1718 - Formáli að skáldsögu 2. hluti

Untitled Scanned 03Gamla myndin
Bjössi 3.

Í framhaldi af því sem ég skrifaði um daginn dettur mér í hug hvernig eigi að skilgreina blogg. Hvenær er blogg blogg? (Eða jafnvel bara blogg) og hvenær er blogg eitthvað annað. Hvenær er blogg hugleiðingar? Hvenær er blogg grein? Hvenær er blogg fjölmiðill? Hvenær er blogg smásaga? Hvenær er blogg skáldsaga? Og svo auðvitað öfugt. Allt eru þetta skilgreiningar sem vel er hægt að snúa á haus eða snúa útúr ef vilji er fyrir hendi. Fésbókin er kaffispjall. (kannsi tespjall hjá sumum en allavega spjall) Blogg er oftast eintal sálarinnar, þó stundum séu gerðar athugasemdir og þá getur eðli þess hæglega breyst.

Í sambandi við skáldsöguna sem ég var að fjölyrða um í síðasta bloggi, þá kemur mér í hug að engin afstaða var tekin til mögulegra athugasemda. Vel kæmi til greina að fella þær líka undir skáldsöguformið, en þá væru höfundarmálin orðin svolítið flókin. Reyndar mega þau alveg vera það fyrir mér. Spurningin er bara sú hvort þeir sem athugasemdir gera vilja láta kalla sig skáldsöguhöfunda. Rétt er að huga svolítið að þessu því fyrir kemur að athugasemdir (og leiðréttingar) detta hér inn. Kannski væri réttast fyrir mig að gera einskonar skoðanakönnun hér á blogginu. Minnir að það sé hægt og að ég hafi jafnvel einhverntíma gert slíkt.

Í skáldsögu (ef ég held mig við þá skilgreiningu og held því fram það þetta sé í rauninni annar kafli í formála) get ég náttúrlega varla sett linka í annað efni frekar en rætt um dægurmálin. Kannski væri réttast að hafa einhvern vissan hluta af hverjum kafla fyrir venjulegt blogg. Athuga þetta. Ef einhver setur svo link eða krækju í athugasemd þá er ég hugsanlega komin í vandræði. Það þarf greinilega að mörgu að huga.

Blogg vs. skáldsaga er greinilega efni sem hægt er að fjölyrða mikið um. Ég vil helst ekki gera það en halda mig við að þetta sé formáli að skáldsögu. Formálar geta verið með ýmsu móti. Sumir þeirra gætu hæglega líkst bloggi.

Hvenær eru bændur og allir aðrir ánægðir með veðrið? Nákvæmlega aldrei. Nú er kvartað yfir því að ekki rigni nógu mikið. Sennilega er alltof heitt líka. Veðrið hefur bara verið mjög gott að undanförnu. Svona er þetta bara á norðlægum slóðum. Aldrei á vísan að róa með veðrið. Jú, sólin sést alltaf eitthvað á sumrin og snjórinn kemur svosem á veturna. Bara mismundandi mikið af honum. Langeðlilegast er að sætta sig veðrið eins og það er. Slæmt væri ef við réðum því. Endalaust rifrildi. Kannski væri ekki rifist um annað á meðan. Valt að treysta því samt.

„Hvað ertu að gera, amma?“ Hugsa ég að sé uppáhaldssetningin hennar Tinnu þessa dagana. Það er fátt ef nokkuð sem er eins gefandi og að fylgjast með málþroska barna. Það er ekki nóg með að þau eigi erfitt með að átta sig á af hverju maður nær ekki að skilja hvert orð sem þau segja, heldur finnst þeim ekkert merkilegt þó maður skilji sumt ágætlega. Greinarmunurinn á óskiljanlegu babli og hárréttu tali er mjög á reiki. Oft eru þau ótrúlega fljót að tileinka sér nýtt tal og segja hlutina öðruvísi ef maður skilur þau og endurtekur það sem sagt er. Að þeim skuli finnast gaman að hlusta á að eitthvað sé lesið fyrir þau án þess að þau skilji nema mjög fátt af því sem sagt er virðist furðulegt. Er samt ekkert skrýtið þegar haft er í huga hve fljót þau eru að læra að tala. Svo læra þau gjarnan að lesa og skrifa á fáeinum árum og það er alveg stórfurðulegt. Að læra mörg tungumál í einu er ekkert mál fyrir þau.

Þessi kafli í formálanum er að mestu hugleiðingar um hitt og þetta. Samt er ég að hugsa um að láta þetta fara einhvern vegin svona. Ég á þetta (blogg) og má þetta (bulla um hvað sem er).

 

 

   (Fimm samasemmerki sem tölvan vill endilega hafa fleiri)

 

Þetta er merkið sem ég er að hugsa um að nota til að aðgreina dægurskrif mín frá skáldsögunni margfrægu.

Get ekki stillt mig um að minnast á Guðna Ágústsson, þó ég muni nú betur eftir pabba hans frá Brúnastöðum. Guðni kom eitt sinn í heimsókn í KB þegar ég vann þar og varð alveg eins og aumingi þegar Óli Anrésar og Maddi fóru að spyrja hann útúr um pólitík. Sennilega var hann að reyna að komast á þing þá.

Guðni er semsagt að gera stórmál úr því að Davíð Þór hafi sjálfstæða skoðun og vill láta nýkrýndan biskup setja ofaní við hann fyrir það. Guðni er að gera þjóðkirkjunni stórfellt ógagn með þessu. Hélt að hann (Guðni) þættist fyrst og fremst vera skemmtikrafur.

IMG 0893Lúpína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband