1838 - Endurunnin blogg

Nú er ég að lesa bókina „Under The Dome“, eftir Stephen King. Hún var á tilboði á Amazon. Kostaði 1 eða 2 dollara. „Reykjavíkurnætur“ Arnaldar las ég nokkru fyrir jól. Fékk hana á bókasafninu. Ég er bara þannig settur að ég get ekki eytt stórfé í að svala lestrarfýsn minni. Kaupi semsagt helst ekki bækur, nema þær séu mjög ódýrar og ætlast jafnvel ekki til að fá þær í jólagjöf. Bókasafnið og kyndillinn duga mér og svo má alltaf panta bækur á bókasafninu.

Mér finnst pólitísk orðræða alltof illskeytt og óvægin. Menn virðast varla geta talað um andstæðinga sína í stjórnmálum án þess að velja þeim hin verstu hrakyrði eða hæða þá eins og mögulegt er, sé það hægt. Vil gjarnan álíta sjálfan mig betri en marga aðra að þessu leyti. Held að þetta hafi breyst þegar mun fleiri en áður fóru að láta álit sitt í ljós bæði í athugasemdum og bloggum. Nú er það fésbókin sem langflestir láta ljós sitt skína á, og ekki batnar ástandið við það. Held reyndar að engu máli skipti hvaða forrit eru notuð, menn virðast halda að allt sé leyfilegt sé það á Internetinu.

Eitt það versta sem þetta getur valdið er að andstæðingar fullkomins málfrelsis á netinu fá með þessu ástæðu til að krefjast eftirlits og ýmissa banna. Ég á fyllilega von á því að stærstu þjóðirnar (undir forystu Kína og Bandaríkjanna) muni sameinast um það innan fárra ára að gera Internetið háð alþjóðlegu eftirliti.

Ég er þess líka fullviss að fyrr eða síðar (fremur fyrr þó) mun Sjálfstæðisflokkurinn berjast fyrir ESB-aðild. Framsóknarflokkurinn gerir það nú þegar (nema formaðurinn og Vigga). Ég er búinn að vera þessarar skoðunar síðan 1972 og þó útlitið sé núna þannig að við förum ekki inn alveg í bráð, þá er ég viss um að mál enda þannig.

Ég er alltaf jafnundrandi á því athæfi sumra bloggara að bjóða fólki uppá sín gömlu blogg eins og ný séu. Man ekki eftir að ég hafi stundað slíkt nema í örfáum tilvikum og þá hef ég jafnan varað fólk sérstaklega við. Þó finnst mér sjálfum að ég hafi stundum (oft) komist ágætlega að orði. Fólk getur alveg vandræðalaust fundið gömul blogg sjálft. (Líka má sem best linka i þau.) Oft er það sem boðið er uppá með þessum hætti ómerkilegar fréttaskýringar eða frásagnir af fréttnæmum atburðum. Væri ég að birta slíkar fréttaskýringar á mínu bloggi aftur og aftur hlyti ég að vera þeirrar skoðunar að ekki væri hægt að segja betur frá. Svo er ekki.

IMG 2267Hús og bílar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Að endurbirta gamalt blogg þýðir: hvað sagði ég?

Sem er svona svipað og: Sástu hvernig ég tók hann?

Bestu áramótakveðjur.

Sigurður Hreiðar, 31.12.2012 kl. 16:42

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bestu áramótakveðjur frá mér líka.

Endurbirting þýðir oftast það já, en ekki eingöngu. það er líka verið að eyða tímanum fyrir þeim sem hefur lesið þetta áður. Vandalaust er að setja hugsunina í önnur orð. Sennilega er líka verið að spara sér tíma.

Sæmundur Bjarnason, 31.12.2012 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband