið beint fyrir ofan mig og snúa þar að auki vitlaust. Sólskin er mörgum mikilvægt þó dagsbirta nægi öðrum. Maður einn var spurður að því hvort væri mikilvægara sólin eða tunglið. „Ja, tunglið skín stundum á nóttinni, en það er hvort eð er alltaf bjart á daginn þegar sólin er að glenna sig og lítið gagn að því.“

Skyldi mér, með þessu sífellda bloggmali mínu, takast að sannfæra einhverja um að ég hafi stundum rétt fyrir mér. Heldur þykir mér það ólíklegt. Samt er það ekki óhugsandi. Flestir þeirra sem sannfæra mig (yfirleitt bara í smástund að vísu ) með malinu í sér (munnlegu eða skriflegu) gera það í lengra máli. Skoða eina hugmynd frá ýmsum sjónarhornum. Forðast samt þau sjónarhorn sem mæla á móti hugmyndinni eins og eðlilegt er. Sjálfum finnst mér ég vera ákaflega stuttorður og gagnorður, en er það sennilega ekki. A.m.k. tekst mér aldrei að blogga mig tóman. Oft er ég í besta stuðinu eftir að vera nýbúinn að senda einhverja speki frá mér út í eterinn.

Á flestan hátt er Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri mitt idol í blogginu. Hann er stuttorður og gagnorður. Vinsæll og víðlesinn. Fróður og vel að sér. Samt vildu kjósendur hann ekki á stjórnlagaþing. Ég er svolítið hissa á því. Stundum er hann auðvitað óþarflega harðorður. Ómar Ragnarsson er líka góður. Skortir samt yfirsýnina sem Jónas hefur. Of mikill náttúruverndarmaður og bílaáhugamaður fyrir minn smekk. (Jónas er of mikill hestamaður.) Báðir of sérgóðir og alvarlegir í bloggum sínum. Skil ekki af hverju Páll Vilhjálmsson fær alltaf svona marga lesendur á Moggablogginu. Hann er nokkurskonar viðbót við mbl.is og er bara að hjálpa krökkunum þar með einhverri ESB-þvælu. Þegar Dabbi hættir sem ritstjóri breytist Mogginn í helsta stuðningsblað ESB. Það er ég alveg viss um. Hugsanlegt er líka að hann verði einskonar deild í teboðshreyfingunni bandarísku (altsvo Mogginn). Þó finnst mér það ólíklegt.

Nú er mánudagskvöld. Eiginlega er ekki hægt að blogga að neinu gagni nema taka einhverja afstöðu til atburðanna í Gálgahrauni. Ég hef ekki hingað til verið fyllilega sannfærður um að hraunið það arna sé nægilega merkilegt eða málið nógu afgerandi til að láta svona. Kannski er það samt vitleysa og aumingjaskapur hjá mér. Einhversstaðar verður að setja ofbeldismönnum stólinn fyrir dyrnar. Get samt ekki að því gert að mér finnst þetta ekki rétta tilefnið. Að velja rétta tilefnið er alveg bráðnauðsynlegt. Öðruvísi verður ekki hægt að koma sitjandi ríkisstjórn frá völdum. Það hljóta samt allir góðir menn að vilja. Óvissan sem því gæti fylgt er samt afleit fyrir okkur ellibelgina.

Vissulega er þetta blogg í styttra lagi. Það verður bara að hafa það. Vegna Gálgahraunsmálsins er nauðsynlegt að koma þessu frá sér sem fyrst.

IMG 4194Kónguló.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf þykir mér gaman að lesa pistlana þína, Sæmundur. Þú skrifar á góðu máli(Hefði samt þótt betra hefðirðu sagt átrúnaðargoð í stað idol, mér leiðast alltaf enskuslettur) Yfirvöldin á Íslandi eru eins og yfirvöldin í Texas, sem alltaf flýta sér að drepa dauðadæmda menn, áðir en mál þeirra fær að fara allan feril.Þarna ætlar vegagerðin að djöflast yfir hraunið, áður en fullnaðadómur fæst.Dæmigert fyrir möppudýr.

geirmagnusson 22.10.2013 kl. 06:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Geir, er ekki alveg sammála þér um allt, en það gerir ekkert til. Auðvitað hugsa ekki allir eins. Skárra væri það nú.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2013 kl. 08:15

3 identicon

Ég hitti mann í gær, sem vildi fara orðum um þetta Garðahraunsmál eins og fleiri. Hann sagði eitthvað á þá leið (man ekki orðrétt hvað hann sagði, bara innihaldið) að sig grunaði að þegar sagnfræðingar næstu aldar færu að skrifa um stjórnmál og viðburði fyrri hluta tuttugustu og fyrstu aldar, þá myndu þeir meta það svo að sá atburður, þegar Ómar Ragnarsson og fleiri voru teknir fastir fyrir að mótmæla náttúruníði, markaði upphaf byltingar, sem almenningur hefði gert gegn ríkisstjórn auðvalds og útgerða frystitogara.

Ellismellur 22.10.2013 kl. 09:24

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér um þetta, Ellismellur. Mótmælin við Innanríkisráðuneytið á eftir gætu samt orðið litmus-prófið í þessu. Sýnist að nokkuð margir ætli að mæta.

Sæmundur Bjarnason, 22.10.2013 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband