1722 - Tölvurnar taka yfir

Untitled Scanned 09Gamla myndin.
Veit ekki hvar þessi bær er. Sennilega er myndin tekin í skólaferðalagi. (1958)

Þegar ég blogga set ég greinarmerki, svosem kommur, þar sem mér sýnist og mér sýnist mjög misjafnt um það. Getur farið eftir veðri eða einhverju öðru. Áður fyrr höguðu menn sér álíka hvað snertir réttritun. Nú er samt búið að taka upp samræmda réttritun (samræmd greinarmerkjasetning er áreiðanlega líka til, þó ég sniðgangi hana) og mér hefur tekist að tileinka mér hana nokkurn vegin. (Þ.e.a.s samræmdu réttritunina sem kannski er ekkert réttari en hver önnur.).

Finnst dálítið út í hött að ráðast með offorsi á menn fyrir að fara ekki alfarið að þeim reglum. Þessar reglur eru til þess að sem fæstir láti ljós sitt skína um of. Aðalatriðið hlýtur samt að vera að menn skiljist sæmilega. Grautarleg hugsun er það versta sem ég veit.

Þórir Jökull Þorsteinsson skrifar eftirfarandi klausu á fésbókina sína:

„Það eru kannski engin stórtíðindi en í gær sá ég í fyrsta sinn að farþegi á leið um borð í flugvél á alþjóðaflugvelli lagði farsíma sinn yfir lesara í stað brottfararspjalds. Tilvera okkar mannanna orðin að rambi frá einni tölvu til annarrar. Þær virðast skilja hver aðra betur en við hverjir aðra.“

Þetta er framtíðin. Tölvurnar eru að taka yfir. Völdin fylgja þeim sem yfir þeim ráða. Þeir sem ekki lifa „tölvulífi“ verða útskúfaðir úr mannlegu samfélagi. Man hvað mér er minnisstæð gamla frásögnin um kóksjálfsalann á flugvellinum í Finnlandi, sem bara afgreiddi þá sem hringdu í hann úr farsíma.

Já, ég held að Íslendingar séu að bíða eftir sterka leiðtoganum. Davíð Oddsson sér sig sem einskonar De Gaulle Íslands og dreymir um að ná völdunum aftur. Að sumu leyti er ekki vitlaus hugmynd að einn maður ráði nokkuð miklu. Kannski ekki eins miklu og Davíð réði hérna um árið og sporin frá þeim tíma hræða vissulega. A.m.k. flesta. Sumir væru eflaust ánægðir.

Man vel eftir aumingjaskap Steingríms Hermannssonar forðum, því hér stefndi greinilega í ójafnaðarátt áður en Davíð fór í landsmálin og Steingrímur er maðurinn sem hefði getað stefnt þjóðinni í aðra átt, en áleit mikilvægara að lafa sem lengst í embætti.

Auðvitað er auðvelt að gagnrýna dauða menn og helst ekki gert. Ástandið sem hér er núna er það sem við þurfum að fást við. Tímasetning og röð kosninga skiptir verulegu máli og því hafa sjálfstæðis- og framsóknarmenn gert sér grein fyrir, en ríkisstjórnin flýtur sofandi að feigðarósi. Þessi stjórn springur áður en kjörtímabilið er úti og hverjir eiga þá að draga okkur aumingjana að landi?

Ef landsmenn allir eiga að ráða hvar Reykjavíkurflugvöllur er, sem auðvitað er galin hugmynd, hlýtur þá ekki að vera sjálfsagt að Reykvíkingar ráði hvort Grímsstaðir á Fjöllum verða fluttir austur til Kína.

Tilrauninni um manninn er alls ekki lokið. Eftir að maðurinn fór að skynja þróun lífsins hefur hann verið að reyna að trufla þá þróun. Öll hin mannlegu inngrip enda samt í mesta lagi sem smátöf á þróuninni en hafa ekki áhrif á hana til langframa. Hvert stefnir þá þróunin? Það veit enginn og best er að svo sé.

IMG 0934Uppnefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég man ekki eftir að hafa verið kennd greinarmerkjasetning í grunnskóla, en lærði hana á gamalsaldri (24 ára) í framhaldsnámi. Nokkrar þumalputtareglur lærði ég þá sem ég hef haft í heiðri æ síðan. Kommur skal spara en nota til að greina innskot, til dæmis, sem og að greina aukaatriði frá aðalatriði. Brjóta má langa málsgrein niður með kommu en adrei skal setja kommu á undan 'og'. Eins skulu málsgreinar aldrei hefjast á 'en eða 'og' (á eftir punkti).

Brjánn Guðjónsson, 21.7.2012 kl. 09:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í skólum er (var) aðallega kennt það sem kennararnir á hverjum tíma telja að komi sér vel fyrir nemendurna að vita á (samræmdum) prófum. Of mikil áhersla á réttritun kemur sé illa fyrir marga.

Sæmundur Bjarnason, 21.7.2012 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband