1635 - Aðgengi

Scan11Gamla myndin.
Atli Harðarson.


Tvennt er það sem ég hef mest gaman af að gera. Það er að lesa það sem aðrir skrifa og að skrifa sjálfur. Skrifin verða oftast að bloggi. Ekki veit ég hvort mér líkar betur að skrifa að kvöldi til eða morgni. Eiginlega hef ég enga skoðun á því hvort sé betra. Allra best er samt að skrifa (og byrja þar með á bloggi næsta dags) eftir að vera nýbúinn að senda frá sér blogg. Það að senda frá sér blogg út í eterinn er gífurlega hreinsandi. Þar með losnar maður við það sem maður hefur verið að skrifa og þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Ef maður ætlaði sér að skrifa eitthvað annað og varanlegra þyrfti maður sennilega að burðast með áhyggjur af því í lengri tíma. Með því að gera það jafnóðum að bloggi sem maður skrifar losnar maður við slíkar hugsanir.

Langt má komast í frumlegum réttritunarvillum en þetta er með því besta sem ég hef séð. hryggninjastofninn var skrifað eins og ekkert væri eðlilegra á Moggabloggi einu sem ég sá áðan. Það var samhengið eitt sem sýndi mér framá að þarna átti að standa hrygningarstofninn.

Er hugsanlega betra að vera örvhentur, en rétthentur? Ganga menn svo langt að venja sig á að skrifa með vinstri hendinni til þess eins að vera taldir örvhentir? Ég trúi því ekki, en hef samt heyrt því fleygt að svo sé. Hvað með alla snilligana sem eiga að hafa verið örvhentir? Da Vinci t.d.? Úr nútímanum má t.d. nefna Clinton fyrrum bandaríkjaforseta. Eru allir einhver blanda af því að vera örvhentur og rétthentur? Hvaða atriði sker úr? Er það bara mannfólkið sem er ýmist örvhent eða rétthent? Hvernig erfist örvhendi, ef hún gerir það? Spurningarnar eru greinilega miklu fleiri en svörin. Verðugt rannsóknarefni.

Þegar ég sá um videófélagið í Borgarnesi á sínum tíma gerðum við árlega einskonar áramótaskaup. Eftirminnilegasta atvikið í því sambandi var þegar við fórum út í Hafnarskóg með Moskovits bifreið sem ákveðið var að henda þó gangfær væri. Hún átti að leika í bílslysa-atriði sem ég man ekki nákvæmlega hvernig var. Bíllinn átti þó að lenda í árekstri og ekki þótti vogandi að neinn væri í honum. Bifreiðin var því sett í gang, steinn á bensíngjöfina og þannig átti hún að keyra í áreksturinn. Ekki vildi samt betur til en svo að bíllinn sveigði frá því sem hann átti að keyra á og hvarf á bak við næstu hæð. Miklar umræður spunnust um þessi mistök hjá tökuliðinu og þeim lauk ekki fyrr en Moskovitsbifreiðin kom mannlaus úr ferð sinni og stefndi beint á myndatökuhópinn. Þar varð auðvitað uppi fótur og fit og reyndi hver að bjarga sér og sínum tækjum og endirinn varð sá að bifreiðin valt og stöðvaðist án þess að valda umtalsverðu tjóni nema á lögreglubílnum sem af einhverjum furðulegum ástæðum var staddur þarna.

Aðgengi fólks að bókum og allskyns lesefni hefur aukist mikið við tilkomu internetsins. Nú virðist það vera að aukast stórlega enn og aftur með tilkomu og algengi lesvélanna. Þó þær hafi verið til lengi er það fyrst nú sem þær eru að verða algengar hér á landi. Ég hef nú svo mikið aðgengi að allskyns lesefni, ýmist ókeypis eða mjög ódýru að ég sé alls ekki framá að komast yfir að lesa allt það sem ég hef áhuga fyrir. Mest af þessu efni er auðvitað á ensku. Það eru hinsvegar allsekki allir sem geta lesið sér til gagns á því máli. Skrif um rafræna útgáfu á íslensku ættu því að vera velkomin. Í framtíðinni er ég að hugsa um að einbeita mér að slíku því það er að verða mér talsvert áhugamál að fylgjast með því sem er að gerast varðandi þessi mál.

Ekkert megum við gamla fólkið hafa í friði. Nú er farið að tala um að selja inn á hálftíma hálfvitanna sem lengi er búin að vera okkar helsta skemmtun. Búast má því við að hætt verði að sjónvarpa þessu skemmtiatriði ókeypis og áhorfendum fækki. Mér er eiginlega sama hvort þessi hálftími er kallaður óundirbúnar fyrirspurnir, störf þingsins, fundarstjórn forseta eða eitthvað annað. Það má alltaf búast við einhverju óvæntu. Í því að koma manni á óvart eru þingmennirnir bestir. Verst er hvað flokkapólitíkin flækist oft fyrir. Venjulega segja þingmenn ekkert um það sem þeir hugsa heldur það sem þeir halda að komi flokki sínum best. Á þessu getur stundum orðið misbrestur og þá er gaman að greyjunum.

Nú getum við Kópavogsbúar hlakkað til að Jón gull komi IMG 8054til okkar!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rosalega er gamla myndin sæt :) Bæði fyrirsætan og hin gullfallega peysa sem barnið skrýðist, væntanlega heimaprjónuð af frábærri hannyrðakonu.

Harpa Hreinsdóttir 16.3.2012 kl. 00:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, finnst þér það ekki. Og ekki gleyma húfunni. Hún passar alveg einstaklega vel.

Sæmundur Bjarnason, 16.3.2012 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband