1830 - Heimsendir eða heim-sendir

Höfundarréttur er margslungið fyrirbæri. Aðallega er hann notaður til að halda almenningi niðri. Hann er reyndar eitt af fjölmörgum ráðum til þess. Þeir sem peningana eiga reyna ávallt að halda í þá og láta þá gína yfir öllu sem hugsanlega er hægt að breyta í verðmæti. Það liggur bara í hlutarins eðli. Best af öllu er að eiga fyrirtæki. Þau má láta ljúga og svíkja og þykjast afar góður sjálfur. Ef einhver bendir svo á að fyrirtækið geri þetta eða hitt veit eigandinn auðvitað ekkert af því.

Höfundarréttur er orðinn svo samgróinn þjóðlífi okkar öllu að útilokað er að afnema hann alfarið. Hann er þó í eðli sínu ekkert sjálfsagður. Einkaleyfi ekki heldur. Í hinum fullkomnasta heimi af öllum heimum væri hann alveg óþarfur. Eignarrétturinn reyndar líka. En þá erum við svosem komin að pólitískum og heimspekilegum spurningum, sem réttast er að láta í friði.

Það er ágætt að blogga stundum um eitthvað sem hátt ber í fréttum. Af ýmsum ástæðum er það hinsvegar stundum dálitlum erfiðleikum bundið. Ég reyni að fylgjast með sjónvarpsfréttum, lít stundum á veffréttir og svo er það fésbókin. Þangað fer ég yfirleitt oft á dag. Þó umfjöllun mín beri það ekki nærri alltaf með sér þarf ég oft að hugsa mig vel og lengi um áður en ég set hlutina á bloggið. Það er nefnilega ákveðinn persónuleiki sem ég vil láta skína í gegn í blogginu mínu. Það er ekkert víst að hann líkist mér sérstaklega mikið, svo það er vissara að vanda sig áður en bloggað er og stytta mál sitt eins mikið og mögulegt er. Helst að lesa það oft yfir, því fólk vill ekki lesa langlokur. Það er ágætt að vera þar sem ég er vanalega á vinsældalista Moggabloggsins, því þá er ég ekkert frægur og heldur ekki alveg gleymdur.

Sagt er að yfirstéttarkonur í Ho Chi Minh borg sem áður hér Saigon stundi það talsvert að fara í fatagarma og fá sér leigt kornabarn til að hafa á handleggnum, gefa því svefntöflu svo það sé rólegra og fara síðan með það í betl-ferð. Auðvitað eru það þeir sem tíma ekki að gefa betlurum sem búa til svona sögur.

Sumt bendir til þess að heimsendirinn sem á að verða um næstu vetrarsólstöður (21. des.) sé með merkilegri heimsendum sem skollið hafa á undanfarið. Minnist þess t.d. ekki að Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) hafi gert sér séstakt ómak til að ganga milli bols og höfuðs á heimsendahugmyndum. Það hefur stofnunin samt gert nú: http://science.nasa.gov/science-news/science-at-nasa/2012/14dec_yesterday/ ekki finnst mér heimsendinn neitt trúlegri fyrir vikið, en svona er þetta bara. Sumir trúa þessu víst.

IMG 2229Bónus í stað Toyota.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skemmtileg fyrirsögnin þín Sæmundur.  Gaman að svona orðaleikjum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.12.2012 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband