1855 - Vilborg Arna Gissurardóttir

Þegar ég verð andvaka á nóttinni þá gengur mér vel að skrifa. A.m.k. þangað til svefntaflan fer að virka. Núna í nótt er það Vilborg Arna sem truflar mig meira en svefntaflan. Ég fór nefnilega að sofa um ellefu leytið, en vaknaði svo klukkan að verða tvö og sé að henni hefur tekist að komast á pólinn í millitíðinni og það var nóg til þess að um fátt annað er hægt að skrifa. Úthald,  þrek og taugastyrk er ekki hægt að mæla betur en með ferð af þessu tagi. Því miður næ ég víst aldrei að vinna neitt svona afrek, en það verður bara að taka því.

Miðað við þann áhuga sem verið hefur fyrir göngu Vilborgar á Suðurpólinn er söfnunarféð afar lítið. Ekki nema 5 milljónir. Það samsvarar því að hver Íslendingur hafi gefið einar 17 krónur, gamlar, hrundar og trosnaðar en samt fjötraðar niður með gjaldeyrishöftum. Ekki hef ég gefið neitt svo einhverjir hafa gefið heldur meira en það. Það breytir því samt ekki að þetta er skammarlega lítið, en mér ferst auðvitað ekki að láta svona.

Nú er lífið að færast í eðlilegar skorður eftir mikinn gauragang í kringum áramótin. Loksins virðist sprengiefnið þrotið og í gærkvöldi heyrðust ekki nema átta sprengingar og í morgun hefur verið svo hljót að jafnvel hefur heyrst einstaka bílflaut. Baggalutur.is og gys.is eru þær vefsíður sem skylda er að byrja daginn á að skoða og eru þær álíka fyndnar og venjulega svo óhætt er að sleppa fram af sér beislinu og fara í bað. Svo er ekki að vita nema einhverntíma birti.

Mér dettur helst í hug að hafa fyrirsögnina á þessu bloggi: Vilborg Arna Gissurardóttir. Það ætti að tryggja sæmilega upphæð á Moggabloggslistanum. En er ég að sækjast eftir því. Ég hélt ekki. Auðvitað er það samt skemmtilegra að einhverjir lesi það sem ég skrifa. 

Það skelfilega við uppsagnir læknaliðsins á Lansanum er að ekki er víst að það sjái högg á vatni í útlandinu þó allir fari þaðan. Vel er hugsanlegt að allir ráði sig til Noregs eða eitthvert annað. Jafnvel forstjórinn líka. Ekki er samt víst að neinn verði var við það fyrr en enginn mætir lengur til vinnu. Þá kann að vera of seint að gera nokkuð.

Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Kvað einhver hagyrðingurinn fyrir margt löngu. Nú er það Vilborg Arna sem getur kyrjað þessa vísu af mestri sannfæringu, enda engum háð. Hin vísan sem ég kann er svona:

Hvað er það sem úti frýs?
Fyrir utan Paradís?
Það eru bæði maðkar og mýs.
Mannaskítur og færilýs.

Nei, ég get ekkert að því gert þó mér detti svona samsetningur í hug. Mér fannst bara þurfa að lengja þetta blogg pínulítið.

IMG 2406Tertuleifar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband