1918 - Kýpur

Prófaði eina nýjung varðandi bloggið í morgun. Linkaði í frétt um Jóhönnu Sigurðardóttir og ætla að athuga hvort það er eitthvað betra en ekki. (Semsagt að linka.)

Já, ég er ekki frá því að fleiri lesi snilldina með þessu. Þá er það semsagt tvennt sem ég þarf alltaf að muna þegar ég set upp blogg. Finna hæfilegan link á mbl.is og auglýsa bloggið á fésbókinni (tvisvar). Já, einmitt það. Man núna að ég ætlaði að auglýsa tvisvar á fésbókinni en hef víst gleymt því undanfarið.

Nú ætla ég að fara að hlusta á hálftíma hálfvitanna í sjónvarpinu. Það er eitt það skemmtilegasta þar. Sérstaklega ef Ragnheiður Ásta tekur bjöllusóló.

Eru Íslendingar sinnulausir um eigin hag? Mér finnst ansi margir vera það ef rétt reynist að hleypa eigi Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum að kjötkötlunum aftur. Hef enga trú á að þeir flokkar hafi breyst nógu mikið. Núverandi stjórnvöldum hefur mistekist margt. Einkum hefur þeim orðið lítið ágengt í áróðursstríðinu. Það stríð skiptir talsverðu máli. T.d. er greinilegt að Bandaríkjamenn og Ísraelsmenn hafa tapað áróðursstríðinu í heimsmálunum, ef bara er horft til Evrópu og miðausturlanda. Á heimavígstöðvum kann þó að vera að vígstaðan sé alls ekki eins erfið. Kannski er það hún sem skiptir mestu máli.

Ein matvörukeðjan hefur fundið uppá slagorðinu: „Kræsingar og kostakjör“. Ég skil þetta þannig að kræsingar (góður matur) geti ekki verið á kostakjörum og kostakjörin geti ekki átt við kræsingar. Kannski á að skilja þetta á einhvern annan veg, en mér finnst það ekki liggja í augum uppi.

Kýpur er á barmi örvæntingar og íslenskir ESB-andstæðingar fagna mjög. Vel má hugsa sér að bankarnir á Kýpur ( því gríska) fari á hausinn, en Kýpurbúar fá áreiðanlega ekki 100% gengisfellingu í hausinn líka. Búast má við að lágar bankainnistæður fáist að fullu greiddar, en kannski ekki allt rússagullið. Man enn hvað Kanaríeyjabúum fannst um bankahrunið hér.

Landlægt er hér að rugla saman gríska og tyrkneska hluta Kýpur. Á smáþjóðaleikum sem haldnir voru hér á Íslandi fyrir fáeinum árum var vitlaus fáni dreginn að húni og íþróttamennirnir hneyksluðust mjög. Dannebrog hvað?

Sko til! Íslendingar geta bara unnið útileiki í knattspyrnu. Eftir 14:2 leikinn í Kaupmannahöfn var ég farinn að efast um það. Man vel eftir þeim leik. Held að Sigurður Sigurðsson hafi lýst honum eftirá og hann hafi verið sýndur allur í sjónvarpinu. Gott ef Sigurður var ekki greinilega drukkinn við að lýsa þeim leik. Skiljanlegt. Annars hefur áhugi minn á knattspyrnu og íþróttum yfirleitt minnkað mikið með aldrinum. Hafði heilmikinn áhuga á þessu öllusaman áður fyrr. Eftir Hrunið má eiginlega segja að pólitíkin hafi komið í staðinn.

„Shaken baby syndrome“ er ekki til segja sumir. Atburðir af þessu tagi eru yfirleitt sorglegri en orð fá lýst. Man vel eftir bresku barnfóstrunni sem kærð var útaf slíku máli í Bandaríkjunum. Oft er undarlegt hvaða mál verða áberandi í heimsfréttunum. Mislíkar oft við fyrirsagnir og myndir í innlendum fjölmiðlum. DV virðist t.d. oft reyna að selja fáein blöð útá það eitt að hafa fyrirsagnirnar nógu krassandi og láta fólk halda að atburðirnir hafi gerst á næsta götuhorni.

Flestar af mínum minningum eru með einhverjum hætti bundnar fólki. Þar af leiðir að oft er þægilegra að skrifa um slíkt þegar langt er liðið frá því sem lýst er. Minningarnar tengjast líka frekar orðum og textum en lögum. Hef oft heyrt að tiltekin lög minna fólk á ýmislegt. Þannig er ég ekki. Samt sem áður er það undarlega lítið sem maður man. Kannski er réttast að segja sem betur fer. Endurminningabækur held ég að séu oft mikill skáldskapur. Oft taka höfundar það fram að ekki megi treysta því um of sem skrifað er. Minnið er líka brigðult með afbrigðum. Ýmislegt sem maður heldur að sé alveg öruggt er kannski mesta vitleysa. Hvernig ætli standi á því?

IMG 2869Undirgöng.


mbl.is Kýpurdeilan rædd í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband