1934 - Al Thani

Einu sinni voru til laumukommar. Nú er þeir allir komnir úr skápunum, auk þess sem það er ekki í tísku lengur að vera kommi. Nú eru menn í mesta lagi laumuframsóknarmenn og skammast sín einhver ósköp fyrir að trúa fagurgalanum í Sigmundi, ef marka má andstæðinga hans. Framsóknarkommar eru víst líka til og hafa hreiðrað um sig í einum af pínulitlu flokkunum eftir því sem sagt er. Pólitískar skilgreiningar af þessu tagi eru samt alltaf vafasamar og þjóna engum tilgangi. Það eina sem skiptir máli er krossinn á kjörseðlinum.

Ætlaði samt sem minnst að fjalla um stjórnmál en get bara ekki stillt mig. Það eru svo spennandi tímar núna. Hugsið ykkur hvernig það yrði ef Framsóknarflokkurinn fengi hreinan meirihluta á alþingi. Einhverjir færu í fýlu það er ég viss um. Þetta verður það sem „sérfræðingarnir“ munu kalla sutta og snarpa kosningabaráttu. Fram að þessu hefur svo margt truflað stjórnmálamennina frá því að einbeita sér að kosningabaráttunni, að það hefur farið blessunarlega lítið fyrir þeim. Nú eru þeir sælutímar liðnir og það verður enginn friður fyrir þeim næstu vikurnar. Samt er veðrið ágætt. Ætli það verði ekki bara smákosningahret og svo komi sumarið.

Á fésbókinni hefur verið rætt um veiðiskap og hnefaleika svo eitthvað sé nefnt. Auðvitað hef ég skoðanir á því eins og öðru. Á Mallorca sá ég eitt sinn nautaat og þótti það eftirminnileg sjón. Hef sáralítið stundað veiðiskap, kannski einkum vegna leti. Meðal uppháldsíþróttagreina minna má (eða mátti eitt sinn) telja skák, kappakstur (formúla 1), tennis og hnefaleika. Liðsíþróttir eiga ekki mikið uppá pallborðið hjá mér. Þó get ég ekki annað en hrifist með þegar „strákarnir okkar“ standa sig vel. Ég er mikið á móti sportveiðum og öllum ónauðsynlegum veiðum af hugsjónaástæðum, en hef allsekkert á móti veiðimönnum. Nautaat er í mínum núverandi augum dyrplageri af verstu sort, eins og danskurinn mundi segja. Bardagaíþróttir allar (og einkum þó hnefaleikar) finnst mér að ættu að sæta ströngum skilyrðum og eru fyrst og fremst til fyrir áhorfendur og vegna peninganna.

Hef enga trú á að þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall hafi gert skjólstæðingum sínum neinn greiða með yfirlýsingum sínum í dag. Almenningsálitið er fyrir löngu búið að dæma þá menn sem þeir eru að verja og ef dómstólarnir vilja gera sitt líka, þá er það ekki lögfræðinga (þó góðir séu) að segja þeim til. Ef pöpullinn á að haga sér eins og dómstólarnir segja, þá eiga skjólstæðingar þeirra Gests og Ragnars ekki síður að gera það. Líklegt er að þeir lögfræðingarnir, sem hingað til hafa verið nokkuð virtir af almenningi, hafi með öllu eyðilagt orðspor sitt með þessu.

IMG 2939Útvistaður ísskápur


mbl.is Segja sig frá Al Thani málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gott ef þetta er ekki einmitt skjaldborgin um heimilið..  allavega snýr hún öfugt því íbúinn er fluttur út

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.4.2013 kl. 23:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jóhannes það má eiginlega segja það. Eigulegasti hluturinn er samt ísskápurinn. Annað virðist ekki merkilegt og er fremur lítilfjörleg búslóð, ef útí það er farið.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2013 kl. 07:22

3 Smámynd: Halldór Þormar Halldórsson

Ég held reyndar að Ragnar og Gestur séu ekki alveg með fingurna á púlsinum hjá almenningi og Gestur vann Baugsmálið að miklu leyti í gegnum fjölmiðla með því að höfða til þess að umbjóðandi hans sætti pólitískum ofsóknum. Ég held að það virki ekki í dag. Það gerði það þá í boði þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn í dag.

Halldór Þormar Halldórsson, 9.4.2013 kl. 13:28

4 Smámynd: Billi bilaði

Bardagaíþróttir eru ekki allar eins. T.d. í karate færðu refsingu fyrir að snerta andstæðing of mikið, og stig eru gefin fyrir tækni.

Annars segi ég eins og þú, að það væri athyglisvert ef Framsókn fengi hreinan meirihluta og þyrfti að standa við öll stóru orðin ein og sjálf. Gæti ekki kennt samstarfsflokknum um loforðasvik.

Billi bilaði, 9.4.2013 kl. 15:09

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já,Halldór ég held að þetta hafi verið mistök hjá lögfræðingunum. Þeir virðast hafa haldið að dómararnir hræddust þá.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2013 kl. 15:55

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er gaman að horfa á bardagaíþróttir ef maður þekkir reglurnar. Strangar reglur þarf samt að setja til að minnka áhættuna.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2013 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband