1791 - Hoppólín og múðlur

Hoppólín og múðlur (en ekki trampólín og núðlur) benda til þess að ungum börnum sé betur treystandi fyrir íslenskri tungu en þeim sem iðka sín ratatorsk-fræði af sem mestri margfeldni og reyna að líkja eftir útlendum mállýskum og setja allt í illskiljanleg kerfi.

Það getur vel verið að molar Eiðs Guðnasona hafi mikil áhrif á suma, en ég er skíthræddur um að þeir sem mest þurfa á þeim leiðbeiningum að halda, sem þar er að finna, lesi ekki þau merku fræði. Þessvegna er það sem ég forðast eins og ég get að minnast á málfar annarra. Get þó illa stillt mig stundum og reyni að vanda mig sjálfur.

Segja má að netið hafi opnað allar flóðgáttir til afbökunar á íslensku máli og margir farið að skrifa sem ekki höfðu skrifað áður. Jafnframt hefur prófarkalestur verið að mestu lagður niður og eiginlega er bannað að finna að því málfars- eða réttritunarlega sem sett er að netið. Allir eiga að tjá sig sem allra mest. Ekki bara einhver guðs útvalin hjörð.

Að mörgu leyti er þetta alveg rétt stefna. Reynt hefur verið að halda þeim niðri sem ekki eru þeim mun betur að sér í íslenskri réttritun og setningafræði. Eiginlega er þetta kunnátta sem  á alls ekki að vera sett skör hærra en önnur. Sumir eru vel máli farnir munnlega, aðrir skriflega. Sumir eru flinkir í höndunum, sumir góðir í fótbolta, sumir fljótir að læra, sumir gefnir fyrir vísindi og tækni og þannig ættu sem flestir að geta skarað framúr í einhverju. Nenni ekki að fjölyrða meira um þetta.

Þegar ég var unglingur var það mikið yndi okkar að snúa útúr vinsælum sönglagatextum. T.d. man ég aldrei eftir að við segðum „Nú blika við sólarlag sædjúpin köld,“ heldur alltaf „Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld.“

Man vel eftir einum teksta sem mikið var sunginn. Hann er svona í fullkomnum útúrsnúningi.:

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur
er gleðin skín á hverri mellubrá.
Eins og á vori er hittast tík og hundur
og hanga saman kynfærunum á.

Við þóttumst líka afburðagáfuð ef við gátum hnikað orðum til þannig til að það virtist að mestu óviljandi. Minnisstætt er mér t.d. af einhverjum ástæðum að eitt sinn þegar við fórum framhjá Hvanneyri í skólaferðalagi þótti sérlega gott hjá einhverjum sem sagði: „Nú skaltu grípa færitækið (tækifærið) og gerast fræbúðingur (búfræðingur) frá Eyrarhvönn (Hvanneyri).

„Teigir hún og togar á sér tyggjóið,“ sungum við líka með mikilli tilfinningu án þess að meina nokkuð sérstakt með því. Man að séra Gunar Ben. heyrði einhverntíma í okkur við að syngja þetta og misskildi það og var greinilega að hugsa um að verða reiður, en hætti við.

A: „Hvað er að leika á reiðiskjálfi?“

B: „Ætli það sé ekki svipaður skjálfti og maður fær við reið.“

A: „Hvernig reið? Ekki útaf reiði eða neinu svoleiðis?“

B: „Ætli það, annars veit ég það ekki.“

IMG 1744Steinn (Bollason).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Reiðiskjálf og reiðarskjálf getur varla verið það sama.

Hoppólín skil ég vel og hugsa ég muni nota það orð hér eftir um þetta teygjutramp.

En hvað eru múðlur?

Sigurður Hreiðar, 26.10.2012 kl. 13:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Múðlur eru núðlur.

Þakka þér annars Sigurður fyrir að lesa jafnan bloggið mitt og kommenta öðru hvoru á það. Það er vel þegið.

Sæmundur Bjarnason, 26.10.2012 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband