1565 - Losaði þvag

Scan78Gamla myndin.
Hjálmar Sigurþórsson.

Hvað er það sem heldur mér sískrifandi og síbloggandi? Skil það bara ekki. Helst dettur mér í hug að það sé vegna þess að mér finnist þeir sem lesa bloggið mitt vera að láta í ljós einhverja aðdáun á þessum skrifum mínum með því að lesa það. Þó getur það varla verið því mér skín í rauninni ekkert gott af þessu. Þeir eru líka ekki svo margir sem þetta gera. Hvað getur það þá verið? Róar það mig að skrifa og er það mér ekkert verulegt átak? Það getur vel verið. Þessi tími sem vill til að ég lifi á er sérstakur að því leyti að framfarir á öllum sviðum eru hið eðlilega ástand hlutanna og allir hafa tækifæri til að láta ljós sitt skína. Jú, þeir allra bestu hafa kannski alltaf náð í gegn. Þ.e.a.s. komist í gegnum allar síurnar sem á vegi þeirra hafa orðið. Allir hinir hafa þurft að sætta sig við að vera gerðir afturreka. Hvorki komist lönd né strönd. Nú geta aftur á móti allir talað við alla. Internetið er mikil blessun. Með því gefst öllum kostur á að láta í sér heyra og samskiptin geta aukist manna á meðal eftir því sem hver vill.

Stórstyrjaldir hafa líka yfirgefið okkur og koma vonandi aldrei aftur. Í framtíðinni held ég að tuttugustu aldarinnar verði minnst fyrir heimsstyrjaldirnar tvær, en eftir þá síðari má segja að samfellt blómatímabil hafi ríkt á jörðinni. Alls ekki án undantekninga samt. Sumir halda áfram að eiga um sárt að binda þrátt fyrir allt. Hlýnun jarðarinnar og samspil mannskepnunnar við náttúruna koma e.t.v. til með að einkenna þá öld sem nú er nýhafin. Þó margir séu svartsýnir er samt engin ástæða til að örvænta. Lausnir á flestum vanda finnast á endanum.  

„Hann stóð uppi á húsþaki og losaði þvag yfir fólkið“. Eitthvað á þessa leið var sagt í víðlesnu vefriti. Meig hann ekki bara yfir það? Var hann virkilega með kopp þarna uppi og skvetti úr honum? Er tepruskapurinn og pólitíska rétthugsunin að gera útaf við fólk? Er virkilega klám að segja að einhver hafi migið eða pissað yfir fólk? Skil þetta ekki. Klámbylgjan ógurlega er að gera útaf við alla. Það er bókstaflega þannig hjá sumum að ekkert virðist vera mikilvægara en koma í veg fyrir alla nekt og allt kynlíf. Sá áðan ágætan pistil um þetta eftir Evu Hauksdóttur. Hún var m.a.að bera saman þær ægilegu og hroðalegu nauðganir sem klámvæðingin kallar yfir okkur á Vesturlöndum og þær þægilegu og ánægjulegu nauðganir sem eiga sér stað annars staðar.

IMG 7475Rör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahá, þarna er Hjálmar Alexander ungur, gæti þessi mynd verið tekin 1974? Pilturinn er fæddur 1978 að ég hygg. Nú á hann konu og tvö börn það best ég veit. Foreldrarnir eru Magndís Alexandersdóttir frá Stakkhamri og Sigurþór Hjörleifsson frá Hrísdal. Þau eru reyndar þremenningar að frændsemi.

Ellismellur 18.12.2011 kl. 09:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hver sagði að þessi mynd væri tekin 1974? Það er alveg hugsanlega rétt samt. Hins vegar er ég viss um að Hjálmar er fæddur fyrr en 1978, sjá t.d. mynd sem ég birti hér á blogginu þann 23. nóvember s.l.

Sæmundur Bjarnason, 18.12.2011 kl. 10:00

3 identicon

Þetta flokkast víst undir pennaglöp. Hann er fæddur 1968, maðurinn.

Ellismellur 18.12.2011 kl. 10:59

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Elsku hættu þessum reglulegu vangaveltum um hvers vegna þú bloggar. Þú bloggar einfaldlega af því þú hefur gaman af því. Það er gaman að skrifa og enn meira gaman þegar maður getur auðveldlega komið því á framfæri og vitað að aðrir lesa það og hafa (amk. stundum) gaman af. Og haltu þessu bara áfram fyrir alla muni -- meðan þú hefur sjálfur gaman af því. Ef maður fær ritstíflu (eða rittregðu) svona við og við tekur maður því þegar þar að kemur. Svo fer bara allt í ganginn aftur.

Sigurður Hreiðar, 18.12.2011 kl. 11:32

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Rétt Sigurður. Var imponeraður af því að þú skyldir kannast við Pétur Jakobsson. "Pétur sagði" var mjög vinsæl setning á mínu heimili þegar ég var lítill og ég lærði snemma að herma það eftir Huldu.

Sæmundur Bjarnason, 18.12.2011 kl. 12:04

6 identicon

Þú bloggar einfaldlega af því þú hefur gaman af því. Haltu því bara áfram. Ég þarf enga skýringu.

Ólafur Sveinsson 18.12.2011 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband