1560 - ESB, eilífðarmálin o.fl.

a1Gamla myndin.
Ég sjálfur með Bjarna.

Man að í ársbyrjun 2008 keyptum við bílinn okkar sem var model 2007. Hann kostaði ekki nema nokkurra mánaða vinnu (jæja, þónokkurra mánaða) og þótti mér það ótrúlegt. Enda voru þessi lífskjör tóm lygi. En maður trúði svosem bankabesefunum þegar þeir fullyrtu að allir væru sannfærðir um að fjárans-kerfið íslenska væri svo sterkt að það gæti ómögulega farið á hausinn. Bankarir væru þar á ofan orðnir svo stórir að veröldin öll lægi fljótlega fyrir fótum okkar Íslendinga. Auðvitað læddist smáefi að manni um að allir aðrir gætu verið svona tröllheimskir, en vot ðö fokk, ef þeir vildu endilega láta gáfuðu Frónbúana ráða yfir sér var ekki um annað að gera en sætta sig við það.

Svo kom hrunið mikla. Útlendingar sumir áttu erfitt með að skilja hvað var eiginlega að gerast. Geir ákallaði Guð og Björgólfur Þór fór í einu stökki niður tröppurnar við ráðherrabústaðinn. Samt varð ekki feigum forðað. Bjöggi sá þó um sig.

Nútíminn er trunta. Þetta eru engin ný sannindi. Allt koðnar niður. Occupy-hreyfingin sem virtist ætla að verða sterkt afl er að koðna niður og fjármagnseigendur hlæja. Þeim tókst að kveða hana í kútinn. Lífskjörin hafa samt batnað í heiminum frá því sem áður var. Allir geta látið til sín heyra a.m.k. hér á Vesturlöndum. Samstarfið og sameininguna vantar samt alveg. Hver og einn puðar í sinu horni og álítur sitt sjónarmið það mikilvægasta. Samt þokast heimurinn í rétta átt og verður smám saman grænni og grænni, réttlátari og réttlátari. En það gengur grátlega hægt og þeir sem vilja fara hraðar kljúfa sig frá hinum. Þeir sem vinstra megin eru á hinum pólitíska ási sundrast æ meir. En hugsjónir og framsæknar hugsanir brjóta sé farveg inn í steinrunnin sjónarmið. Alltaf er samt eitthvað eftir til að rífast um.

Það er alveg ljóst að þeir sem vildu ganga í ESB til að geta fengið evruna fljótt hafa haft rangt fyrir sér. Það er alls ekki öruggt að evran sé það rétta fyrir okkur Íslendinga. Það hafa atburðir síðustu vikna og mánaða fært okkur sanninn um. Samt finnst mér rétt að halda viðræðunum við ESB áfram því fyrr eða síðar munum við ganga í það samband. Það er samt ekkert víst að rétti tíminn sé núna en ágætt er að fá að vita hvernig landið liggur. Þróun íslensks þjóðfélags hlýtur að ganga í svipaða átt og Evrópusambandsins eins og verið hefur lengi. Við eigum líka alls ekki gott með að hætta öllu samstarfi við bandalagið þó sumir virðist halda það. Það er ekki eftirsóknarvert að þróast á svipaðan hátt og USA hefur verið að þróast undanfarin ár og áratugi. Þá er nú Evrópska stórríkið skárra.

Aðildin að NATO var ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu þó margir hafi viljað það. Hugsanlegt og jafnvel líklegt er að aðildin hefði verið felld þá. Eitt helsta tromp þeirra sem nú eru á móti aðild að ESB (sem eru að hluta til þeir sömu) er að aðildin að ESB verði aldrei lögð í þjóðaratkvæði. Um nákvæmlega þetta atriði er líklegt að tekist verði á um í næstu alþingiskosningum. Eins og mál hafa þróast er líklegast að ESB-málið verði þá óafgreitt.

Guðmundur og Heiða voru hjá Agli í silfrinu í gær. Horfði á þau en ekki annað í silfrinu. Sennilega er betra að vera sannfærður um réttmæti pólitískra skoðana einhvers af fjórflokknum en að vera alltaf svona sammála síðasta ræðumanni. Get ekki að því gert að a.m.k. fyrst eftir þáttinn var ég algjörlega á þeirra bandi.

Jónasinn sjálfur fjasar svolítið um blogg og fésbók, sennilega af því að Egill Helga minntist á það. Mér finnst hann nú aðallega tala um fésbókina sem auka-athugasemdahít. Enda leyfir hann ekki athugasemdir á sínu bloggi. Er bæði kjaftfor og vel að sér um margt eftir langa ritstjóratíð. Í gamla daga fannst bændum gaman að hata hann. Man eftir honum á einhverju ungmennafélagsmóti þar sem hann keppti í hlaupi við Stefán í Vorsabæjarhól. Mér finnst ég sjálfur samt mestur og bestur og reyni að láta ekkert hagga því.

Skrýtið að hugsa til þess að maður hljóti að drepast áður en mjög langt um líður og trúa samt ekki á neitt framhaldslíf. „Undarleg örlög að deyja,“ sagði Hannes skáld Pétursson fyrir margt löngu í ljóði einu sem ég las. Les ekki mörg ljóð en man samt vel eftir þessu. Verð eiginlega að reyna að koma mér upp einhvers konar endurholdgunartrú áður en kallið kemur. Nei, ég er ekki að grínast. Það er dálítið hart að gera ekki ráð fyrir neinu fyrir handan. Svona er þetta samt. Hindurvitnin og annað þess háttar er svo ótrúverðugt að ekkert-ið er bara sæmilega sennilegt. Erfitt samt að sætta sig við það. Að ræða eilífðarmálin á þennan hátt hér á Moggablogginu er e.t.v. ávísun á ógnarlangan svarhala. Þá er bara að taka því hraustlega. Þó er ekki víst að Síonistabullið verði slegið út.

Það er erfitt að hemja sig þegar bloggið er annarsvegar. Ég á alltaf erfitt með að hætta að skrifa. Tekst þó oftast að stilla mig um að senda á bloggið annað en það sem ég hef lesið yfir einu sinni eða tvisvar.

IMG 7439Steinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínt rabb, Sæmundur.

Ólafur Sveinsson 12.12.2011 kl. 22:53

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ólafur.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2011 kl. 01:32

3 identicon

Dræmar undirtektir með þessum eilífðarmálum; Málið er einfalt, við erum heilinn.. enginn heili = við hættum að vera til, allt verður alveg eins og áður en þú fæddist.

Menn geta tekið hvaða veðmál sem er; Sússi, Mummi.. Guddi/Allah(sami gaur); Á endanum mun það engu máli skipta, nema tíma og peningalega séð; Það er jú mesta sóu sem til er að vasast í trúarbrögðum og eilífðartryggingamálum

DoctorE 13.12.2011 kl. 09:44

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

En DoctorE, það gera margir samt. Sé ekki betur en allt sé að verða vitlaust núna í Háskólanum útaf trúmálum.

Sæmundur Bjarnason, 13.12.2011 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband