1766 - Brjálaðir múslimar

Máli Gunnlaugs Sigmundssonar gegn Teiti Atlasyni er væntanlega lokið. Á ekki von á að Gunnlaugur sé svo forstokkaður að hann áfrýji málinu. Hef áður minnst á Kögunarmálið og ætla ekki að gera það aftur. Á von á að mikið verði fjallað um það á næstunni. Hef líka hallmælt Teiti og það mjög nýlega. Flestir sýndist mér að hrósuðu Teiti fyrir djöflapredikunina um daginn, en mér fannst hann vera að reyna að æsa fólk til óhæfuverka með henni.

Furðulegt af Gunnlaugi að halda málsókninni til streitu eftir allt sem á undan er gengið. Hef fylgst talsvert með þessu máli eins og mörgum öðrum sem snúast um málfrelsi.

Söngva Satans las ég aldrei. Hef grun um að mér hefði þótt sú bók afburða leiðinleg. Nú segir Salman Rushdie höfundur þeirrar frægu bókars, sem frægust varð vegna dauðadóms erkiklerksins íranska á hendur höfundi hennar, að sú bók fengist ekki gefin út núna. Svo mikil séu árif múslima hlýtur hann að meina. Ég leyfi mér að vera ósammála honum. Að vísu virðist margt benda til að múslimar séu sífellt að verða hörundssárari fyrir hönd Múhameðs spámanns en ég held að þar sé ekki allt sem sýnist.

Ekki er annað að sjá en kvennakúgun og málfrelsishatur ríði húsum í ríkjum múhameðstrúarmanna, en ég kýs að álíta það einkum vera vegna starfa pólitískra æsingamanna og lítillar menntunar fjöldans. Mér finnst ekki til fyrirmyndar að fordæma heilar þjóðir eingöngu vegna frétta í fjölmiðlum. Ég vantreysti fjölmiðlum yfirleitt. Ekki þarf að fara langt afturábak í sögunni til að finna dæmi um afar mikla fordóma og ástæðulitla hjá kristnum þjóðum.

Já, ég er syfjaður. Stundum finnst mér ég líka vera óttalega vitlaus. Svo koma aðrir tímar og þá finnst mér ég vera með gáfuðustu mönnum. Líklega er hvorugt rétt. Hef verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að hafa skoðun á Baldursmálinu. Auðvitað er skiljanlegt að þeir á lögmannsstofunni vilji fá hann til að vinna fyrir sig. Hugsanlega er þetta allt eðlilegt. Þó er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að verið sé að reyna að hygla honum sérstaklega og því er ég á móti. Man eftir að Ómar Kristjánsson lenti eitt sinn í fangelsi og missti fyrirtækið úr höndunum á sér. Held að hugsanlega sé það enn meira áfall fyrir menn úr efstu lögum þjóðfélagsins að lenda í fangelsi en þeim sem oft fara þangað.

Ef ég ætti milljarð króna þá mundi ég sennilega ekki tíma að gefa neinum neitt af þeim peningum. Allra síst Vigdísi Hauksdóttur eða svöngu börnunum í Kongó. Ef ég ætti ekki peningana, en ætti að úthluta þeim mundi ég velja Biafrabörnin frekar.

IMG 1598Beðið eftir gestum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hætta á ferð, misvitrir stjórnmálamenn væru vísir til að setja guðlastslög.. og þá fer allt í klessu.

DoctorE 20.9.2012 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband