23.10.2011 | 23:28
1510 - Jón Þorláksson
Í gamla daga áttu skór einmitt að vera svona.
Yfirlýsingin frá KSÍ um að það sé sóðaskapur að hrækja er tímamótayfirlýsing. Mér er til efs að jafnákveðin og harðorð yfirlýsing hafi nokkurntíma verið gefin út af jafn fjölmennum samtökum. Hingað til hefur mér sýnst það aðalmunurinn á körfuboltamönnum og handknattleiksmönnum annars vegar og knattspyrnumönnum hinsvegar að þeir síðastnefndu eru sískyrpandi. Að hrækingar séu sóðaskapur kemur ef til vill knattspyrnumönnum mjög á óvart en öðrum síður.
Held að Occupy Wall Street-hreyfingin muni auka fylgi sitt á næstunni. Veit ekki af hverju. Held samt að fólk sé e.t.v. búið að fá nóg af ráðsmennsku og mannfyrirlitlningu ópersónulegu stórfyrirtækjanna og sé tilbúið til að reyna eitthvað nýtt. Hvort það verður betra er ómögulegt að segja. Kannski verður það bara verra, en áhættan er lítil. Þessi hreyfing er áframhald af stúdentauppreisninni um 1968 og hefur alla burði til að sigra heiminn. Þeir sem stjórnað hafa honum undanfarið hefur mistekist illa.
Var að reyna að lesa ógnarlangan svarhala við bloggi Illuga Jökulssonar um bréf til forsetans, en gafst upp að lokum. Langathyglisverðasta uppástungan fannst mér vera að vandræði Íslendinga stöfuðu líklega af D-vítamínskorti. Held samt að þetta sér rangt hjá bréfritara og vandræðin stafi frekar af C-vítamínskorti. Annars má lengi deila um bókstafina og svo eru þeir kannski til sem álíta umræðuna komna út fyrir upphaflega efnið.
Eru íslenskir dómstólar að ætlast til þess að öll skrif í fjölmiðlum séu jákvæð og uppbyggileg? Ekki megi vitna í skjöl sem koma málinu við ef of langt er um liðið frá gerð skjalsins. Mér finnst sumt benda til að dómarar líti á sig sem einskonar yfirritstjóra yfir marktækum fjölmiðlum og bloggurum reyndar líka. Eiga þeir að ráða því um hvað er fjallað og hvernig? Mér finnst að svo eigi alls ekki að vera. Meiðyrðalöggjöfin er komin útfyrir öll skynsamleg mörk, ef ekki má vitna í gömul skjöl í umfjöllun um mál.
Jón Þorláksson á Bægisá (1744 1819) þýddi Paradísarmissi Miltons og var afburðaskáld sjálfur. Margar vísur hans urðu landsfleygar. T.d. þessi:
Fátæktin var mín fylgikona
frá því ég kom í þennan heim,
við höfum lafað saman svona
sjötigi vetur, fátt í tveim, -
hvort við skiljum nú héðan af,
hann veit, er okkur saman gaf.
John Milton er sagður hafa fengið fimm pund í höfundarlaun fyrir Paradísarmissi sinn og þó verðbólga hafi leikið pundið grátt í aldanna rás er það einhver grútarlegasta greiðsla sem sögur fara af.
Yfirleitt var Jón óáreitinn en kunni vel að beita snilli sinni sem níði. Sagt er að hann hafi gert þessa vísu um Baagöe á Akureyri þegar hann frétti að kaupmaðurinn tæki veð í hrossum manna sem til hans kæmu:
Varla má þér, vesælt hross,
veitast heiður meiri
en að þiggja kaupmanns koss
og kærleiksatlot fleiri,
orðin húsfrú hans;
þegar þú leggur harðan hóf
háls um ektamanns,
kreistu fast og kyrktu þjóf,
kúgun Norðurlands.
Einnig sinnaðist Jóni við Magnús Stephensen þegar hann gaf út sálmabók sína sem nefnd hefur verið Leirgerður. Orti hann þá m.a. þessa alkunnu vísu:
Skáldskapur þinn er skothent klúður,
skakksettum höfuðstöfum með,
víðast hvar stendur vættar-hnúður,
valinn í fleyg, sem rífur tréð,
eitt rekur sig á annars horn
eins og graðpening hendir vorn.
Athugasemdir
Hvaða rokkdólgur er þetta efst með fæturna uppá palísanderborðinu? Fólk hefur nú skilið fyrir minna en að setja skítuga skóna upp á harðviðarborð.
FORNLEIFUR, 24.10.2011 kl. 16:22
Láttu ekki svona. Þetta er mágur minn. Held að hann eigi líka heima þarna. Annars er myndin aðallega af skónum. Og þeir eru ekki vitund skítugir.
Sæmundur Bjarnason, 24.10.2011 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.