1484 - 110 %

Sýnist bloggunum ekki fækka neitt verulega hjá mér þó ég sé hættur að vaka eftir því að koma þeim upp á netið og búinn að setja þau að flestu leyti aftar í forgangsröðina en áður.

Það virðist vera að hvessa eitthvað í Sögu Akraness-málunum. Páll Baldvin ætlar ekki sætta sig við aðdróttanir Árna Múla af frásögn Eyjunnar að dæma. Er þó engan vegin viss um að málaferli verði. Best gæti ég trúað að menn gættu þess að segja sem minnst úr því sem komið er. Ég held þó áfram að tuða, því enginn tekur mark á mér. Kannski Harpa haldi eitthvað áfram líka.

Fréttir sem ég hef heyrt get ég ekki skilið öðruvísi en þannig að allir sem húsnæðislán hafa útvegað nema Íbúðalánasjóður ætli að sleppa því að reikna aðrar eignir (s.s. bíla) með þegar reiknað er út hverjir verði þeirrar náðar aðnjótandi að fá felldan niður hluta lána samkvæmt 110% leiðinni. Mér finnst það með öllu óaðgengilegt að Íbúðalánasjóður sé að þessu leyti lélegasta lánastofnun landsins.

Byrjaði aðeins að fara yfir nöfn bloggvina minna hér á Moggablogginu. Margir eru hættir með öllu. Sumir farnir að blogga annars staðar. Aðrir blogga alltof sjaldan. Einhverjir eru greinilega hættir að blogga en lifa samt ennþá sem athugasemdistar. Sumir hafa læst blogginu sínu. (Af hverju skyldi það nú vera? – Jú, sennilega er það þá einskonar dagbók fyrir útvalda!!) Líklega eru ekki margir sem blogga hér eins mikið og ég geri.

Rugla stundum saman Jakobi Bjarnar Grétarssyni og Símoni Birgissyni. Veit ekki af hverju. Hef lengi verið slæmur með að rugla saman ólíkum manneskjum. Sennilega er þetta einhver athyglisbrestur hjá mér.

Frostrósir koma með jólin, sagði sjónvarpið mitt mér áðan. Ég get ekki að því gert að mér finnst fullsnemmt að byrja á jólaauglýsingunum í september.

Einn bloggvina minna hef ég séð minnast á daglega bloggpistla. Það var Gísli málbein. Jú, við nánari athugun virðist hann blogga (næstum því) á hverjum degi. Líklega gera það fleiri, en þar er þá um að ræða blogg sem ég les ekki reglulega. Jú, Jónas bloggar reyndar oft á dag.

Ég er búinn að blogga svo lengi og svo mikið að mér finnst stundum að ég sé löngu búinn að skrifa mín skástu blogg. Samt held ég áfram í þeirri og vona að ég hitti á það að skrifa nokkur sæmileg blogg í viðbót.

Jenny Anna Baldursdóttir, sem oft bloggar ljómandi skemmtilega og er akkurat núna á DV.IS, óskapast yfir því á sínu bloggi hve leiðinlegt sé að verða gamall og einskis nýtur. Það ber vott um að hún sé að gamlast. Maður á alltaf að þegja yfir því hvað maður er gamall og utanveltu við veröldina. Ef aðrir finna það ekki og sjá, þá er allt í lagi. Allra síst á maður að vera að vekja athygli á því sjálfur. Um að gera að láta eins og maður sé unglamb, þó það verði stundum hjákátlegt.

Sé núna að Jenny Anna bloggar u.þ.b. daglega svo þetta er tómt rugl í mér hér svolítið framar. Sennilega les ég ekki nógu mörg blogg nógu reglulega. En mér þykir gaman að skrifa um blogg annarra. Jafnvel meira gaman en að blogga endalaust um misgáfulegar fréttir.

IMG 6807Vei, sagt er að Toyota sé á förum úr Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er handviss um að Páll Baldvin höfðar meiðyrðamál (en hef einungis kvenlegt innsæi því til staðfestingar) og jafnviss um að hann vinnur það mál. Svo gæti ég vel trúað að fleiri aðilar höfðuðu mál gegn höfundi og útgefanda Sögu Akraness I. Enn eiga alvöru sagnfræðingar eftir að tjá sig um verkið og verður spennandi að sjá dóma frá slíkum. Svoleiðis að ég hugsa að Saga Akraness verði áfram í umræðu af og til næstu mánuðina.

Harpa Hreinsdóttir 24.9.2011 kl. 11:25

2 identicon

En ég hef áhyggjur af því að mínum góða bæjarstjóra verði fórnað á altari Sögu Akraness-sápuóperunnar og þeir sem raunverulega bera ábyrgðina á fjáraustri og endalausum samningum við lítt menntaðan og reynslulausan sagnaritarann hvítþvoi sig. Og mér finnst mjög leiðinlegt að Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, skuli hafa blandast í þetta mál, líklega af hrekkleysinu einu saman því hann er vandaður maður.

Harpa Hreinsdóttir 24.9.2011 kl. 11:29

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held ekki að málaferli verði, en byggi það svosem ekki á neinu. Held að fólki sé þó allsekki sama hvernig farið er með peningana þess, svo vel getur verið að þetta allt hafi talsverð áhrif í næstu bæjarstjórnarkosningum. Það fer þó e.t.v. eftir því hvernig um þetta verður fjallað þegar kosningarnar nálgast.

Sæmundur Bjarnason, 24.9.2011 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband