1584 - Ritskoðun

Scan381 Gamla myndin.
Frá flugsýningu. Fjórar herþotur í hnapp yfir Reykjavík.

Nú veit ég af hverju svona margir segjast ekki vera á fésbók eða kæra sig ekki um það. Þeir eru líklega líkir mér og vilja umfram allt vita hvað þeir eru að gera þar. Finnst of flókið að gera það samt og vilja frekar hafa hlutina einfalda. Fésbókin er fyrir þá sem vilja láta hugsa fyrir sig varðandi tölvumál og það er ekkert athugavert við það. Hugsa að þeir séu ekkert ákaflega margir sem vita nákvæmlega hvernig fésbókin virkar. Viðbætur við þetta vinsæla forrit og breytingar á því eru afar algengar og það er greinilega einhver fjöldi fólks sem vinnur við það að hugsa fyrir fésbókarnotendur. Mér leiðist samt frekjan í þessu forriti, en get samt ekki stillt mig um að fara þangað alltof oft.

Eftir því sem þeim fjölgar sem á fésbókinni eru og breytingar verða þar tíðari líkar mér verr við hana. Hún hentar samt ágætlega fyrir svona óformlegt kaffispjall og margt annað. Miklu síður fyrir svona einskonar eintal eins og ég stunda. Þegar spjall þar verður óþarflega hráslagalegt er hægt að eyða því. Allt vill hún samt vita þessi fésbók. Heimtar jafnvel af manni kort yfir það hvar maður hefur átt heima. Ég fæ alveg sérstaka ánægjutilfinningu við að neita henni um sem flest. Sé ekki betur en sumir stundi það að læka eða klikka á allt sem hægt er að klikka á.

Helsti kosturinn við farsímann er sá að þegar maður er af einhverjum ástæðum búinn að fela hann svo vel að maður getur ekki fundið hann, þá er þó hægt að finna hann aftur með því að hringja í hann úr öðrum síma. Þannig þyrfti það að vera með fleiri apparöt og jafnvel gleraugu líka. Auðvitað er farsíminn líka öryggistæki og það er sömuleiðis tillitssemi við aðra að hafa hann sem oftast í vasanum ef maður fer eitthvað. Sumir virðast samt verða dálítið háðir honum og geta alls ekki án hans verið.

Einu sinni voru allar búðir opnaðar klukkan 9 á morgnana. Sumar búðir voru opnaðar snemma. Þ.e.a.s. klukkan sjö eða átta. Núorðið er einstaka búð opnuð fyrir allar aldir eða klukkan tíu eða ellefu. Aftur á móti eru sumar búðir (matvörubúðir) núna opnar allan sólarhringinn en það þekktist ekki áður fyrr. Þá þurfti maður að fara uppað Geithálsi eða vestur á Seltjarnarnes ef maður vildi komast í búð á helgidegi eða óvenjulegum tíma. Eftir klukkan hálftólf á kvöldin var í mesta lagi hægt að hafa samband við lögreglu eða sjúkrahús ef lífshætta var á ferðum.

Það verður varla mikið mál að venja sig á hrókasamræður við tölvur. Man alltaf hvað ég varð miklu felmtri (ekki flemtri) sleginn þegar ég heyrði mann í rifrildi við sjálfan sig í verslun fyrst. Þegar betur var aðgætt var hann auðvitað með handfrjálsan símabúnað á öðru eyranu.

„Ég kalla vefinn veftímarit frekar en bloggsíðu, því það eru seldar auglýsingar á síðuna (þegar þetta er ritað eru átta auglýsingaborðar á forsíðunni). Að auki kom forsprakki þeirra fram í DV föstudaginn 5. janúar og var titluð „ritstjóri veftímaritsins Pjattrófur“, og því má ætla að síðan sé ritstýrður fjölmiðill“.

Segir Hildur Knútsdóttir í grein um ritskoðun á „Knúz.is“ http://www.knuz.is/2012/01/af-ritskoun.html#.TwvyDSAw9nc.facebook Líklega ber að kalla knuz.is veftímarit. Það er alltaf álitamál hvort eitthvað er bloggsíða eða vefrit. Bloggurum finnst oft sem þeirra blogg séu vefrit þó þau séu það ekki. Ein aðferðin er að láta auglýsingar ráða, önnur fjölda heimsókna eða eitthvað allt annað. Er Facebook.com t.d. vefrit eða blogg? Nei, hvorugt auðvitað. Þetta er bara fésbók. Gísli Ásgeirsson skrifar oft á „Knúz.is“ og vísaði á þessa grein eftir Hildi. Hann er alls ekki yfir ritskoðun hafinn sjálfur. Henti t.d. út einhverjum fésbókarathugasemdum sem ég gerði. Jú, jú. Þær voru ósköp ómerkilegar ef ég man rétt. Kannski má samt kalla það ritskoðun. Að langmestu leyti er ég samt sammála Hildi um það sem hún segir um ritskoðun í grein þeirri sem ég vitnaði í hér fyrir ofan.

IMG 7706Bekkur. Einmana og yfirgefinn í kuldanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Sæmundur.

" Hann er alls ekki yfir ritskoðun hafinn sjálfur. Henti t.d. út einhverjum fésbókarathugasemdum sem ég gerði. Jú, jú. Þær voru ósköp ómerkilegar ef ég man rétt. Kannski má samt kalla það ritskoðun."

Þetta er smáatriði sem þú gerir hér að umtalsefni. Ef ég man rétt þá setti ég inn einhvern status um eitthvað dægurmál og síðan kemur athugasemd frá þér um þriggja marka kristfjárómaga, sem var svo langt frá því sem upp var lagt með, að það hálfa væri nóg. Þú ítrekaðir síðan þennan kristfjárómaga, sem ég veit ekkert um og hafði þá engan áhuga á að ræða í þessu samhengi. Mér fannst þessi umræðuhali asnalegur og eyddi honum. Hann var stuttur og fékk að standa nógu lengi til að allir sáu að þú einn hafðir áhuga á að troða þessum ómaga inn, með fullri virðingu fyrir þínum áhuga á þessu tiltekna málefni. Það geturðu auðvitað rætt á þinni bloggsíðu og fésbókarvegg.

Ef þetta er ritskoðun, þá finnst mér þú seilast frekar langt í smámunaseminni.

Gísli Ásgeirsson 10.1.2012 kl. 10:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Fyrirgefðu, Gísli. Var ég að eyðleggja asnalegan fésbókarþráð með því að gera hann enn asnalegri? (eru ekki flestir fésbókarþræðir hálf-asnalegir?) Þú svissar eins og ekkert sé á milli kerfa og forrita og ætlast til að aðrir geri nákvæmlega eins. Hugsaðu aðeins um hvernig þessi ofurkraftur þinn virkar á þá sem ekki hafa við þér í forritadansinum. Og ritskoðun er oftast smásmuguleg þó þeir sem fyrir henni verða séu ekki alltaf sammála þeim sem beitir henni. Nenni svo ekki að tala um þetta ómerkilega mál meira, en minni á orðtakið gamla um að sannleikanum verði hver sárreiðastur.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2012 kl. 05:34

3 identicon

Svakalega er Gísli svektur. Jaðrar við dónaskap.

Ólafur Sveinsson 11.1.2012 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband