1877 - Jóhanna Sigurðardóttir

Myndin sem fylgdi síðasta bloggi var alveg óvart endurtekning frá deginum áður.

Ég held að Jóhanna Sigurðardóttir geri sér enn í alvöru vonir um að koma stjórnarskrárfrumvarpinu í gegn. Hvernig alþingi fer með það frumvarp áður en störfum þess lýkur ræður mjög miklu um úrslit kosninganna í vor. Stjórnmálalega séð (ehemm) eru þetta einstakir tímar sem við lifum á. Kvótafrumvarpið er óttalegur óskapnaður og langt frá því sem lagt var upp með. Flest stórmál sem ríkisstjórnin hefur reynt að koma fram hafa mistekist. Þó er landið að rísa, ef á heildina er litið.

Lausaganga hunda á Reykjavíkursvæðinu er vandamál. Hún er samt bönnuð eftir því sem ég best veit. Vandamálið er ekki hægt að leysa með einhverri patentlausn sem hugsanlega hentar allsekki. Lykilatriði er að það þarf að vera einhver aðili sem fylgir slíku banni eftir. Illt er að láta hundana gjalda þess og eigendurnir eru alls ekki alltaf sekir um vanrækslu þó hundarnir sleppi úr gæslu og áreiti fólk.

Verst er að lausagangan er að verða það almenn að fólk sem óttast hunda er síður á ferli útivið í borgarlandinu en það mundi annars vera. Venjulega enda deilur um þetta með því að fólk fer að hrópa á hvert annað og draga ketti og allskyns óskyld atriði inn í málið.

Óþrifin eru hluti vandans, en sá hluti fer batnandi. Verst er að ruslaílát eru fá á almannafæri og sjaldan losuð. Ef hægt væri að bæta eftirlitið og minnka lausagönguna væri mikið unnið.

Árið 1972 kom ég í bankaútibú í Glasgow í Skotlandi til að fá skipt ávísum sem ég hafði fengið í Úvegsbankanum sáluga. Hún var sennilega 8 eða 9 hundruð pund. Í þessu útibúi voru innréttingar allar svo fornfálegar að á Íslandi hefði verið búið að henda þeim fyrir löngu. Afgreiðslustúlkan kallaði á útibússtjórann og hann fórnaði höndum þegar hann sá hvað ávísunin var gríðarlega há og benti mér á að fara í aðalstöðvar Bank of Skotland og athuga hvort þeir réðu við þetta. Það gekk. Glasgow er sennilega fyrsta erlenda borgin sem strákarnir mínir komu til. Mér er minnisstætt að þeim þótti merkilegt að göturnar þar væru svartar eins og heima. Það bætti þó örlítið úr að þeir sáu ríðandi lögregluþjón. Það höfðu þeir ekki séð á Íslandi.

IMG 2481Lækur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Við nánari íhugum sýnist mér að þetta hafi ekki verið árið 1972 heldur eitthvað seinna.

Sæmundur Bjarnason, 10.2.2013 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband