1717 - Skáldsaga

Untitled Scanned 02Gamla myndin.
Bjössi 2.

Þetta er skáldsaga. Ég er búinn að ákveða það. „Nú, ég hélt að þetta væri blogg“, kynni einhver að segja, en ég segi að það sé misskilningur og að þetta sé skáldsaga af því ég sé búinn að ákveða það. Hverjum stendur nær að ákveða það en mér? Kem ekki auga á neinn. Annars gæti verið að einhverjum fyndist umræða um dægurmálefni eiga lítið erindi í skáldsögu. Best að ég forðist þær umræður þá. Kannski væri best að koma sér bara upp merkingum og segja til um hvort maður er að vinna í skáldsögunni eða ræða um dægurmál. Hér með ákveðið.

„Já, en þarf ekki að vera eitthvert efni í skáldsögu?“ Ég á bara eftir að finna það. Varla verður það mjög snúið. Þetta getur sem best verið formáli. Já, því skyldi þetta ekki vera formáli? Ef mér gengur illa að finna eitthvert efni í skáldsöguna verður hann bara dálítið langur. Það er nokkuð góð hugmynd.

Hvernig skyldi langur formáli líta út? Þarf hann ekki að hafa bæði upphaf og endi? Nú, ræð ég því ekki sjálfur? Ég er að hugsa um að hafa hann bara eins og mér sýnist. Sumir lesa aldrei formála né eftirmála. Það finnst mér slæmur siður. Ég byrja alltaf á slíku og stundum les ég ekkert annað. Kannski verður þessi formáli margir kaflar. Já, það er sennilega vissast að hafa hann þannig.

Af hverju skyldi þurfa að vera svona erfitt að semja skáldsögu? Sennilega er það bara þjóðsaga. Auðvitað tekur það talsverðan tíma ef skáldsagan á að vera löng. En hún þarf ekkert að vera af vissri lengd. Ég get alveg ráðið því sjálfur.

Auðvitað get ég ekki sagt til um hvernig þessi skáldsaga verður. Ég mun þó reyna að leggja mig fram um að hafa hana góða. Nenni samt ekki að vera sýnkt og heilagt að velta fyrir mér hvernig bygging hennar er. Að því leyti verður hún ákaflega lík bloggi að þegar ég er búinn að senda kafla dagsins út í eterinn þá verður þar engu breytt. Þetta held ég einmitt að flestum skáldsögusérfræðingumm finnist alveg ómögulegt. Skáldsögur á að vera erfitt að semja. Þær eiga að taka á. Það á að vera full vinna fyrir fullfrískan mann að fást við svoleiðis lagað. Og taka ár. En er það svo? Eiginlega finnst mér það ekki. Mér finnast skriftir af öllu tagi verða því auðveldari sem maður gerir meira af því að skrifa. Þó ég sé orðinn gamall þá finnst mér ekki að mér sé neitt að förlast við þær. (En auðvitað getur það verið vitleysa.)

Það er dálítið gott hjá mér að ákveða bara í eitt skipti fyrir öll að þetta sé skáldsaga. Líklega hefði engum öðrum dottið það í hug. Nú er ég semsagt kominn með hlutverk. Já, kannski verður formálinn óskaplega langur. Það er reyndar heilmikill kostur því þá verða aðrir hlutar sögunnar bara styttri fyrir vikið.

Þá er röðin komin að myndunum. Hvort ætli þær tilheyri skáldsögunni eða dægurmálunum. Mér finnst myndirnar oft vera sögulegar svo eiginlega er best að þær tilheyri skáldsögunni. Dægurlegar myndir eru þó til. Ég tek bara ekki svoleiðis myndir. Kannski er sniðugast að láta sem flest tilheyra skáldsögunni. Hún verður þá fyrr tilbúin. Ég gæti líka ákveðið að hún yrði svo og svo margir kaflar. Ætti það þá að vera sérstakur kafli allt sem ég set upp í hvert skipti. Þetta þarf ég að athuga. Kannski er talsvert flókið að búa til góða skáldsögu en möguleikarnir eru ótæmandi.

Mér hefur alltaf þótt dálítið vænt um þetta hús í Kópavoginum sem við keyptum á sínum tíma helminginn af. Það er ekki hluti af neinni húsaröð og þessvegna sjá blaðburðar- og miðasölubörn það illa. Nú er Toyota miðstöðin farin (úr gamla Bykó-húsinu) og ruslakarlinn úr Hafnarfirði hættur sínum skarkala um sexleytið á morgnana en samt er eins og maður sofi ekkert betur. Athuga þetta. Hvað skyldi koma í staðinn fyrir Toyota? Rólegheitin vara varla að eilífu.

Eitt er það samt sem ég er ákveðinn í að standa alltaf við. Það er að pósta ekki bloggi (eh. Ég meina skáldsögu) fyrr en komin er blaðsíða a.m.k. Ég get ekki verið þekktur fyrir að hafa kaflana í formálanum (og skáldsögunni) styttri en það.

IMG 0870Kisa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband