1555 - Dómur um dóm

Scan229Gamla myndin.
Í Reykjavík.

Las áðan dóm Hörpu Hreinsdóttur um bókina Glæsi eftir Ármann Jakobsson. Minnir að sá Ármann sé tvíburabróðir Sverris og bróðir Katrínar menntamálaráðherra. Er semsagt altekinn þeim íslenska (ó)sið að ættfæra alltaf í huganum alla sem ég get. Stundum er þessi ættfærsla raunar tóm vitleysa en þá er taka því.

Dómur Hörpu er ágætur og ég hef satt að segja nokkurn áhuga á að lesa þessa bók. Hún tengir efnið við Eyrbyggju, en segir samt að á vefnum „Druslubækur og doðrantar,“ http://bokvit.blogspot.com/ sé því haldið fram að ekki sé nauðsynlegt að hafa lesið Eyrbyggju til að njóta bókarinnar.

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að bestu Íslendingasögurnar séu Njála, Laxdæla og Eyrbyggja. Hef satt að segja aldrei kunnað almennilega að meta Egils sögu og Grettlu. Aðrar Íslendingasögur en þessar fimm finnst mér standa þeim að baki. Fóstbræðra saga og Gísla saga Súrssonar eru þó ágætar og Hrafnkötlu hef ég alltaf litið á sem smásögu og talsvert sér á parti.

Hef lesið báðar bækurnar sem Einar Kárason hefur skrifað um efni úr Sturlungu og líkar ágætlega við þær. Kannski hentar efni af þessum toga mér vel. Er þó yfirleitt heldur andvígur skáldsögum. Hefur sjálfum dottið í hug að gott efni í sögu væri drápið á Jóni Gerrekssyni árið 1433, sem ég veit að hefur e.t.v. verið fjallað um á þann hátt fyrir löngu. Til er a.m.k. skáldsaga með nafni hans eftir Jón Björnsson, sem gefin var út árið 1947.

Í mínum augum er Sturlunga sagnfræðirit en Íslendingasögurnar sögulegar skáldsögur sem stundum eru vel heppnaðar en stundum miður. Íslendingaþættir örsögur eða stundum smásögur og Fornaldarsögur Norðurlanda skemmtisögur og krimmar þess tíma ásamt Riddarasögum o.þ.h.

Les stundum innlegg og athugasemdir á druslubókum og doðröntum (sjá link ofar) og sá þar um daginn skemmtilega grein og athugasemdir um les-stellingar í rúminu. Þetta er verulega spennandi rannsóknarefni og sömuleiðis hundseyru, bókarmerki og ýmislegt í þeim dúr. Verst hvað þetta er yfirgripsmikið efni.

Ef ég á að tala fyrir sjálfan mig get ég helst ekki lesið í rúminu nema upp við dogg og með bókina á bringunni. Get líka helst ekki farið að sofa nema lesa svolítið fyrst. Hundseyru set ég yfirleitt hikstalaust á bókasafnsbækur en viðurkenni að það er misþyrming á þeim. Sömuleiðis að leggja þær frá sér á grúfu. Það beinlínis getur brotið kjölinn á þeim. Skömminni skárra er að leggja þær frá sér upp í loft, en þá er hætta á að blöðin fari á fleygiferð hvort sem er, nema sett hafi verið brot í blaðsíðuna við kjölinn sem líka er misþyrming.

Best er auðvitað að nota bókarmerki og auðvitða má nota hvað sem er við slíkt. Þegar lesið er í rúminu er efni sem hægt er að nota sem bókarmerki sjaldnast við hendina. Fangaráðið hjá mér er þá oft að reyna að leggja blaðsíðutalið á minnið. Það gefst misjafnlega.

Hef nokkrar áhyggjur af því að ég bloggi fullmikið. Reyni samt ævinlega að hafa bloggin mín eins stutt og mér er mögulegt. Að blogga daglega eða uppundir það er bara orðið mér svo eðlilegt að ég get ómögulega hætt því.

IMG 7289Ekki veit ég hvert greinarnar á þessu tré hafa farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þér um að Druslubækur og doðrantar sé mjög skemmtilega síða, hún er a.m.k. afar fjölbreytt enda skrifuð af mörgum ólíkum höfundum. Athugaðu að ég dró aðallega fram einn þráð (raunar meginhugmyndina, held ég) úr Glæsi en þetta er afar margþætt saga og hægt að skrifa um hana á ótrúlega marga vegu. Ég er viss um að þú hefðir mjög gaman af henni. Ekki hvað síst af því ótal tilvísanir eru til fornrita (ég nefndi bara fáar þeirra).

En af hverju varstu að leyfa Óla Gneista að fá texta Netútgáfunnar í sína rafbókaútgáfu? Skil ekkert í þér!

Harpa Hreinsdóttir 7.12.2011 kl. 02:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skil ekki þetta sem þú segir um Netútgáfuna. Hingað til hefur Netútgáfan staðið öllum opin. Hvað áttu við?

Sæmundur Bjarnason, 7.12.2011 kl. 09:37

3 identicon

Ég á við að nú er texti Netútgáfunnar tekinn og settur á annað form (Kindle/Epub) og gefinn út á öðrum vef. Sjá http://rafbokavefur.is/category/rafbaekur/

Sem er vefur Óla Gneista Sóleyjarsonar eftir því sem ég best veit.

Harpa Hreinsdóttir 7.12.2011 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband