26.8.2013 | 10:42
2032 - Jórunn mannvitsbrekka
Menn gera það gjarnan ef þeir geta. Að skrifa og skrifa og skrifa. Mest er það meiningarlítið bull sem fáir hafa áhuga á. Innanum slæðist samt alltaf öðru hvoru eitthvað sem veigur er í. Ekki get ég þó skrifað þannig. Mér finnst ég alltaf þurfa að skrifa um eitthvað sem hugsanlegt er að aðrir en ég hafi áhuga á líka. En er ekki allt þannig? Er nokkuð svo ómerkilegt að enginn hafi áhuga á því? Er ekki samhengið, þráðurinn og meiningin allt svo samofið að það skipti mestu máli hvernig skrifað er? Minna máli hugsanlega hvað skrifað er um. Mér finnst það. Ekki er það allt saman stórmerkilegt sem ég skrifa um. Ég er að hugsa um að byrja að æfa mig á að skrifa um lítilvæga hluti. Eflaust finnst mörgum það skipta litlu máli hvor Jórunn Ketilsdóttir var á söguöld kölluð mannvitsbrekka eða manvitsbrekka og af hverju það orð var dregið. Samt er ég að hugsa um að fjölyrða nokkuð um það orð.
Talsverðar umræður hafa orðið um það á orðhenglingum og sýnist sitt hverjum. Orðhengillinn er á fésbókinni og til þess að komast á hann er nóg að skrifa orðhengillinn í efstu línuna þar. Ekki ætla ég að endurtaka allt sem þar stendur, en
Svo segir í Eyrbyggju:
Ketill flatnefur hét einn ágætur hersir í Noregi. Hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar hersis úr Sogni. Ketill var kvongaður. Hann átti Yngveldi, dóttur Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Björn og Helgi hétu synir þeirra en dætur þeirra voru þær Auður hin djúpúðga, Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka.
Það er síðasta orðið þarna sem hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. Nú er þetta einkum notað í neikvæðri merkingu með neitandi orði á undan. Svo hefur þó áreiðanlega ekki alltaf verið. Umdeilanlegt er í fyrsta lagi hvað orðið þýðir nákvæmlega og í öðru lagi hvort réttara sé að skrifa það með einu n-i eða tveimur. Mín orð í þessu sambandi ber að taka með mikilli varúð. Þetta eru bara hugleiðingar sem styðjast ekki við neitt ákveðið.
Vilborg Davíðsdóttir hefur skrifað tvær bækur um Auði djúpúðgu. Ég hef nýlokið við að lesa seinni bókina og þá er hún ekki enn lögð af stað til Íslands þó hún sé að velta því fyrir sér að fara þangað. Trilogia verður þetta áreiðanlega og hefur slík sería oft verið skrifuð um ómerkara efni.
Vilborg segir í bréfi til mín að hún hafi lesið tvær greinar um uppruna þessa viðurnefnis. Í annarri var því haldið fram að brekka í þessu tilfelli væri dregið af að brjóta vit manna með fegurð sinni.
Mér finnst merkingin á mannviti skipta mestu máli þarna. Jón G. Friðjónsson heldur því fram að merkingin sé sú sama og hugvit. Því er ég ekki sammála og tel frekar að það merki visku. Sumir tala líka um ambáttir, írskar konur o.s.frv. Endalaust má um þetta deila og orð mín hér eru meira svona til skýringar á minni afstöðu.
Þetta er nú orðið langt mál um fremur lítið efni en ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á pólitík. Þó stundum sé hún leiðinleg er hún á margan hátt mín uppáhaldstík.
Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á Vigdísi Hauksdóttur til jafns við Framsóknarmenn. Hún hótaði starfsmönnum RUV og yfir þann skít verður ekki rótað. Meira hef ég ekki um formann fjárveitinganefndar alþingis að segja að þessu sinni en áskil mér allan rétt til að telja hana langt til hægri við framsóknarflokkinn (og sjálfstæðisflokkinn reyndar líka) á mínu pólitíska litrófi, þó sumir álíti hana með allra merkustu stjórnmálamönnum samtímans.
Athugasemdir
Varðandi skilgreininguna á vinstri og hægri í íslenskri pólitík, hefur mér lengi þótt framsókn vera ansi langt "á stjór" og hafi verið lengi. Pólitík guðföður flokksins var náttúrulega hreinn nasismi.
Ellismellur 26.8.2013 kl. 12:00
Hriflu Jónas kann að hafa verið nasisti, en ég man eftir því að hafa haft talsverða samnúð með stefnu þeirri sem Steingrímur Hermannsson reyndi að fylgja. Framsóknarflokkurinn var aldrei neinn nasistaflokkur, það er frekar hægt að segja það um Sjálfstæðisflokkinn, eða hluta hans.
Sæmundur Bjarnason, 26.8.2013 kl. 17:35
Strangt til tekið... þá eru engir hreinir nazistar á Íslandi, en Framsókn kemst næst því. Það er hægt að fletta því öllu upp. Málið er að það eru engir gyðingar á Íslandi, kannski einn eiða tveir, en öllum er sama. Þú getur ekki haft nazisma eftir bókinni án þess að hafa gyðinga. Næst er Samfylkingin. Þeir hinsvegar eru svolítð á móti gyðingum - en meira óbeint.
Það má líta á þetta sem keppni, hvort er meiri nazisatr, B eða S.
D er svo meira svona standard fasismi. Aðeins hófsamari en Franco.
VG eru svo kommúnistar. Það er þá helst af þeim að Jón Bjarnason sé nazisti. Hann er svo þjóðlegur eitthvað. Svo má endalaust rífast um hvort VG séu Maóistar, Lenínistar, Trotsýistar, Stalinistar eða eitthvað annað.
Ásgrímur Hartmannsson, 26.8.2013 kl. 22:12
Iss. Best er að jarða alla þessa isma. Kjósendur skilgreina flokkana bara eftir sínu höfði og er alveg sama hvort einhverjir aðrir eru að hugsa um allskonar isma.
Sæmundur Bjarnason, 27.8.2013 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.