1655 - Guðmundur G. Hagalín

001Gamla myndin.
Sigurjón Guðbjörnsson. Kallaður Grjóni. Veit ekki af hverju.

Kvótafrumvarpið er að mínum dómi stórgallað. Með því er komið endanlega í ljós að LÍÚ er miklu snjallara í allri kynningarstarfsemi en ríkisstjórnarræfillinn. Gott ef Steingrímur er ekki á mála hjá þeim. Hann virðist ekki hótinu betri en Jón að öðru leyti en því að hann kemur e.t.v. einhverju í verk. ESB-umsóknin er dauð, kvótafrumvarpið er að drepast og ríkisstjórnin kemur ekki til með að endast út kjörtímabilið. Eina huggunin er að stjórnarandstaðan er ekkert skárri.

Þó pólitíkin sé afleit þá er mannlífið að öðru leyti alls ekki sem verst. Íslendingar eru ekki að flýja land í stórum stíl, glæpastarfsemi og slys eru ekki að aukast, rusl er ekki meira þetta vor en vant er, veðrið er gott og verðbólgan ekki alla að drepa. Þeir sem illa fóru útúr hruninu væla þó ennþá og það gæti gengið betur að aðstoða þá. Útrásarvíkingarnir eru samt óðum að ná sáttum við sína lánardrottna og bankarnir aftur að ná þeim tökum á þjóðlífinu sem þeir höfðu. Það er skárra að láta þá ráða í fjármálaheiminum en pólitíkusana. Gætum þess bara að láta þá ekki fara eins illa með okkur og síðast.

Orðræðuheiftin er mikil T.d. eru fésbókin og DV varla lesandi lengur. Tala nú ekki um hve þreytandi er að horfa á útsendinguna frá Alþingi. Er alveg hættur að hlusta á útvarp Sögu og sakna ekki söngsins þar. Best að hugsa bara um vorið og gróandann. Nú er skemmtilegasti hluti ársins að hefjast. Látum ekki eymdina og volæðið ná tökum á okkur. Forsetakosningarnar gætu orðið stórskemmtilegar. Engin hætta er á að úrslitin þar skemmi fyrir endurreisn hugarfarsins. Næstu þingkosningar munu næstum eingöngu snúast um ESB. Nú er ég semsagt kominn út í pólitíkina án þess að hafa ætlað mér það.

Horfði á Kiljuna hjá Agli áðan. Hann minntist á Hagalín. Man að ég las mikið eftir Guðmund Gíslason Hagalín fyrir löngu síðan. Meðal annars man ég vel eftir að í einu bindi ævisögu sinnar tilfærði hann vísuna:

Þú er Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig
eikin spanga fögur.

Einnig rámar mig í vísu um hann sem er svona:

Ég hef farið yfir Rín.
Ég hef drukkið brennivín.
Ég er hundur, ég er svín,
ég er Gvendur Hagalín.

Þegar ég var útibússtjóri hjá Silla og Valda á Hringbraut 49 skömmu fyrir 1970 verslaði konan hans þar og ég man vel eftir því að eitt sinn ræddi hún ýtarlega við mig um kosti og galla þess klósettpappírs sem til sölu var þar í búðinni. Helst þyrfti hún mýkri pappír fyrir Guðmund því hann væri með gyllinæð. Hafði ekki mikinn áhuga á því umræðuefni en það er mér samt minnisstætt.

IMG 8219Fangelsi, eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Einfalt mál með Grjóna. Algengt gælunafn á Sigurjónum. siGuRJÓN+i. Svo gæti þetta verið skensins vísun í grjónapung.

Sigurður Hreiðar, 21.4.2012 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband