28.2.2012 | 22:48
1625 - Örsaga I
Gamla myndin.
Hér er Hafdís Rósa um það bil að rífa í hárið á Ingólfi Gísla Garðarssyni. Aðrir á myndinni eru: Bjarni Sæmundsson, Hjálmar Sigurþórsson, Þorgeir Einarsson, Benedikt Sæmundsson, Helga Einarsdóttir, Anna Einarsdóttir og Gerður Garðarsdóttir.
Ég veit ekki af hverju ég er að skrifa um þetta núna? Ég trúði Ævari ekki þegar hann sagði mér frá þessu upphaflega. Svo fór ég að velta þessu öllu fyrir mér nýlega og endirinn varð sá að ég er að hugsa um að segja frá þessu öllu.
Það var einhverntíma fyrir löngu síðan að Ævar kom að máli við mig sagði mér alla söguna. Ég trúði honum ekki þá og geri varla enn. Ekkert gerði ég og ekkert held ég að Ævar hafi gert í málinu. Það var líka svo langt um liðið að það var svosem ekkert hægt að gera. Ég velti því talsvert fyrir mér af hverju hann væri að segja mér þetta en komst ekki að neinni niðurstöðu.
Svo var það um daginn að ég var að Gúglast eitthvað á netinu og þá sá ég myndir sem sagðar voru vera úr Voynich handritinu. Ein myndin þar minnti mig mikið á það sem Ævar hafði sagt mér um árið svo ég fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi e.t.v. verið satt hjá honum.
Samt var ég á báðum áttum um hvort ég ætti að rannsaka þetta frekar. Það var ekki líklegt að neitt nýtt kæmi fram núna eftir allan þennan tíma. Auðvið gæti ég reynt að finna eitthvað fleira en þessa blessaða mynd sem renndi stoðum undir að frásögn Ævars gæti verið rétt.
Ég hélt því áfram að gúgla eins og vitlaus maður en ekkert kom í ljós. Það var sama hvað ég reyndi ég fann ekki nokkurn skapaðan hlut til viðbótar. Þessvegna er það sem ég sé ekkert annað ráð en að skrifa þessa sögu og segja einfaldlega frá því sem Ævar sagði mér og hvað það var sem leiddi mig að þeirri niðurstöðu að hugsanlega væri þetta allt rétt hjá honum.
Auðvitað væri æskilegast að spyrja Ævar bara sjálfan um allt það sem er óljóst í þessu en það er því miður ekki hægt. Hann dó fyrir þónokkrum árum og tók leyndarmálið sennilega með sér í gröfina. Ég veit a.m.k. ekki um neinn sem hann er líklegur til að hafa sagt nánar frá þessu. Þó svo væri er ekki líklegt að sá hinn sami vissi meira um þetta mál en ég.
Rétt væri sennilega að byrja á því að segja svolítið frá Voynich handritinu fræga. Eflaust kannast einhverjir við það en mér skilst að það séu einmitt hundrað ár núna frá því að það uppgötvaðist. Það er samt miklu eldra og textinn í því er öllum óskiljanlegur. Myndirnar eru heldur ekki af neinu sem menn þekkja. Aðallega eru þær af allskyns jurtum og þessháttar. Oft eru þær líkar þekktum jurtum en alls ekki alltaf. Ýmislegt fleira er líka í handritinu og margt afar einkennilegt
Það er kannski ofrausn að kalla Voynich handritið bók. Þetta er handrit á einum 270 lausum skinnblöðum og e.t.v. dálítið líkt íslensku handritunum í Árnasafni og hugsanlega skrifað á svipuðum tíma. Allmörg blöð vantar að líkindum í handritið og auðvitað veit enginn hvað hefur verið á þeim.
Myndin sem vakti athygli mína og minnti mig á frásögn Ævars er svona:
Þetta er hluti úr stærri mynd. Á myndinni sést kona á bakinu á þríhöfðuðum fugli. Hvort um er að ræða einskonar baðkar á bakinu á fuglinum veit ég ekki. Heldur ekki hverslags fittings það er sem hún er með hendurnar í.
Allt þetta mætti þó reyna að rannsaka frekar og það er einmitt það sem ég gerði. Það var samt árangurslaust og þessvegna er það sem ég sé ekkert annað ráð en að skrifa þessa frásögn.
Frásögn Ævars var á þessa leið:
Mér þótti sem ég væri Guð almáttugur. Auðvitað sat ég í hásæti mínu á himnum. Hjá mér sátu Jesús Kristur, Gabríel erkiengill og allt biblíuliðið. Fyrir neðan mig bylgjuðust bleikir akrar og slegin tún eins og segir svo fagurlega í Njálu.
Skyndilega kom hópur af fuglum úr suðri. Þeir voru í einskonar oddaflugi. Einn fugl flaug fremstur. Sá var með eitt höfuð. Í næstu röð voru þrír fuglar og voru þeir allir með tvö höfuð. Fuglarnir í þriðju röðinni voru með þrjú höfuð og áfram þannig. Í hverri röð fjölgaði höfðunum semsagt um eitt.
Ég klöngraðist niður úr hásætinu og lét mig falla niður á fuglahópinn. Greinilega lenti ég á fugli í fimmtu röð því hann var með fimm höfuð. Á margan hátt líktist hann svani en var þó miklu stærri. Ekki virtist hann muna mikið um þó ég lenti á bakinu á honum því honum fataðist lítt flugið ég hélt sínu striki.
Allt í einu gall við einskonar klukknahljómur og fuglarnir svifu mjúklega til jarðar og settust þar. Þeir fóru svo að bíta gras en ég fór af baki og litaðist um. Ekki var nokkra hreyfingu að sjá neinsstaðar fyrir utan fuglana. Nú sá ég að þeir voru allmargir og enga sá ég með fleiri höfuð en svona níu eða tíu. Skyndilega flugu allir fuglarnir upp og skildu mig eftir.
Seinna komst ég að því að þetta var skammt frá Hvolsvelli. Þangað fór ég og tók rútuna til Reykjavíkur. Ég sagði engum frá þessu því einhvern vegin fann ég á mér að þetta væri ansi ótrúlegt. Vinnu fékk ég og átti ekki í erfiðleikum með það. Herbergi tók ég á leigu og settist þar að. Á balli hitti ég svo hana Ölmu mína og við giftum okkur. Þannig er þetta nú og saga mín hefst í skýjunum og lýkur þegar ég drepst.
Mér fannst sagan svo ótrúleg að ég spurði hvort hann hefði ekki bara dreymt þetta.
Nei, Þetta var sko enginn draumur það er ég alveg viss um. Hvernig á því stóð að ég hafði nafnnúmer og kunni íslensku hef ég enga hugmynd um. Foreldra á ég enga og konan mín getur staðfest að ég á mér enga sögu. Enga ættingja. Engan fæðingarstað. Ekki neitt. Ég get sagst hafa verið hver sem er. Allt er jafn trúlegt. Sjálfur man ég ekkert eftir mér fyrr en á skýinu góða
Ég vissi ekkert um Ævar nema það sem gerst hafði síðustu árin, eftir að við fórum að fara saman á veiðar. Aldrei talaði hann neitt um æsku sína eða skyldmenni, en mér var alveg sama um það. Hann var ágætur félagi og ekki spillti að hann var vel að sér um þá hluti sem ég þurfti einkum að spyrja hann um.
Þegar Ævar dó man ég eftir að mér fannst einkennilegt að engir ættingjar hans voru við útförina. Mér þótti það skrýtið en hafði ekki orð á því. Fjölmenni var samt talsvert þar og börnin og Alma söknuðu hans greinilega mikið.
Þegar ég sá myndina í Voynich handritinu og þríhöfðaða fuglinn datt mér í hug að ég hefði átt að sannreyna hvort þessi saga gæti verið sönn. Alma dó í fyrra og ég gæti náttúrlega reynt að spyrja börnin en ég er hræddur um að þau viti lítið um þetta mál.
P.S. Ef þið eigið í vandræðum með að trúa þessu skuluð þið bara gúgla Voynich manuscript.
Athugasemdir
Tja. Ég veit ekki hvað ég á að segja. Vel skáldað?
Ólafur Sveinsson 29.2.2012 kl. 13:04
Hagalagður hét þetta þegar ég og Ragnar Árnason bóndasonur. fórum forðum daga um landareign Grafarkots,V-Hún. Var það talinn skylda að tína upp allt sem fannst. Ekkert mátti fara til spillis þá. Urðu til nokkrir strigapokar.
Ólafur Sveinsson 29.2.2012 kl. 14:21
Það getur vel verið að þetta sé hagalagður. Allavega datt mér ekki í hug að hirða það. Svona breytast tímarnir. Veit ekki hvort við krakkarnir í Hveragerði hefðum nennt að hirða svona lagað þegar ég var að alast upp þar. Jú, kannski.
Sæmundur Bjarnason, 29.2.2012 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.