27.4.2013 | 00:08
1950 - Kjörfundur hefst í fyrramálið
Með því að kjósa einn af litlu flokkunum er ég að stuðla að minnkun þess af fjórflokknum sem höfðar mest til mín. Þetta finnst mér rétt að komi fram því mér finnst Samfylkingin hafa brugðist kjósendum sínum að verulegu leyti. Með þessu er ég einnig að segja að þó hinir hægri sinnuðu flokkar auki í staðinn áhrif sín þá sé það ekki eins hættulegt og margir vilja vera láta. Í grunninn held ég að allir sem í stjórnmálum eru vilji láta gott af sér leiða.
Þess vegna er mér alveg ósárt um það þó Framsókn og Sjálfstæðisflokkur auki áhrif sín á kostnað Samfylkingarinnar vegna þess að ég kýs Píratana. Ég er eiginlega búinn að ákveða að kjósa þá. Frammistaða Birgittu Jónsdóttur var með þeim hætti í umræðuþættinum í sjónvarpinu í gærkvöldi að mér virðist það ekki vera nein áhætta. Það eru margir sem láta í ljósi skoðanir sínar fyrirfram í aðdraganda kosninga. Ekki ætti mér að vera neitt vandara um en þeim. Einu sinni var kosið í heyranda hljóði. Mikið vildi ég að sá tími væri kominn aftur.
Ég er fyrir löngu búinn að missa tökin á þessari bloggónáttúru hjá mér að því leyti að ég gleymi svotil strax hvað ég er búinn að blogga um. Stundum finnst mér að allir séu að hamast við að gera eins og ég. Stundum er ég líka uppfullur af þeirri hugmynd að ég sé að herma eftir einhverjum öðrum. Sennilega er ekkert að marka þessar ímyndanir. Kannski er bara best að blogga í þeim ímyndarheimi sem til staðar er hverju sinni.
Nú er víst kominn föstudagur og örstutt orðið til kosninga. Nú er bara að einbeita sér að því að finna sína kjördeild og kjósa. Hvort maður kýs rétt eða vitlaust skiptir minna máli. Flestir kjósa hvort eð er vitlaust. Það er helst að sumir frambjóðendur kjósi hugsanlega rétt enda eru þeir búnir að vera á þrotlausum æfingum undanfarið. Þeir eru samt ekki það margir að úrslitum ráðí.
Hvurslags er þetta? Hugsar fólk bara ekki um annað en kosningar. Fór áðan á fésbókina og þar er ekki hægt að þverfóta fyrir kosningaáróðri. Ekki er ég svona slæmur. Er það nokkuð? Kannski hef ég skrifað um fátt annað en pólitík undanfarna daga, en ég lofa að hætta því eftir helgina. Þá er ég að hugsa um að taka þátt í stjórnarmyndunarkaplinum. Muhaha. Þarna plataði ég sjálfan mig.
Hjá plötuelskandi pöplinum, sem ég vil nú helst ekki tilheyra, virðist það vera álitin sérstök listgrein að lesa það sem stendur utaná plötu-umslögum. A.m.k. virðast margir útvarpsþættir vera þannig að fólki séu greidd laun fyrir að lesa slíkt með mátulegri tilfinningu á milli laga. Ég er svo ómúsíkalskur að mér finnst slíkum þáttum frekar fara fjölgandi en hitt. Man eftir einum þætti sem hét lunga fólksins (eða var það kannski: lög unga fólksins). Manni fannst að maður ætti að hafa áhuga á því hvað væri spilað þar en mér tókst aldrei að drífa þann áhuga upp.
Varðandi snjókomuna og það alltsaman bið ég fólk að fara gætilega. Þetta er bara venjulegt kosningahret og á eftir að lagast. Hver veit nema sumarið komi fyrir rest. Ég er allavega búinn að festa mér bústað í Ölfusborgum seinni partinn í ágúst. Þá verður sumarið áreiðanlega komið. (En kannski farið aftur.)
Kjörfundur hefst í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.