29.10.2011 | 21:46
1515 - Um vitskerta afbrotamenn og þá með fullu viti
Gamla myndin.
Svona leit Hreðavatnsskáli einu sinni út.
Sem dæmi um þau kvikindi sem fjallað er um hér á heimilinu má nefna tvö sem til umræðu komu í morgun. Þau eru þjónustuhundur og flugkónguló. Það er eiginlega ekkert meira að segja um þessi fyrirbrigði, þau eru ímynduð eða raunveruleg alveg eftir atvikum. Hver má hafa það eins og hann vill.
Bældar minningar eru mjög til umræðu núna. Er það að vonum. Guðrún Ebba biskupsdóttir kemur þar mjög við sögu. Sagt er að þeir sem dragi í efa tilvist bældra minninga séu að saka hana um upplognar sakir á föður sinn. Svo þarf ekki að vera. Hún getur í einhverjum skilningi hafa munað eftir þessu en ekki viljað viðurkenna hið kynferðislega í minningunum fyrir sjálfri sér eða öðrum. Annars finnst mér þetta smjattmál vera farið að flækast fyrir mönnum í umræðunni um trúmál. Sú umræða skiptir verulegu máli og getur sem hægast skipt sköpum um örlög þjóðarinnar.
Í sjónvarpinu í kvöld var sagt frá geðsjúkum afbrotamanni sem ekki fékk þá meðferð sem hann var dæmdur til að fá. Að stjórnendur Kleppsspítala skuli hafa komist upp með að neita manninum um vist þar er óviðunandi og í sjálfu sér jafnmikið afbrot og margt annað.
Sigurður Þór Guðjónsson fordæmir í bloggi sínu Tómas Helgason fyrrum yfirlækni á Kleppi og Ólaf Ólafsson fyrrverandi landlækni reyndar líka fyrir þetta. Er öll sú pomp og pragt sem viðhöfð verður væntanlega við jarðarfarir þessara heiðursmann meira virði en fordæming Sigurðar Þ. Guðjónssonar í lifenda lífi? Ég held ekki. Sigurður Þór orðar grein sína samt þannig að hægt er að álíta svo.
Er virðuleg og fögur jarðarför einhvers virði fyrir hinn látna? Auðveldar hún honum inngönguna í himnaríki? Er hann að eyða þeim peningum sem þar er kastað á glæ? Eru orð prestsins sem jarðsyngur svo máttug að jafnvel Lykla-Pétur og hugsanlega Guð sjálfur glúpni fyrir þeim? Nei, það er lífið hérna megin sem mestu máli skiptir, en ekki hvernig óspjölluðu meyjarnar átján haga sér.
Eva Hauksdóttirn, norn heldur áfram að fjölyrða um vændi. Virðist jafnvel telja mögulegt að hamingjusama hóran sé til.
Held að feministum og öðrum þeim sem hátt hafa um falleraðar konur sé illa við Evu og finnist hún svíkja málsstaðinn. Og svo eru margir karlmenn til sem hrósa svona skrifum. Sjálfum hefur mér alltaf þótt samanburðurinn við knattspyrnumennina sláandi. Svo er jafnvel núna að koma smápeningur inn í kvennaknattspyrnuna svo á endanum geta þær kannski farið að velja. Væri ég yngri mundi ég að sjálfsögðu vona að þær fallegu velji vændið. Hugsun af þessu tagi settu feimnir strákar áður oft áður fyrr í minningabækur hjá stelpum sem þeim leist vel á. Þær kusu oftast að misskilja það.
Hér á Íslandi er karlaveldið að hrynja og mér finnst það ganga nokkuð hratt. Kvenfólki finnst það vitanlega ganga löturhægt og reyna að herða á breytingunum með sem mestum krafti. Feministakonur eru eflaust að gera marga mjög góða hluti þar en annars staðar er ekki annað að sjá en þeim sé að mistakast herfilega,
Litlu vísitölufjölskyldurnar eru bara skipulag sem yfirstéttin og kirkjuvaldið hefur komið á. Skýrslugerð öll er með hagsmuni kirkjunnar að leiðarljósi umfram aðra.
Sennilega eru andkristileg viðhorf allskonar hvergi útbreyttari en í Bandaríkunum. Þar eru einnig dogmatískari og þröngsýnni kirkjudeildir en víðast hvar annars staðar.
