1967 - Fjallið tók jóðsótt

Alltaf er verið að tala um að skapa störf og láta hjól atvinnulífsins snúast sem hraðast. Helst vildi ég að engin störf væru sköpuð og hjól atvinnulífsins hættu með öllu að snúast. Sé hægt að græða meira á því að selja raforkuna um streng til Evrópu en að burðast við að skapa störf í stóriðjunni eins og Ketill Sigurjónsson heldur fram, þá á hiklaust að gera það. Best væri auðvitað ef hægt væri að leggja öll störf niður. A.m.k. þau sem tengd eru álframleiðslu. Auðvitað er það samt ógerlegt. Hugsunin um að „skapa störf“ má ekki verða öllu æðri. Gróðinn er mikilvægari og þó mér þyki ekkert séstaklega gaman að grilla á kvöldin mundi ég frekar vilja gera það en búa til álklumpa.

Lífið hefur mér löngum kennt
að líða þrá og missa.
Koppurinn minn er kominn í tvennt.
Hvar á ég nú að pissa?

Vísur eiga það til að taka sér bólfestu í huga mér og engin leið er að losna við þær. Oftast fara þær samt á endanum. Sem betur fer. Oft eru þetta vísur sem ég hef lært einhverntíma í fyrndinni og stundum góðar. Þannig er það t.d. með þessa vísu. Hún er ekki eftir mig. Reyndar allsekkert sérstaklega góð heldur. Sá sem hefur gert hana hefur sennilega byrjað á botninum og smíðað fyrripartinn á eftir. Vísur verða oft til þannig. Jafnvel má búast við að hann hafi einmitt byrjað á síðasta orðinu og fundist það mjög dónalegt. Sannleiksgildi vísunnar skiptir litlu máli. Hún gæti alveg verið sannleikanum samkvæmt, þó ég skilji ekki vel hvernig koppur á brotna í tvennt. Áður fyrr (t.d. þegar kamrar voru miklu algengari og vatnssalerni varla til) hafa koppar eflaust verið algengir. Nú er þeir sárasjaldgæfir. Nema þá sem einhverskonar forngripir.

Þá er allt útlit fyrir að stjórnmálakverúlantarnir geti farið að láta til sín taka að nýju, því líklega er að koma ný stjórn. Varla verða allir hrifnir af henni. Félagslegu miðlarnir munu áreiðanlega láta til sín taka. Landslagið í allri fjölmiðlun er óðum að breytast. Allir geta látið ljós sitt skína núorðið. Spurningin er bara hvort einhver nennir að hlutsta. Eiginlega er það að verða alveg úrelt að ríkið sé að vasast í fjölmiðlarekstri. Auðvitað þarf það samt að stjórna og setja reglur. Man vel eftir að um það leyti sem Ríkisútvarpið var að flytja í Efstaleitiskastalann var verið að búa til eina útvarpsstöð uppi á Krókhálsi og eitt miðlungsherbergi var kappnóg fyrir hana.

Líklega mætti ég reyna betur við að rifja upp gömlu tímana í Hveragerði. Verst hvað búast má við að vitleysurnar verði margar. Ingibjörg systir, sem ég hitti um síðstu helgi, segist furða sig á hve minningar okkar um sömu hlutina eru oft ólíkar. Auðvitað er alveg mögulegt að mínar séu réttari. A.m.k. stundum. Mannlegt minni getur verið brigðult, þó eru einsögurannsóknir þær sem stundaðar eru og jafnvel gefnar út allsekki marklausar. Mat slíkra rannsókna verður samt alltaf erfitt.

Einn var sá maður sem setti nokkurn svip á gamla Hveragerði. Það var Hallgrímur heldrimaður. Kannski hefur hann bara hugsað aðeins meira um útlitið en tíðkaðist hjá garðyrkjumönnum um þetta leyti. Ekki minnist ég þess vel hvaða ræktun hann lagði einkum áherslu á, en tré ræktaði hann. Skák stundaði hann einnig í skákfélaginu eftir að það komst á koppinn og best man ég eftir honum þaðan. Hann hafði gaman af vísum. Einhverntíma var skorða á hann að gera botn við vísuna kunnu sem var svona:
Það er margt í mörgu
í maga á Ingibjörgu.

Hann hugsað sig svolítið um en hélt samt áfram að tefla og tuldraði fyrripartinn fyrir sér. Ekki gat hann botnað vísuna af neinu viti en sagði að mig minnir: „Þar hef ég verið löngum.“

Mér finnst að þeir Sigmundur og Bjarni hefðu átt að geta komið með eitthvað bitastæðara eftir þriggja vikna törn. Það er eins og þeir hafi ekkert gert allan tímann. Stjórnarsáttmálinn er eiginlega samkomulag um að athuga allan fjárann einhverntíma seinna. Ef guð lofar. Fjallið tók jóðsótt, en því miður kom ekkert útúr því.

IMG 3174Hús að koma uppúr jörðinni.


mbl.is Jákvæð og bjartsýn ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi Ketill þinn er jafnskrækur, ef ekki verra skrækur en nafni hanns.

Bara auðvelt dæmi. Ef þú ræktaðir kartöflur og ættir alltaf nóg af þeim. Mindirðu þá selja þær hráar ef þú fengir margfalt meira fyrir þær ef þú létir aðra búa úr þeim sallat. nei það vitlausasta sem hægt væri að gera væri að færa ESB hund héðan, væntanlega í eign einhverra fjármögnunarsjóða.

það eru margir búnir að reka þessa hundalógíu til ESB í ystu myrkur.

Jón Birgisson 22.5.2013 kl. 16:52

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það er eitt sem ekki gengur upp í málflutningi Landsvirkjunar um raforkusölu um sæstreng og það er fullyrðingin um umframorkuna. Nú er vatnsskortur í miðlunarlónum Kárahnjúkavirkjunar og ráðgert að skerða rafmagnssölu til álversins á Reyðarfirði. Þrátt fyrir umframorkuna sem er til í kerfinu þá er ekki hægt að koma henni austur útaf lélegum línum. Og um það snýst málið. Hér þarf ekki að leggja sæstreng, hér þarf að laga landsnetið svo allir standi við sama borð hvar sem er á landinu varðandi raforkukaup. Þá er ég viss um að þessi "umframorka" verði fljót að seljast.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.5.2013 kl. 18:52

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst þið vera að rífast við Ketil. Ég hef ekkert kynnt mér þetta mál sérstaklega. Þetta með sæstrenginn þarf að skoða vandlega. M.a. má það alls ekki vera mjög dýrt, nema samningur um sölu til langs tíma fylgi með.

Sæmundur Bjarnason, 22.5.2013 kl. 21:44

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sammála þér, þetta með hjól atvinnulífsins er ofmetið.

Hjól atvinnulífsins - allavega virðist hann vera á leiðinni í vinnuna.

Mynd fengin héðan.

Theódór Norðkvist, 22.5.2013 kl. 23:11

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hérinn og haninn tóku jóðsótt og fæddu mús.

Nánari skýringar á Facebók.

Jón Valur Jensson, 23.5.2013 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband