1751 - Ágúst Borgþór

Skilst að Ágúst Borgþór skrifi aðallega á kaffihúsum. Helst þurfa þau að vera í Þýsklandi. Getur samt látið aðra staði duga. Segir einmitt frá því á fésbókinni að hann hafi fundið heppilegt kaffihús í miðborg Reykavíkur. Veit ekki hvort kaffihúsið telur sig hafa fundið hann. Skáld og rithöfundar skrifa oft á furðulegustu stöðum.

Ég er samt ekki að halda því fram að kaffihús séu furðuleg í þessu sambandi. Halldór Kiljan Laxness skrifaði alltaf standandi við skrifpúlt. (Helgi Ágústsson gerði það líka, en hann var ekki rithöfundur mér vitanlega) Sem betur fer var þetta skrifpúlt heima hjá honum. (Þ.e.a.s Halldóri, ekki Helga) Sjálfum finnst mér best að skrifa við tölvugarminn minn snemma á morgnana. Útsýni til Perlunnar spillir ekki. En ég er nú hvorki skáld né rithöfundur svo það er ekki að marka.

Mann þekki ég sem hvergi getur skrifað nema á klósettinu. Hann fer nokkuð oft á klósettið og er þar lengi. Þessi maður er þekktur rithöfundur en ég vil ekki segja til hans. Kannski mundu lesendur hans kunna því illa. Hugsanlega á þetta að vera leyndarmál. Annars segir pólitíska rétthugsunin að maður eigi ekki að eiga nein leyndarmál. Allir megi tala um hvað sem er og allir eigi að tala um hvað sem er. Það sem talað er um hlýtur að mega skrifa um líka. Ég er samt ekki viss um að þetta eigi alltaf við.

Þetta leiðir huga minn, sem ég ræð lítið við, að dulnefnum á Internetinu. Þar man ég best eftir DoctorE. Hann vill frekar að rigni yfir sig eldi og brennisteini, en að gefa upp nafn sitt þannig að allir megi sjá. Ég hef heldur ekki hugmynd um hver hann er. Ég er mjög hlynntur því að menn geti skrifað undir dulnefni. Svo er náttúrulega vel hægt að þegja. Það gera margir. Kannski of margir.

Egill Helgason skrifar um kvótamál og ýmislegt þessháttar í tilefni af grein eftir Guðmund í Brimi þar sem því er haldið fram að þorskurinn í sjónum eigi sig sjálfur. Slíkar heimspekilegar vangaveltur skipta auðvitað engu máli þegar rætt er um kvótamál. Einkarekstur og opinber rekstur gerir það hinsvegar og þar með er málið orðið pólitiskt.

Það er hægt að sanna það á óyggjandi hátt að opinber rekstur er yfirleitt óhagkvæmari en góður einkarekstur. En er einkarekstur alltaf góður? Það finnst mér Hrunið hafa afsannað. Miður góður einkarekstur er ekki vitund betri en lélegur opinber rekstur. Þarna er það sem stjórnmálin stöðvast yfirleitt. Hægri menn halda sig við einkareksturinn en vinstri menn við þann opinbera. Endalaust er svo hægt að finna tölur og tímabil sem sanna hvað sem er. Það hvort rekstur er einkalegur eða opinber þarf ekki að skipta nokkru máli.

Mín skoðun á vinstri og hægri er sú að síðastliðin fjögur ár hafi verið stefnt til vinstri hér á landi. Hægri sinnaðir stjórnmálamenn vilja auðvitað beygja aftur til hægri þó greinilegt sé að árin fyrir Hrun var stefnt of mikið í þá átt. Auðvitað er ekki hægt að sanna þetta og pólitíkin mun áfram snúast um sálir mannanna eða réttara sagt atkvæði þeirra.

Enn og aftur er þetta blogg mitt orðið pólitískara en ég ætlaði. Hvernig ætli standi á því? Þegar ekki er lengur hægt að óskapast og rífast yfir veðrinu, það er nefnilega svo gott, þá taka stjórnmálin við. Það er svosem hægt að rífast um ýmislegt annað, en það hafa allir vit á pólitík og þessvegna er svo gott að rífast um hana.   

MicrosoftAppleSamsungGoogleAmazonYahooNokia

Hvern er best að veðja á. Skilst að þetta séu fjarskipta- og tölvufyrirtæki sem berjist um yfirráð yfir markaði sem sífellt er að verða stærri og stærri. Einu sinni var til siðs að tala um bílafyrirtæki þegar rætt var um stórfyrirtæki. Það er vist ekki svo lengur.

IMG 1380Dalalæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband