Fjórtánda blogg

Mikið er tuðað og tuldrað  á Moggabloggi. Einn sá ég  í dag sem skrifar um það að allir hljóti að stefna að sem mestum vinsældum hér. Þ.e. að sem  flestir lesi bloggin þeirra. Þetta held ég að sé mesta vitleysa. Auðvitað eru margir sem stefna leynt og ljóst að þessu. Skrifa mjög reglulega og reyna að linka sem oftast í fréttir. Reyndar finnst mér hugleiðingar um fréttir dagsins vera alltof ríkjandi hér á Moggablogginu.

Já, hér er mikið bloggað og ekki allt gáfulegt sem sagt er. Þegar ég byrjaði að fylgjast með bloggi, fyrir þónokkrum árum síðan, gat maður lesið svotil allt slíkt sem maður fann (á íslensku vel að merkja). Nú er svo komið að ekki getur nokkur maður komist yfir að fylgjast með öllu því sem skrifað er. Bara Moggabloggið eitt er eitthvað sem engin leið er að komst yfir að lesa allt saman. Það er ekki einu sinni hægt að komast yfir að lesa það sem maður þó gjarnan vildi. Ég er eiginlega alveg hættum að lesa dagblöðin. Bæði berast þau ekki nema með höppum og glöppum og svo er óttalegt puð að fletta í gegnum allt þetta auglýingaskrum. Sjónvarpið horfi ég heldur ekki á nema stöku sinnum og þá helst fréttir. Streaming video eins og t.d. á alluc.org er miklu skemmtilegra. Þar getur maður þó ráðið hvort og hvernig maður horfir á eitthvað, öfugt við það ofbeldi sem sjónvarpsdagskráin beitir mann.

Ég held að vel megi  nota blogg til að hafa samband við ættingja og fjölskyldu og þá skiptir ósköp litlu máli hve margir lesa. Svo er ekki hægt að horfa alveg framhjá því að þetta er afar þægileg leið til að hafa efnið aðgengilegt fyrir sjálfan sig hvar sem er. Þetta er líka ágætis æfing í því að tjá sig í rituðu máli og með nokkuð skipulegum hætti. Með öðrum orðum; mér er slétt sama hve margir eða fáir lesa þessa bull í mér.

Öðru hvoru fæ ég einstök orð eða orðasambönd á heilann og orðin hljóma viðstöðulaust í hausnum á mér. Orðið sem er að gera mig vitlausan núna er orðið "Fjölmúlavíl". Ég er alveg viss um að þetta orð er til, en ég veit eiginlega ekki hvað það þýðir og nenni ekki að fletta því upp. Það minnir mig á orðið "fjölmiðlavæl" sem ég man svosem ekki eftir að hafa heyrt. Ekki er því að leyna að sumt fjölmiðlaefni (ég nefni t.d. fuglaflensuna) verður með tímanum óttalegt fjölmúlavíl.

Það er svolítið erfitt að vita hvenær komið er nóg í dagsskammtinn. Ég held þó að ég láti þetta nægja í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er einn af þeim sem hef gaman af mörgum gestum á bloggið mitt. Ég er kannski eitthvað skrítinn en myndi þér finnast það allt í lagi að skrifa blogg ef það stæði t.d. HEIMSÓKNIR Í DAG : 0 

Ég á systur sem skrifaði dagbók þegar hún var lítil og enginn mátti lesa það sem hún skrifaði... ég skil það og ég skil líka að fólk vilji skrifa "private" en af hverju er ekki hægt að skilja það að sumir kannski hafa gaman af mörgum lesendum?!  

Ég byrjaði að blogga bara til þess að æfa mig í íslenskunni (Hef búið lengi í Svíþjóð) og komst af því að það er þræl gaman að skrifa og að fá marga lesendur... þarf ég að skammast mín fyrir það?

Peace, love and understanding

Gunnar Helgi Eysteinsson, 14.2.2007 kl. 21:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir tilskrifið. Mér finnst nú ennþá meira gaman að fá komment en að  einhver teljari telji eitthvað.

 Auðvitað er ekkert athugavert við að vilja fá sem flesta í heimsókn en það gæti orðið til þess að menn færu að skrifa mest vinsældanna vegna og það er eiginlega viss tegund af spillingu.

 Annars er þetta kannski bara mest öfund í mér. Meðan  aðrir fá helling  af heimsóknum, nenna engir að lesa bullið í mér. Ég er annars steinhissa á að það hafi komið sjö manns hingað í dag.

Sæmundur Bjarnason, 15.2.2007 kl. 23:44

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er sammála þér um það að maður keppist við að fá sem flesta í heimsókn... En ég er hættur því núna (lofa og sver )

Mér finnst þú skrifa skemmtilega... það vantar bara mynd af þér og síðan kemur þetta allt saman

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.2.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband