1891 - Íhaldshrókur afleitur

Einu sinni var farið í mikið heilsuátak á Stöð 2, þegar ég vann þar. Í alllangri gönguferð um hálsana sem ég tók þátt í (kannski þeirri fyrstu og einu) var m.a. rætt um hve hollar gönguferðir væru og skömmu seinna var farið að ræða um Halldór Laxness. Þá segir María Maríusdóttir og mér er þetta alltaf mjög minnisstætt: „Þið sjáið nú hvernig komið er fyrir honum. Hann var alltaf sígangandi út um allt á sínum yngri árum og nú getur hann ekki dáið.“ Um þetta leyti var Halldór lifandi, en að mestu kominn út úr heiminum.

Af einhverjum ástæðum dettur mér alltaf í hug vísa sem ég lærði fyrir ekkert mörgum áratugum þegar ég heyri minnst á landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins. Ég þurfti ekki að heyra þessa vísu nema einu sinni til að læra hana og það bendir til þess að hún sé nokkuð góð. Svona minnir mig að hún sé, vel getur samt verið að einhver orð séu breytt:

Íhaldshrókur afleitur,
innan sviga graður.
Þrammar áfram þrefaldur
Þorsteinn kvæðamaður.

Hinir og þessir á fésbókinni eru öðru hvoru að segjast hafa samþykkt vinabeiðni mína. Samt er ég alveg viss um að ég hef aldrei beðið þau um fésbókarvinskap. Kannski er bókarskruddan að versna núna um þessar mundir. Konráð Ragnarsson sendi mér t.d. eitthvert myndband um daginn, sem ég opnaði ekki og nú heyrist mér á einhverjum að það hafi verið vírus þar. Samþykki helst ekkert af því sem að mér er otað á fésbókinni. Skoða ekki einu sinni myndir eða myndbönd ef þess er krafist að ég gerist í staðinn áskrifandi að einhverju appi. Kannski er ég að missa af einhverju voða sniðugu með þessu, en það verður bara að hafa það.

Enn held ég áfram að tala um fésbókina, enda er það tungunni (puttunum) tamast sem hjartanu er kærast. Eins og allir vita (ehemm) er ég vanur að klikka á fésbókartakkann á Moggablogginu þegar ég er búinn að blogga. Það þýðir (held ég) að þeir fésbókarvinir mínir sem eru að villast á bókardruslunni sjá að ég er búinn að blogga. Nú bregður svo við að í stað myndarinnar af mér sem venjulega fylgir slíku er birt mynd af blogginu mínu. Guð láti gott á vita. Kannski er fésbókinni bara að fara fram eftir allt saman.

Sé eingöngu litið á ályktanir landsfunda er hægt að álíta að Samfylkingin hafi færst nær miðju, Sjálfstæðisflokkurinn til hægri og frá miðjunni, Vinstri grænir nær miðju og Framsóknarflokkurinn lofað öllu fögru. En auðvitað er ekkert að marka slíkar samþykktir. Líklegt er samt að Sjálfstæðisflokkurinn komist í ríkisstjórn annaðhvort með Framsókn eða Samfylkingu. Ómögulegt er samt eins og sakir standa að fullyrða nokkuð um hver staða litlu flokkanna verður.að kosningum loknum. Eins er mjög óljóst hvernig þinginu lýkur og það mun geta haft áhrif á úrslit kosninganna.

Skattahækkanir eða skattalækkanir. Það er stóra spursmálið. Íslendingum hættir til að telja sig stórum ríkari en þeir eru í raun. Þessvegna er það þannig að margir þeirra auðmanna sem Sjálfstæðisflokkurinn eru alltaf að reyna að gera vel við eiga varla fyrir salti í grautinn. Sömuleiðis er ég skíthræddur um að stór hluti þeirra sem súpeldhúsin sæka (hvar eru þau nú aftur) hafi enga þörf fyrir þau.

IMG 2631Veðraðir stólar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband