1688 - Óþarft embætti

x25Gamla myndin.
Frá Reykjavíkurhöfn.

Auðvitað er forsetaembættið óþarft með öllu. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur, ásamt núverandi stjórnarandstöðu, samt sem áður komið því inn hjá allmörgum að nauðsynlegt sé að hann (ÓRG) sé áfram forseti til að hægt sé að komast hjá aðild að hinu illa Evrópusambandi. Það er alveg sama hve óskynsamleg slík skoðun er, það er hún sem að líkindum mun fleyta honum í forsetaembættið komist hann þangað einu sinni enn.

Það vill svo til að ég er fyrirfram hlynntur því að við göngum í ESB, en vil samt að slíkt verði aðeins gert ef samningar þeir sem að líkindum nást við sambandið verða nægilega hagstæðir Íslendingum í þeim málum þar sem raunverulega er hægt að búast við að samið verði um frávik frá venjulegri stefnu bandalagsins vegna sérstöðu landsins og þjóðarinnar.

Engar áhyggjur hef ég af því að stjórnmálamenn (Samfylking og aðrir) reyni að koma okkur í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklegast er að inngangan verði felld. Það öryggi gegn aðild sem sumir virðast finna í stuðningi við ÓRG er augljós blekking. Hann kemur ekki til með að hafa nein áhrif á úrslit þess máls. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram færi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá væri þó aðeins ráðgefandi. Þannig er stjórnarskráin bara.

Í beinu framhaldi af þessari skoðun minni finnst mér forsetaembættið vera algjör tímaskekkja ef sæmilega er frá því gengið í stjórnarskrá að þjóðin sjálf geti krafist bindandi atkvæðagreiðslu um þau mál sem miklu skipta.   

Er um þessar mundir að lesa bók um tilurð fyrstu bókar ýmissa amerískra rithöfunda. Einkum er þar rætt um skáldsögur. Flestar eru þær óskaplega langar enda hafa amerískir höfundar mikið dálæti á slíku. Bókin sem ég er að lesa heitir „How I wrote my first book – The Story behind the Story“ Ég fékk hana ókeypis á kyndlinum mínum.

Þar kemur margt fróðlegt fram. Eiginlega dregur sá lestur talsvert úr mínum rithöfundardraumum. Svo virðist sem það sé mjög átakamikið að skrifa bók og bloggið sé miklu þægilegra. Þar er hægt að einbeita sér að því að skrifa ekki meira en hæfilegt er. Engin þörf semsagt að sitja við og ná ákveðnum orðafjölda á hverjum degi eins og margir Bandarískir rithöfundar virðast gera. Einnig er hægt að losna strax við það sem skrifað er og gleyma því síðan. Þannig getur bloggið verið sem einskonar skrifborðsskúffa. Samt geta aðrir lesið það sem skrifað er og stundum fær maður viðbrögð strax.

Hvort sem þau viðbrögð eru jákvæð eða neikvæð geta þau gert mikið gagn. Þau sannfæra mig um að það sem ég skrifa hreyfir við einhverjum. Er það ekki draumur allra sem eru með rithöfundarbakteríuna? Svo er líka hægt að gera þetta að einskonar vísnasafni því ég hef oft gaman af því að setja saman vísur. Líka hef ég stundað það að setja vísur í kommentaplássið hjá öðrum bloggurum. T.d. man ég eftir einni sem ég setti eitt sinn í kommentakerfið hjá Baldri Kristjánssyni. Man að hún byrjaði svona: Séra Baldur segir að..... Þegar ég var á Akranesi um daginn setti ég líka saman eftirfarandi vísu:

Í lazybojnum ligg ég
löðrandi í sól.
Arka þannig einn veg
eins þó komi jól.

Nei, það er ekki til Lazyboy-stóll hér á heimilinu þó latur ég sé. Legg mig í staðinní í hjónarúmið hvenær sem því verður viðkomið. Bý þó um fyrst.

IMG 0262Graffiti, eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það er nú ljóst að síðustu tveir forsetar hafa haft yfirnóg að gera. Sjálfur hef ég komið að verkefnum sem forsetarnir hafa tekið þátt, og þar hafa þeir skilað góðu verki og mikilvægu fyrir land og þjóð.

Séum við sanngjarnir þá var inngrip Ólafs í Icesave I þannig að við það sparaðist laun forseta í nokkrar aldir. Bara þess vegna held ég að margir ætli að kjósa Ólaf. Fulltrúi Samfylkingarinnar sagði í kappræðum á Stöð 2 að innganga í ESB nú væri eins og taka herbergi í íbúð sem væri að brenna. Þýðir sennilega sjálfsmorðstilraun. Hún gefur sem sagt ekki mikið fyrir stuðninginn við ESB. 

Ólafur verður kosinn hvað sem ég eða þú segjum. Við getum sagt að hann sé búinn að vera of lengi, en valkostirnir nú eru nú ekki margir. Við mætum niður á Austurvöll við innsetninguna og fögnum þeim Ólafi og Dorrit, ásamt Steingrími og Jóhönnu og Álfheiði Inga. Höldum á litlum fánum. 

Sigurður Þorsteinsson, 5.6.2012 kl. 22:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að sumu leyti er ég sammála þér, Sigurður. Býst samt ekki við að mæta niður á Austurvöll í ágústbyrjun. Þó ég geri ráð fyrir að Ólafur hafi haft nóg að gera og gert margt af því vel, er það bara fyrirkomulagsatriði. Vel hefði mátt sinna þessum verkum með öðrum hætti. Þjóðaratkvæðagreiðslum er hægt að koma fyrir með öðrum hætti en að þær séu komnar undir duttlungum eins manns.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2012 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband