22.6.2013 | 06:14
1990 - Stjórn og stjórnarandstaða
Það er varla hægt að ætlast til að ég bloggi svona oft og mikið eins og ég geri. Mér gengur jafnvel betur að skrifa ef ég hef ekki lesið hugleiðingar annarra um sömu mál. Oft byrja samt þessar hugleiðingar mínar á því að ég rífst við sjónvarpið. Sjónvarpið og netið eru mínir helstu fréttamiðlar. Ef það er ekki á netinu er það varla til í mínum huga. Þar má finna næstum allt ef maður nennir að sökkva sér í það.
Ær og kýr flestra þingmanna virðast vera japl og jaml um einskisverða hluti. Nær væri fyrir þá að einhenda sér í þá hluti sem skipta einhverju máli og hætta þessu sífellda hnútukasti. Undirskriftasöfnun sú hin nýjasta er einkum ákall um breytta forgangsröðun. Þjóðin vill sjálf fá að ráða málum, en ekki að sér sé ávallt haldið frá öllum meiriháttar ákvörðunum. Frændhyglin og spillingin er allt að drepa. Undirheimahagkerfið er til vitnis um ófullkomleika stjórnmálamanna og embættismanna.
Sagt er að Egill Helgason sé að hætta með Silfrið en haldi áfram með bókmenntaþáttinn. Hann hefur að flestu leyti staðið sig vel í Silfrinu. Einkum í því að fá rétta fólkið í þættina. Vona bara að sjónvarpinu takist vel upp í vali á eftirmanni hans. Treysti Páli Magnússyni alveg til þess.
Ótímabær dauðsföll þekkts fólks eru mjög í tísku núna. Vil ekki vera með neina upptalningu á því, en sennilega er sú tilgáta rétt að sumarfríin og los það sem á marga kemur um þetta leyti eigi þarna einhvern hlut að máli. Þessi tilhneiging er ekki bara hér á Íslandi þó við könnumst best við þá Íslendinga sem burtkallaðir eru. Þó hlýtt sé í veðri og sólríkt núna er ekki hægt að kenna neinni hitabylgju um þetta.
Sigurður Ingi landbúnaðar- og skúffumálaráðherra er með óheppnustu mönnum. Nema hann sé svona vitgrannur. Það finnst mér þó ólíklegt. Hann þarf að gæta betur að sér ef hann á ekki að missa starfið fljótlega. Stjórnarandstaðan grípur hvert tækifæri sem býðst til að gera lítið úr honum. Á meðan fá aðrir ráðherrar frið. Eða svo virðist vera.
Þessar tilraunir stjórnarandstöðunnar til að hrekkja ráðherrana eru dæmdar til að mistakast. Það er engan vegin líklegt þó menn æsi sig mikið að stjórnarskipti verði. Þau mál sem hingað til hafa verið til umræðu eru ekki mikilvæg og tekist hefur að finna sæmilegar skýringar. Samt er stjórnin svolítið undir hælnum á stjórarandstöðunni og getur sjálfri sér um kennt. Á síðasta kjörtímabili var megináhersla stjórnarandstöðunnar á að klekkja á stjórninni og minna hugsað um þjóðarhag. Á vissan hátt er eðlilegt að áfram sé haldið á sömu braut.
Auðvitað er óþarfi að vera með þennan æsing. Meirihluti sumarþingsins er samt ansi auglýsingakenndur. Skrumkenndur jafnvel.
Það liggur við að maður vorkenni Árna Johnsen. Það er þó örugglega óþarfi. Í síðustu þingkosningum missti hann þingsæti sitt og getur ekki sungið meira í ræðustól alþingis og svo er búið að taka af honum brekkusönginn núna. Það væri kannski ráð fyrir hann að stefna á Kvíabryggju aftur, þar stóð hann sig vel og átti greinilega heima. Einhverjir kunna að hafa haft áhuga á þjóðhátíðinni í Eyjum vegna Árna, en svo eru líka eflaust einhverjir sem hafa sett fyrir sig að mæta þar hans vegna. Fjölmiðlar tala meira um eftirmann hans en hann sjálfan. Það hlýtur honum að finnast súrt.
Hvert er íþróttaálfurinn að vísa Sollu stirðu?
Gríðarlegar upphæðir færu út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Leifa þessu gjörspillta þjófapakki að blæða út. Farið hefur fé betra.
Guðmundur Pétursson, 22.6.2013 kl. 07:22
Já, ég er eiginlega sammála þér. Nógu lengi hefur almenningur verið látinn "blæða út". Þetta eru innantómar hótanir.
Sæmundur Bjarnason, 22.6.2013 kl. 09:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.