13.10.2013 | 02:57
2055 - Alltaf eykst tapið
Margir fást við að reikna út tjón landsins við Hrunið sem varð haustið 2008. Hvort sem um er að ræða hundruð eða þúsundir milljarða er bara um peninga að ræða. Traustið sem Íslendingar nutu af hálfu umheimsins er horfið. Við erum einfaldlega álitin svindlarar og ræningjar. E.t.v. kemur þetta traust aldrei aftur og það er hugsanlega mesti skaðinn sem við höfum orðið fyrir. Þjóðræknistal frá millistríðsárunum er gagnslaust. Framtíðin er ólík fortíðinni. Með því að flýja til fortíðarinnar erum við að gefast upp. Samskiptin við umheiminn skipta okkur öllu máli. Kynstofnar eru kannski ólíkir, en ekki er hægt að segja að einn sé öðrum æðri. Vel er samt hægt að segja að maðurinn sé æðri dýrunum, en þarmeð hlýtur hann að bera ábyrgð á þeim og að meðferð þeirra sé ekki til skammar.
Allir hljóta að vera ánægðir með sumt sem birtist í DV og óánægðir með annað. Í heildina finnst mér blaðið vera alltof æsifréttakennt og ganga of langt í því að vekja althygli á sjálfu sér. Enginn vafi er samt á því að þörf er á blaði af þessu tagi og ekki er nokkur lífsins leið að gera öllum til hæfis. Greinilegt er að það sem blaðamenn og ritstjórar blaðisins setja eða láta setja á netið vekur athygli margra. Aftur á móti er ég ekki eins viss um að áskrifendurnir séu mjög margir. A.m.k. hefur mér aldrei dottið í hug að gerast áskrifandi. Sumt af því sem sett er á netið af blaðinu virðist beinlínis ætlað til að æsa þá sem leggja í vana sinn að kommenta þar. Margir held ég þó að forðist að gera slíkt.
Augljóst er að stefnubreyting er að verða hvað umferð varðar um höfuðborgarsvæðið. Allt þetta tal um þéttingu byggðar og almenningssamgöngur hlýtur að þýða eitthvað. Einkabílisminn er á undanhaldi. Áherslan á hann hefur líka verið mjög mikil síðustu áratugina. Umferðaröngþveitið á morgnana mun fara versnandi á næstu árum. Sennilega verður lítið sem ekkert gert til að ráða bót á því. Reiðhjóla og göngustígar eru það sem koma skal.
Í framhaldi af því held ég að Gnarrinn vinni auðveldlegan sigur í borgarstjórnarkosningunum næsta vor þó flestrir fjölmiðlar keppist við að ófrægja hann. Hann er einfaldlega á annarri bylgjulengd en keppinautarnir og gæti hæglega lagt þá með vinstri hendi. Táknrænan er allt. Hann er vissulega andlit Reykjavíkur og fer það vel.
Björn Valur Gíslason ræðst á Elínu Hirst af mikilli heift á bloggi sínu. Með því minnkar hann sjálfan sig töluvert. Það getur vel verið að Elín sé ekkert sérlega vel máli farin eða kunni ekki að nota ræðustól alþingis á sama hátt og þeir sem lengsta hafa af því æfinguna. Á margan hátt eru þeir sem sífellt þurfa að sýna yfirburði sína og reyna að setja pólitískan lit á öll mál þeir sem minnkað hafa virðingu alþingis meira en þeir sem tafsa svolítið og ræða um málefni sem ekki er vani að ræða á þeim eðla stað.
Google street viewið er gríðarlega mikið notað á fésbókinni þessa dagana. Flestar einkennast þær færslur af eiginhagsmunahyggju á hæsta stigi, en eru ekket verri fyrir það. Búast má við að myndir af þessu tagi verði algengar með tímanum (ekkert síður en vefmyndavélarnar) og möguleikarnir eru endalausir. T.d. ef útbúnaður af líkum toga fer útfyrir vegina.
Athugasemdir
Alltaf Sæmi æðrulaus
eins og sézt hér
Þjóðrembu á þingið kaus
Það var sagt mér
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.10.2013 kl. 08:53
Laxdalinn löngum slyngur
lætur sem þjóðremba sé
að kjósa sem kommalingur
kvenmanninn pírata fé.
Óvandað svar við óvandaðri vísu.
Sæmundur Bjarnason, 13.10.2013 kl. 13:51
Vísnagerð nú vanda skal
og vega engan annan fyrst
ég berjast vil með Birni Val
gegn bófaflokki Ellu Hirst
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.10.2013 kl. 16:45
Vegandann ég víst hef misst
vandi er að ríma.
Björninn Val ég vil samt fyrst
við þig láta glíma.
;)
Sæmundur Bjarnason, 13.10.2013 kl. 20:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.