Það getur verið gaman að kíkja á gömul eigin blogg. Hér er t.d. ímyndað viðtal sem ég birti á blogginu mínu þann 17. ágúst 2008:
Blaðamaður Moggabloggstíðinda tók nýlega viðtal við bloggarann Sæmund Bjarnason og fer það hér á eftir: BMB: Nú ert þú búinn að blogga manna lengst hér á moggablogginu. Hvenær byrjaðirðu á þessu og hvernig stóð á því? SB: Það er tæpast rétt hjá þér að ég hafi bloggað manna lengst hér. Mig minnir að ég hafi byrjað í árslok 2006. Ástæðan var aðallega sú að ég hafði gengið lengi með þetta í maganum og ákvað að prófa þegar ég sá hve einfalt og auðvelt þetta er. Nú er þetta orðið að einskonar ávana. BMB: Urlið hjá þér er: saemi7.blog.is. Hvaða sjö eru þetta? SB: Sjö er bara mín uppáhaldstala. Mig minnir líka að tölustafslaus saemi hafi verið frátekinn þegar ég byrjaði. BMB: Hvaða fólk er þetta á hausmyndinni hjá þér? SB: Já það. Þetta er gömul mynd tekin í Hveragerði. Gunnar Helgi gerði þessa mynd fyrir mig og þarna er til dæmis pabbi hans. Einnig Bergþóra Árnadóttir og fleiri. Viltu vita nöfnin á öllum? BMB: Já, því ekki það. SB: Talið frá vinstri: Björgvin Bjarnason, Margrét Árnadóttir, Eysteinn Gunnarsson, Bergþóra Árnadóttir, Vignir Bjarnason og Jón Sverrir Árnason. Annars getur vel verið að ég setji nýja hausmynd einhvern tíma. Myndin af mér sjálfum er heldur ekki góð. En ég myndast nú alltaf svo illa. BMB: Takk fyrir þetta. Ég hef tekið eftir því að þú bloggar langmest um blogg. Er hægt að blogga endalaust um blogg? SB: Já, líklega er það hægt. Þetta er hvorki meira né minna en nýr samskiptamáti og engin hætta á að hann hverfi fljótlega. BMB: En lestu mikið af bloggum annarra? SB: Talsvert. Ég er aftur á móti næstum hættur að lesa dagblöð. Les bækur, horfi svolítið á sjónvarp og vafra um á Netinu. Fjölmiðla- og Netneysla fólks hér á landi er með ólíkindum mikil. Þetta með Netið er svolítið eins og að ganga í björg. Hjá flestum hljóta samskiptin í kjötheimum að minnka eftir því sem Netsamskiptin aukast. Það er ekki bara moggabloggið eða blogg yfirleitt sem vex sífellt. Önnur samskipti á Netinu fara líka sívaxandi. Leikjafíkn þar getur orðið verulegt vandamál. Einhverja frétt sá ég um daginn þar sem sagt var frá því að fólk skíti jafnvel í pizzukassa til að þurfa ekki að yfirgefa tölvuna augnablik. Vonandi verða bloggarar aldrei svona. BMB: En er ekki hægt að ganga of langt í þessu eins og flestu öðru? SB: Jú, eflaust. Þegar fólk situr kannski við tölvu í vinnunni og fer svo beint í heimatölvuna og eyðir þar mestöllum vökutímanum sem eftir er, þá er hætta á ferðum. BMB: Hvað ertu lengi að skrifa hvert blogg? SB: Það er ákaflega misjafnt. Stundum er ég skotfljótur en stundum óralengi. Ég er þó svo heppinn að ég get oft eytt tímanum í vinnunni í þessi ósköp. Ég er nefnilega næturvörður. Ég ímynda mér oft að ég geti minnkað þann tíma sem ég eyði í annað net-tengt ef ég er lengi að blogga en auðvitað er það misskilningur. Ég þarf að lesa önnur blogg og ýmsar síður, leika í bréfskákum, lesa netmiðla, kommenta hjá öðrum og svo framvegis og framvegis og tíminn flýgur. Annars er þetta komið hátt á aðra síðu hjá okkur og bloggin mín mega helst ekki vera lengri en þetta. Sjáumst seinna. Þar með var ofurbloggarinn rokinn til að setja þetta viðtal á bloggið sitt. | ||
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.