6.4.2013 | 11:02
1932 - Stjórnmál og þess háttar
OK, það virðist vera sem ég geti valið á milli þess að kjósa Guðmund Steingrímsson, Bjarna Benediktsson, Árna Pál Árnason, Eygló Harðardóttur, Ögmund Jónasson, Margréti Tryggvadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Lýð Árnason. Ekki dónalegt það. Svona er að vera búsettur í Kópavogi. Þetta er bara fólkið sem er í efstu sætunum í Suðvestur-kjördæmi hjá þeim framboðum sem ég hef fundið. Sjálfsagt eru þau mun fleiri. Ég er ekkert uppfullur af valkvíða því ég reikna með að geta útilokað allmörg framboð. Jafnvel Sturlu Jónsson, en mér finnst það mjög hraustlega gert hjá honum að vera heill stjórnmálaflokkur.
Íris Erlingsdóttir heldur því fram í grein sem hún nefnir: Hvert fór fortíð Framsóknar? http://www.dv.is/blogg/iris-erlingsdottir/2013/4/5/hvert-for-fortid-framsoknar/ að á vefsvæði Framsóknarflokksins sé búið að þurrka næstum allt út sem eldra er en frá 2009. Þessu trúi ég varla, en nenni ekki að gá. Er eiginlega alveg sama því ég ætla alls ekki að kjósa þann flokk. Einu sinni var sagt um hann að hann væri opinn í báða enda. Mér hefur alltaf fundist hann afskaplega tækifærissinnaður og áður fyrr var hann afar hallur undir bændaforystuna og samvinnuhreyfinguna auk þess að vera spilltur mjög. Hef alltaf haft mikla samúð með verkalýðnum og er þar af leiðandi talsvert vinstri sinnaður. Sennilega krati.
Margir (eða a.m.k. sumir) virðast halda að Framsóknarmenn séu að lofa upp í ermina á sér þegar þegar þeir lofa að skuldir fólks verði lækkaðar svo og svo mikið. (Kannski er erfitt að gera það svona eftirá en Sigmundur lætur ekki smáatriði stöðva sig.) Það getur vel verið að þetta séu ermaloforð, en það skiptir bara engu máli. Verði einhverjir fyrir vonbrigðum er ekki hægt að refsa flokknum fyrr en eftir fjögur ár.
Í mínum huga koma, eins og er, einkum tveir aðilar til greina með að fá mitt atkvæði í komandi kosningum. Það eru Píratar og Lýðræðisvaktin. Á samt eftir að skoða málin betur og það liggur í rauninni ekkert á að ákveða sig. Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var birt í morgun og þar er mér tjáð að Framsóknarflokkurinn fái um 40 prósent atkvæða. Um það hef ég bara ekkert að segja og geri ráð fyrir að skýringarnar séu margar á uppsveiflu Framsóknar og afhroði Sjálfstæðisflokksins sem hvorttveggja kemur eflaust sumum á óvart. Held að margir hafi hinsvegar gert ráð fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr, riði ekki feitum hesti frá þessum kosningum.
Sennilega er fólk ekki eins nýjungagjarnt og það lætur í veðri vaka. Mér finnst hinn gríðarlegi stuðningur sem Framsóknarflokkurinn fær í skoðanakönnunum undanfarið vera best skýrður með því að fólki finnist að fjórflokkurinn eigi að vera áfram við völd. Eflaust kjósa margir ólíkt því sem þeir eru vanir án þess að taka það stóra skref (sem þeim finnst) að kjósa útfyrir fjórflokkinn. Fróðlegt mjög verður að sjá hvað kemur uppúr kjörkössunum í lok þessa mánaðar.
Þetta blogg mitt er að verða ansi pólitískt. Eiginlega er það skaði. Samt er það á margan hátt afsakanlegt því svo stutt er orðið til kosninga. Fésbók, blogg, Internet, bækur, saga, tölvur og tæki er samt það sem ég hef að mörgu leyti mestan áhuga á. Vissulega er þar um margt að ræða sem vel mætti skrifa um, en pólitíkin er bara svo spennandi núna. Það eru samt margir sem engan áhuga hafa á henni og hundleiðist allt sem henni tengist. Hrunið og þau versnandi lífskjör sem mjög margir (jafnvel flestir) verða að búa við eftir það, hefur samt aukið stjórnmálaáhuga fólks. Miklu fleiri virðast þurfa að tjá hug sinn opinberlega en áður var. Kannski er samt ekkert meira lesið, en baráttan um lesendurna bara mun harðari.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.