27.8.2011 | 01:54
1460 - Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB
Sérkennilegt mjög er hjá fulltrúa bænda að biðja háskólarektor að sparka í prófessorinn sem skrifaði ekki nógu fallega um þá. Bændur þurfa að gæta þess að eftir þessu verða þeir dæmdir. Þegar allt kemur til alls kunna ESB-sinnar að græða á þessu og bændur að tapa meiru en þeir hefðu þurft. Það er ekkert einkennilegt þó bændur séu á móti ESB-aðild. Ef einhverjir græða á henni er rökrétt að álykta að einhverjir aðrir tapi. Og bændur reikna með að tapa. Hvað kemur þeim við þó neytendur allir stórtapi á þvermóðsku þeirra.
Ef atkvæðagreiðslan um ESB-aðild verður í byrjun árs 2013 er líklegt að hún verði fyrir næstu þingkosningar. Vel getur líka farið svo að ekki náist að hafa hana svo snemma og hún verði ekki fyrr en að næstu þingkosningum loknum. Þær þingkosningar kunna þá að gefa fyrirheit um úrslit ESB-kosninga sem væntanlega verða fljótlega á eftir.
Mikið skelfing er gott að þurfa ekki að flýta sér að klára það sem maður er byrjaður að skrifa. Ekkert er lengur sem rekur á eftir mér að klára bloggin mín. Bráðum verð ég kannski eins fljótur að skrifa og JVJ not. Sem betur fer styðja margir velskrifendur aðild að ESB. Og ég treysti þeim til að halda vel á málum. JVJ virðist aftur á móti halda að andstaðan við aðildina standi og falli með sér.
Aðildarandstæðingar segja sumir að þeir muni aldrei sætta sig við tap. Slíkar firrur auka ekki vinningslíkur þeirra. Þeir sem illa innrættir eru munu kannski styðja aðild einmitt þess vegna. Flestir álíta réttilega að slíkar yfirlýsingar skipti engu máli.
Í gær birti ég svolítið dónalega færslu og fyrirsögnin var það líka. Það var eins og við manninn mælt. Innlitunum fjölgaði einhver ósköp. Flestir forðast samt að gera athugasemdir við þá færslu en halda áfram að gera athugasemdir við færsluna um Útvarp Sögu. Hér með geri ég þeim sem eiga erfitt með að hugsa eða athugasemdast við eitthvað kynferðislegt auðveldara um vik. Gerið svo vel og kommentið hér ef það er ykkar aðferð. Ekki ætla ég að stöðva ykkur. Bendi samt á að mjög langar og ítarlegar athugasemdir eru ekki vinsælt efni
Mikið er skeggrætt um verðbætur, vexti og þessháttar þessa dagana og ég er að hugsa um að leggja orð í belg.
Húsnæðislán eru öll nútildags, að ég held, svokölluð jafngreiðslulán. Þ.e..a.s. greiðslum vaxta og verðbóta er dreift yfir allt tímabilið sem eftir er. Þetta finnst mér að ætti ekki að eiga við um verðbætur. Þær ætti almennt alltaf að greiða strax. Ef það væri gert mundi jafnvel hófleg verðbólga geta valdið mikilli hækkun á afborgunum lána. Einkum nýlegra lána þar sem upphæðin væri há.
Sú staðreynd gæti orðið til þess (meðal margs annars að vísu) að verðbólga yrði viðráðanlegri. Það viðheldur nefnilega verðbólgunni og verðbólguhugsunarhætti á vissan hátt að borga verðtrygginguna bara einhvern tíma seinna.
Líka skiptir miklu máli við hvaða vísitölu verðbæturnar eru miðaðar og hvernig hún er reiknuð. Sumar hækkanir ættu alls ekki að hafa áhrif á vísitöluna sem notuð er. Sú visitala sem nú er notuð hentar nefnilega alls ekki sem lánskjaravísitala.
Athugasemdir
Þú hittir naglann á höfuðið varðandi verðtrygginguna.
Guðmundur Ásgeirsson, 27.8.2011 kl. 04:27
Nú sé ég enga teljara lengur Sæmi. Er það Adblock hjá mér, sem veldur?
Guðmundur Bjarnason 27.8.2011 kl. 07:06
Nei, Guðmundur það er ég sem veld þessu. Er smám saman að læra svolítið á stjórnborðið.
Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 07:38
Góður að vanda.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.8.2011 kl. 13:27
Takk, Axel Jóhann.
Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 14:00
Alltaf sama ljóðræna, rökrétta rabbið.
Ólafur Sveinsson 27.8.2011 kl. 17:25
Já, Ólafur mér finnst skipta máli hvernig tekið er til orða og breyti og bæti orðalagið ef ég hef tíma til. Takk annars.
Sæmundur Bjarnason, 27.8.2011 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.