1456 - abcd.is

207Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Kristinn Jón Krinstjánsson.

Ómaksins vert er að athuga betur vefsetur lýðræðissetursins (abcd.is). Þar er tekið á mörgum málum og þó ekki sé um algild sannindi að ræða í atkvæðagreiðslu þeirri sem þar er fjallað um, er sú aðferð allar athygli verð. Það er t.d. alls ekki víst að eðlilegt sé að sami munur sé á milli kosta númer 1 og 2 og númer 10 og 11. Allt er þetta undir því komið að áhugi þátttakenda sé nægilega mikill. Vel mætti samt hugsa sér að prófa þessa aðferð t.d. í prófkjöri.

Vel er hægt að spara sér til óbóta. Ef t.d. ís og annað góðgæti (svo ég tali nú ekki um hamborgara og þessháttar) er svo ódýrt að greinilega borgar sig ekki að lifa á öðru, hollur matur er yfirleitt hafður miklu dýrari en annar (eins og hér er) o.s.frv., þá fara menn gjarnan að spara sér til óbóta. Þörfin fyrir að spara sér til óbóta hefur farið minnkandi lengi undanfarið því sá hluti tekna fólks sem til matarkaupa fer hefur farið sífellt minnkandi. Þarfirnar hafa að sjálfsögðu aukist einnig en sumar þeirra eru óttalegar gerviþarfir. Þar verður hver og einn að flokka hluti eftir eigin sannfæringu. Þannig m.a. næst það aukna heilbrigði sem greinilega hefur orðið hér á landi síðustu áratugina. Auðvitað eru fleiri atriði sem þar koma við sögu s.s. heilbrigðisþjónusta sú sem á boðstólum er o.s.frv..

Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins virðist hafa skipt um skoðun einu sinni enn varðandi ESB. Nú vill hann hætta viðræðum eins og skot, þó það sé svo heimskulegt að hann ætti að sjá það sjálfur. Sennilega telur hann það samt koma sér betur varðandi áframhaldandi formennsku í flokknum. Við því er lítið að segja, en auðvitað bíða menn í ofvæni eftir næsta snúningi hans. Með þessu sem nú er orðið ljóst kemur hann e.t.v. í veg fyrir mótframboð á landsfundinum í haust.

Sjónvarpið íslenska hamast nú við að sýna gamlar íslenskar kvikmyndir. Sumum þeirra hefur maður alveg gleymt, en það er ekki verra en hvað annað að endurnýja kynnin við sumar. Aðrar eru samt óttalega lélegar og hafa elst illa.

Gjaldeyrismál öll eru óljós um þessar mundir. Íhaldsmenn spá að sterlingspundið yfirtaki evruna, en aðrir algjörri andstæðu þess. Núverandi átök á fjármálamörkuðum gætu vel orðið til þess að önnurhvor myntin tapi sjálfstæði sínu. Sumar myntir (t.d. danska krónan) eru nafnið eitt. Íslenska krónan er því miður ekki nothæf til neins nema halda niðri lífskjörunum hér á landi, þó sumir ímyndi sér annað.

IMG 6404Eystri jarðgangnamunninn í Héðinsfirði og umhverfið þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Hvernig myndi annað heiti á íslenska gjaldmiðlinum efla lífskjör landsmanna?

Sigurður Hreiðar, 22.8.2011 kl. 12:31

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, ég hef ekki hugmynd um það. Var ég að tala um að skipta um nafn á íslensku krónunni? Það hefur þá alveg farið framhjá mér.

Sæmundur Bjarnason, 22.8.2011 kl. 13:23

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sá gjaldmiðill sem notaður er á Íslandi hlýtur að byggjast á íslensku fjármálakerfi. Því skiptir ekki máli hvað hann heitir. Við þær aðstæður væri upptaka annars gjaldmiðils aldrei annað en nafnaskipti á gjaldmiðlinum. Taka upp evru? Eða annan gjaldmiðil sem aðrar þjóðir nota? Við íslenskt fjármálakerfi og íslenska fjármálastjórn? Ekkert annað en nafnaskipti á gjaldmiðli. Vont ef það fer framhjá þér hvað þú segir.

Sigurður Hreiðar, 22.8.2011 kl. 13:35

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður. Ég hef ekki talað um að skipta um nafn á íslenska gjaldmiðlinum þó þér finnist það kannski. Að taka upp evru, dollara, pund, rúblu eða eitthvað annað sem gjaldmiðil hér á landi er ekki að skipta um nafn á gjaldmiðli. Verður þá evran, dollarinn eða hvað sem um er að ræða kannski íslensk króna um leið?

Sæmundur Bjarnason, 22.8.2011 kl. 13:41

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þegar verið er að tala um að taka upp aðra mynt en íslenska krónu hér á landi er verið að tala um að taka gengisskráningarvaldið af íslenskum stjórnvöldum. Þau hafa ekki kunnað með það að fara hingað til.

Nafnaskipti á gjaldmiðli geta haft þýðingu ef aðrar aðgerðir fylgja með. Sbr. Þýskaland 1923.

Sæmundur Bjarnason, 22.8.2011 kl. 13:57

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Er raunhæft að við förum að nota annarra þjóða peninga en eiga engan gjaldmiðil sjálf?

Sigurður Hreiðar, 22.8.2011 kl. 17:58

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, svo sannarlega. Okkur er ekkert vandara um en öðrum.

Sæmundur Bjarnason, 22.8.2011 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband