16.4.2013 | 21:21
1941 - Nennessuekki
Einhverjar hugleiðingar um mál sem fjallað er um á mbl.is virðist vera lykillinn að vinsældum á Moggablogginu, en hvers virði eru slíkar vinsældir? Mér finnst þær ekki mikils virði og snúast um það eitt að komast sem efst á einhvern lista sem birtur er daglega og kallast 400-listinn. (50 er samt defáltið). Nennessuekki. Aftur á móti er blogg-gáttin alveg óvitlaus hugmynd. Þar er ég líka og stundum jafnvel á meðal þeirra bestu. Mér finnst samt alveg vera þess virði að vera á Moggablogginu því þar klikkar fátt. Þar að auki er einhver fjöldi tölvufróðra manna sem vinnur þar og leystir þau vandamál sem upp koma.
Pólitíkin er alveg að gera mig gráhærðan og var hárið á mér og skeggið þó orðið hvítt fyrir. Mér finnst þessi söngur um hver sé að slátra hverjum og upprifjun á því sem frambjóðendum kann að hafa orðið á í fortíðinni vera orðin hundleiðinleg. Það er eiginlega svo margt að gerast í veröldinni að það tekur því ekki að vera að þessu væli. Auðvitað er samt hægt að halda því fram að einhverju máli skipti hvaða nesti menn hafa með sér við stjórn landsins næstu fjögur árin. Nennessuekki.
Lausaganga hunda er víða bönnuð. Ef farið er að tala við hunda-aðdáendur um það fara þeir oft samstundis að tala um ketti. Þess vegna er varasamt að gera það. Munið bara að geltandi hundar bíta ekki. Þeir eru nefnilega uppteknir við að gelta og ganga í augun á eiganda sínum eða meðreiðarsveini. Hundar sem eru lausir úti að ganga væru áreiðanlega búnir að finna sér fórnarlamb ef þeir væru grimmir. Sumir hundar þykjast ráða yfir ákveðnum svæðum og þá er bara að virða það með því að taka sveig framhjá þeim. Annars eiga hundar ekki að vera lausir.
Eftirfarandi eru fáein fótmæli úr Rafritinu sáluga og hér er linkurinn þangað: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm
Prentvilla?. Útilokað. Módemið mitt er með leiðréttingarútbúnaði.
Námskeið um tímaferðalög var haldið fyrir hálfum mánuði.
Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.
Kemur stálull af stálkindum?
OS/2 = 0
Ég er ekkert búinn að tapa vitinu, það er backup hérna einhvers staðar.
Ef ég bjarga hvölunum, hvar á ég þá að láta þá?
Aldrei tilkynnir DOS "EXCELLENT command or file name".
Ef verkið heppnast ekki í fyrstu tilraun skaltu eyða öllum ummerkjum um að þú hafir reynt.
Farðu að mínum ráðum, ég þarf ekki á þeim að halda.
Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.
File not found. Ég sæki bara eitthvað sem *mér* finnst áhugavert.
Dauðir eru 30 sinnum fleiri en lifendur.
Sá sem brosir í erfiðleikum hefur fundið einhvern til að kenna um.
Hvert erum við að fara? Og af hverju erum við í þessari körfu?
Skelfing er fésbókin að verða leiðinlega svona í tilefni af kosningunum. Kannski hef ég svona lélegan vinaveljara en þeir virðast næstum allir helteknir af kosningaveikinni. Held að það sé jafnvel verra að hafa flokkana svona marga. Þá virðist þurfa að mæla með svo mörgum. Hvernig skyldi lífið vera ef engar væru kosningarnar. Reyndar skipta kosningarnar sjálfar minnstu máli. Það er þessi gír sem besta fólk dettur í þegar þær nálgast sem er næstum óþolandi.
Undarlegur andskoti að menn skuli helst ekki geta stundað heilbrigða og holla útivist án þess að þykjast vera jeppafrík, veiðimaður eða golfari. Mér finnst alveg nóg að vera úti að ganga og ekki þurfa að þykjast vera eitthvað annað en maður er í raun og veru. Fyrir marga held ég að jökla-aksturinn, sportveiðimennskan og hlaupin á eftir golfkúlunum séu bara afsökun fyrir því að vera úti. Engin raunveruleg sannfæring fylgi þessum gerfiáhuga.
Svanur, eða er þetta kannski álft?
Athugasemdir
Já, heimurinn verður ekki betri en við gerum hann sjálf, með öllum okkar misvitru skoðunum og athugasemdum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.4.2013 kl. 21:53
Nei Anna, það er alveg rétt.
Sæmundur Bjarnason, 17.4.2013 kl. 09:29
Hef ekki spáð í þennan 400 lista. Er hann eitthvað ofan á brauð. Endirinn á blogginu þínu er bráðfyndinn Sæmundur minn, takk fyrir að bjarga deginum fyrir mér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2013 kl. 14:13
Ég kíki alltaf öðru hvoru á þennan lista, Ásthildur. Hann er á blog.is vinsælast minnir mig. Hvað varðar endann á blogginu mínu veit ég ekki hvort þú átt við myndina eða golfið. Ef ég er fyndinn þá er það að mestu óvart.
Sæmundur Bjarnason, 17.4.2013 kl. 17:45
Þetta með er stálull af stálkindum og svo framvegis. Myndin er falleg, en hitt er fyndið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.4.2013 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.