30.4.2012 | 10:28
1661 - Fésbókin
Gamla myndin.
Lilja Ólafsdóttir og Gunnar Sigurðsson.
Fésbókin er ávanabindandi og hugsanlega væri réttast að skilgreina hana sem eiturlyf. Bloggið er það kannski líka. Allavega gengur mér illa að venja mig af því. Þykist samt vera um sumt betri en þeir sem ánetjast fésbókinni. Einn helsti gallinn við fésbókina er hversu ágeng hún er. Greinilega vinna margir menn hörðum höndum við að breyta henni sífellt. Allt er gert til að gera hlutina sem einfaldasta og auðveldasta og halda fólki þannig við efnið (fésbókina) sem lengst. Það er fremur lítið hægt að gera nema samþykkja það sem að manni er rétt. Yfirleitt virðist það ekki kosta mikið. Oftast einungis grunnupplýsingar um sjálfan sig, sem flestum er alveg sama um.
Að læka og séra og vera lækaður og séraður af öðrum er fyrir suma lífið sjálft. (Fjöldi lesenda á blogginu skiptir líka máli) Samskiptin við kunningjana og ættingjana eru yfirleitt afskaplega yfirborðsleg og ekki verða þau til að auka raunveruleg kynni eða líkamlega þátttöku í hinu og þessu. Frekar að þau dragi úr henni. Endirinn er oft sá að maður hefur ekki hugmynd um hvort maður veit eitthvað úr raunheimum eða netheimum. Svo veit maður ekki heldur hvað aðrir vita og úr þessu verður flækja sem erfitt er að greiða úr.
Þetta er samt ekki aðalgallinn við hin yfirborðslegu kynni í netheimum. Það er eðlilegt að vera svolítið ruglaður. Fésbókin er nefnilega tímaþjófur hinn mesti. Þó maður geri sér ekki nærri alltaf grein fyrir því, fer heilmikill tími í þennan fjanda. Kannski telur fólk sér trú um að í staðinn dragi það úr annarri fjölmiðlaneyslu, (blaðalestri t.d.) en það er vitleysa. Aðallega bitnar þetta á raunverulegum samskiptum.
Eldra fólk vill oft koma í veg fyrir að lokast inni með því að taka þátt í einhverju af öllu því sem fram fer í netheimum. Það er á margan hátt góðra gjalda vert. Því er samt ekkert síður hætt við ánetjun en öðrum. Hættir kannski að gera margt annað til að geta hangið sem mest á netinu.
Þetta er næstum að ná eðlilegri blogglengd hjá mér þó ég hafi varla minnst á annað en fésbókina. Það er tungunni tamast (og fingrunum á lyklaborðinu) sem hjartanu er kærast segir í gömlu spakmæli. Ætli ég fari ekki að ljúka þessu þó eðlilegast væri fyrir mig að minnast á eitthvað annað líka.
Máttur myndanna sást vel þar sem sjónvarpið sýndi myndir sem teknar voru í húsi sem tekið hafði verið á leigu í Keflavík meðan eigendurnir voru í Noregi. Áður hafði ég a.m.k. séð skrifað um þetta á netinu. Skrif úr einni átt er oft hægt að bortforklare en lifandi myndir úr sjónvarpinu eina og sanna ljúga ekki. Aðrar myndir ljúga stundum og það er efni í langa grein.
Siggi stormur segist hafa orðið sleginn yfir því að venjulegur maður væri farinn að reyna að sjá sér farborða með flöskusöfnun. Mér finnst þetta segja talsvert um Sigga sjálfan ekki síður en um flöskusafnarann.
Um daginn sá ég skrifað um einhverja skoðanakönnum og þar var fylgi fjórflokksins tíundað og einnig einhvers sem kallað var Björt framtíð. Hinsvegar sá ég hvergi minnst á Frjálslynda flokkinn, Hægri græna, Guðbjörn Guðbjörnsson, Hreyfinguna, Borgarahreyfinguna, Guðmund Steingrímsson eða Lilju Mósesdóttur (gleymi eflaust einhverjum). Þetta gerir það að verkum að ég tek lítið mark á þessari skoðanakönnum. Kannski er fleirum eins farið og mér að vita mest um fjórflokkinn og láta það stjórna hegðun sinni. Að koma tilvist sinni á framfæri við sem allra flesta skiptir að ég held höfuðmáli í hverskyns kosningum.
Athugasemdir
Er ekki Guðmundur Steingrímsson í Bjartri framtíð?
Stefán Júlíusson, 1.5.2012 kl. 08:10
Það getur vel verið. Er þá búið að afskrifa alla hina sem ég minntist á? Voru ekki einhverjir að tala um að vera saman? Jú, líklega ætlaði Gnarr að vera með Gumma Steingríms, en eru ekki einhverjir aðrir sem ætluðu að vera með einhverjum öðrum? Sennilega eru margir orðnir hálfruglaðir á þessu.
Sæmundur Bjarnason, 1.5.2012 kl. 13:00
Hreyfingin, Borgarahreyfinging og Frjálslyndir eru saman undir nafninu Dögun.
Stefán Júlíusson, 1.5.2012 kl. 14:21
Já, einmitt. Held samt að það hafi ekki verið minnst á neina dögun í skoðanakönnuninni sem ég sá. Var ekki Lilja Mós. með eitthvert nafn líka? Ekki fór Stormurinn með það í vasanum, eða hvað?
Sæmundur Bjarnason, 1.5.2012 kl. 16:41
Samstaða heitir flokkur Lilju Mós. Stormurinn var ekki nógu samstæður.
Stefán Júlíusson, 1.5.2012 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.