1969 - Sumarþing

Óvíst hvenær sumarþingið hefst, segir í fyrirsögn á mbl.is. Mitt hald er það að ekkert sumarþing verði haldið. Nennti ekki að lesa mbl fréttina. Veit að alþingismenn eru upp til hópa í hjarta sínu andvígir þjóðaratkvæðagreiðslum og að verið sé að trufla þá of mikið næstu fjögur árin. Verði sumarþing er óvíst að það komist að nokkurri niðurstöðu.

Einhver var að velta því fyrir sér á fésbókinni hve lengi Sérstakur fengi að starfa. Ég held að þegar sé búið að gera hann að mestu óskaðlegan. Öll fjársvikamál fara nú til hans. Starfsfólki þar mun fækka mjög á næstu árum. Glæpir tengdir hinu „svokallaða hruni“ munu smám saman fyrnast og gleymast. Ekki verður hætt við þau mál sem í gangi eru. Refsingar verða þó aðeins til málamynda. Þannig mun auðstéttin aftur ná völdum hér, þrátt fyrir smáhiksta.

Sumum finnst ég ansi kaldhæðinn þegar ég skrifa um hruntengd mál. Sjálfum finnst mér það bara vera af raunsæi. Bankahrunið sem hér varð var svo mörgum að kenna að vonlaust og vitlaust er að hegna fáeinum fyrir það. Nær er að sætta sig bara við orðinn hlut og að lífskjör hér á landi hafi verið færð aftur svo nokkrum árum nemur og reyna bara að halda áfram. Landflóttinn er versta bölið sem við höfum orðið fyrir.

Ætti ég nokkuð að legga honum lið
eða láta hann einan mala.
Hann ætlaði að hugsa en hætti við
og hélt bara áfram að tala.

Gamlar vísur taka sér oft bólfestu í hausnum á mér. Ég bjó þessa allsekki til. Eitthvert hefur tilefnið kannski verið (og kannski ekki) og vísan er nokkuð vel gerð. Alþingismenn haga sér oft með þessum hætti, en helst er að skilja á Bjarna og Sigmundi að þeir séu á móti málþófi og biðji núverandi stjórnarandstöðu blessaða að haga sér ekki eins og þeir gerðu. Efast samt um að mál æxlist með þeim hætti.

DV segir að Stefán Pálsson hafi talað viðstöðulaust í 13 tíma. Mér finnst það ekki hundaskít merkilegt. Einu sinni sagðist Stefán vera besti bloggarinn á Íslandi. Kannski var það rétt því þeir voru ósköp fáir þá. Hann langar mikið á þing, en þorir ekki í framboð. Bauð sig ekki einu sinni fram til stjórnlagaráðsins. Er með fjölmiðlasýki og athyglis á háu stigi.

Menn hafa verið að óskapast yfir stjórnarsáttmálanum. Mér finnst hann nú ekkert mikið verri en slíkir eru vanir að vera. Er ekki vanur að hafa mikinn áhuga á slíkum bókmenntum, en þó finnst mér taka út yfir allan þjófabálk að lesa kaflann um íslenska þjóðmenningu, þvílíkt bull og þvílík froða.

Mér sýnist margt benda til að átök verði hörð milli stjórnar og stjórnarandstöðu, einkum í umhverfismálum. Sú skoðun að virkja beri allt sem virkjanlegt er eins fljótt og auðið er á marga fylgjendur. Þeir eru líka margir sem vilja fara sem varlegast í sakirnar. Þarna getur verið himinn og haf á milli og erfitt að sætta sjónarmiðin. Samt verður að reyna það. Þó ekki hafi verið kosið um virkjanamálin beint

Af hverju er ekkert að marka orðin sem ég set á blað? Þau er samt ekkert verri en önnur. Er hægt að koma orðum að öllu? Margir halda það, en svo er allsekki. Því síður er hægt að koma í myndrænt horf því sem maður vildi helst að aðrir sæu. Er ekki lífið sjálft tilraun til að koma einhverju systemi í galskapinn. Á einhvern óútskýranlegan hátt finnst mér ég vera hluti af alheimssálinni. Auðvitað lítur þetta út eins og óraskrif dauðvona manns. Á endanum mun dauðinn hremma okkur öll.

Til hvers er að vera að berjast gegn honum? Jú, sú tilfinning að allt fari skánandi að lokum er það sem heldur lífinu í mér. En ferðalaginu frá vöggu til grafar lýkur að sjálfsögðu einhverntíma. Áhrif einstaklninganna eru því miður ekki mikil. (Kannski ætti betur við að segja hér „sem betur fer“ – umhugsunarefni) Sú hugsun að allt fari óðum versnandi hefur náð tökum á mörgum. Umhverfis, mengunar og hlýnunarmálin eru mér hugleiknust einmitt í dag, en á morgun gæti það eins orðið einhver utanaðkomandi ógn. Tortímast munum við á endanum, en minnkar sú vissa eða eykst – það er spurningin.

IMG 3179Kópavogur.


mbl.is Óvíst hvenær sumarþingið hefst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Umhugsunarverður pistill hjá þér, skólabróðir. Tek undir með þér varðandi óðagotið í virkjunarmálum, sem virðist ævinlega heltaka stjórnir þessara tveggja flokka. Reyndar þarf það ekki að koma á óvart, því fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem fjármagna þá liggja í því að framkvæmdir verði sem mestar, alveg sama hvað og hvort þörf er fyrir þær. Skynsemin fær engu ráðið né fyrirhyggja. Hyggilegast væri m.t.t. þess að við vitum ekki hvernig við knýjum t.d. samgöngur í framtíðinni að fara sér hægt og horfa bæði til arðsemi og náttúruverndar áður en virkjað er. Kárahnjúka/Fljótsdalsvirkjunaródámurinn ætti að vera nægilegt víti til varnaðar, en er það því miður alls ekki. 

Mig uggir að margur kjósandinn, sem krossaði við B í kosningunum, nagi sig nú í handarbökin.

Ellismellur 26.5.2013 kl. 10:07

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Við erum - sem þjóð - oft föst í því sem mest er haldið á lofti í stóru fjölmiðlunum. Við föllum auðveldlega í röð eftir lúðrablæstri þeirra án þess að taka eftir því sjálf.

Þjóðin gæti svo auðveldlega haldið sumarþing sjálf, en hún hefur misst trúna á sjálfa sig og þau gildi sem hún var sköpuð eftir á Þjóðveldisöld.

Varðandi álverksmiðjur, eða hvaða verksmiðjur sem er - þá hefur það verið hverjum menntuðum manni ljóst í fimmtíu ár að slík fyrirbæri eiga ekki heima á Íslandi. Örtækni og menntun eru gildi okkar þjóðar svo sem Össur og Marel hafa fyrir löngu sýnt fram á.

Að þessu sögðu fagna ég pistli þínum því rödd hrópanda í eyðimörk má aldrei þagna.

Guðjón E. Hreinberg, 26.5.2013 kl. 12:04

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Afsakið hraðann á mér "gildi okkar þjóðar" átti að vera "vegur okkar þjóðar". Góða helgi.

Guðjón E. Hreinberg, 26.5.2013 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband