1879 - Að vera virkur í athugasemdum

Hvar gerast markverð tíðindi? Hvergi sýnist mér. Ekki gerist neitt á fésbókarræflinum, ekki á blogginu heldur, þó ég skrifi eitthvað (sem sjálfum mér og fáeinu öðrum finnst kannski merkilegt.) Einu sinni hélt ég að eitthvað markvert gerðist öðru hvoru á alþingi. Nú er ég hættur að halda það. Birgitta bölsótast útí Ástu Ragnheiði. Þráinn hótar að hætta að styðja ríkisstjórnina. Davíð hlær inní sig í Hádegismóum. Jóhanna er í felum. Steingrímur þykist vera að útbúa almennilegt kvótafrumvarp (sem er samt ómögulegt) o.s.frv.

Bæði stjórnarskárdeilunni og hjúkrunarfræðinga (-kvenna) deilunni lýkur einhverntíma. Vonandi þó ekki með skelfingu. En hver nennir að bíða eftir því? Mesta spennan verður sennilega í kringum kosningarnar í vor. Sumum leiðast slík fyrirbrigði samt mikið.

Mig minnir endilega að Harpan hafi upphaflega átt að kosta hálfan annan milljarð. Eitthvað hefur hún samt stækkað síðan. Og er nú líklega búin að kosta svona 30 milljarða. Kannski miklu meira en það. Allt er reynt að fela. Ég er samt á því að þetta sé hið fínasta hús. Bæði að utan og innan. Dýr auðvitað. En hverjum er ekki sama um það?

Skammaryrðið sem er að ná fótfestu í málinu er „virkur í athugasemdum“. Hver vill annars vera það? Þetta er uppnefni sem fésbókin fann uppá. Aumingjaskapur þeirra netmiðla sem hafa beðið fésbókina að sjá um athugsemdir sínar er algjör. Samt get ég ekki stillt mig um að fara á fésbókina oft á dag. Hangi þar ekki viðstöðulaust inni eins og mér sýnist að sumir geri.

Er bloggið eitthvað betra? Kynni einhver að spyrja. Ja, mér finnst það betra, en auðvitað er það bara nokkurs konar eintal meðan fésbókin er þegar best lætur a.m.k. samtal. Það samtal getur ekki gengið hraðar fyrir sig en nákvæmlega jafn hratt og þátttakendurnir eru fljótir að vélrita. Því betri vélritari, því meiri skrif og minni misskilningur. Er það þá bara endurbót á tölvupóstinum. Já, mér finnst það. Bloggurum er oft mikið niðri fyrir. Stjórnmálin flækjast mikið fyrir þeim. Eru blogg þá ekki bara einskonar greinaskrif? Jú, eiginlega, en það eru bara ekki allir annað hvort bloggarar eða fésbókarar þó sumir tölvunördar virðist halda það.

Hjúkrunarkvennadeilan leyst, alþingi malar um stjórnarskrá. Þetta eiga víst að heita helstu fréttirnar. Ég nenni þessu bara ekki.

IMG 2531Strætóskýli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta skýli vann verðlaunasamkeppni 1978 og þótti frétt þá.......

Langþreyttur 13.2.2013 kl. 08:15

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi skýli skýldu fyrir veðri og vindum eins og gömlu skýlin gerðu en þessi nýju gera það ekki. Þau eru fyrst og fremst hönnuð fyrir auglýsendur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.2.2013 kl. 13:53

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta skýli er í Hafnarfirði og mér finnst það flott. Hef ekki séð svona skýli í Reykjavíkinni eða Kópavoginum. Myndin er alveg ný.

Sæmundur Bjarnason, 13.2.2013 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband