1983 - Woodoo hagfræði

Eða var það annars woodoo haffræði? Þá er tilgangur sumarþingsins orðinn augljós. Það var til þess að LÍÚ gæti stungið prjónum í Jón Steinsson. Af hverju er maðurinn svona óþekkur?  Heldur hann að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bjargi sér? Veit hann ekki að þetta er bara partur af sjónhverfingunum? Gróði = Tap. Skattalækkun = Auknar skatttekjur. Lækkun veiðigjalds = auknar ríkissjóðstekjur. Aukin þjóðremba = bláhvítur fáni. Fleiri krónur = færri evrur. O.s.frv. 

Ég er að mestu leyti hættur að horfa á beinar útsendingar frá alþingi. (Ættu þeir ekki að vera í sumarfríi núna?) Ekki er það útaf málblómum einstakra þingmann og mig langar vissulega til að heyra hvernig nýju þingmennirnir eru máli farnir. Aðallega er það útaf viðvarandi tímaskorti. Kannski er tímaskorturinn árstíðabundinn og hverfur með haustinu. Hvað veit ég?

Mörgum líður vel í neikvæða aðfinnslugírnum en engin þörf er á að vera alltaf í honum. Svo er heldur ekki gott að dæma hundinn eftir hárunum og þeir sem eru súrir á svipinn eru ekkert endilega í slæmu skapi. Nú er sólskinið að skella á svo kannski er best að vera í sólskinsskapi a.m.k. í smástund.

Ég vil endilega gera Snowden uppljóstrara að lávarði en það er líklega einhver misskilningur hjá mér og tengist hugsanlega bresku konungsfjölskyldunni. (Nenni ekki að Gúgla.) Kannski er Snowden á leiðinni hingað, þó ég efist um að sá verði endir málsins. Í Bandaríkjunum er þetta víst stórmál og ekki víst að við fengjum að halda honum þó okkur hafi verið leyft að halda Bobby Fischer á sínum tíma, enda var hann kominn á gamalsaldur og svolítið ruglaður.

Bandaríkjamenn sóttu það áreiðanlega ekki mjög fast að fá hann framseldan og voru bara fegnir að losna við hann. Hugsanlega er allt öðru máli að gegna með Snowden og Birgitta stendur sig vel í að styðja hann. Þetta segi ég ekki bara vegna þess að ég kaus Píratana í síðustu kosningum, heldur finnst mér í alvöru að svo óvenjulegur þingmaður sem Birgitta er sé mikil nauðsyn. Minnir mig á Löngumýrar-Björn.

Þegar ég stjórnaði ÚSVB (vídeófélaginu í Borgarnesi) man ég eftir að hafa farið á fund í Ölfusborgum til að lýsa vídeókerfinu fyrir alþýðubandalagsmönnum. Þar var ÓRG og hann hafði engan áhuga á svona vitleysu. Þorbjörn Broddason kallaði mig misgerðamann ríkisútvarpsins. Það var nokkuð gott hjá honum. Vilborg Harðardóttir minnir mig að hafi verið fundarstjóri. Nú er ég greinilega kominn á raupsaldurinn og dreifi nöfnum til hægri og vinstri.

Ýmislegt bendir til að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar (eftir því sem andstæðingarnir segja) hafi ruglast á debet og kredit. Man vel eftir sögunni um gjaldkerann sem var svo ofsaklár í bókhaldi en þurfti samt stöku sinnum að kíkja í efstu skúffuna í skrifborðinu. Þegar hann hrökk uppaf voru menn eðlilega forvitnir að vita hvað væri í þessari skúffu. Þar var miði sem á stóð: „Debet er nær glugganum“.

Yfir og út.

IMG 3288Skýjamyndanir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband