1.7.2011 | 00:15
1408 - Frosin augnablik
Þetta er slökkvistöðin gamla í Hveragerði. Ég man vel eftir þessu húsi þegar það var nýbyggt og þótti bara fínt.
Er RUV-ið komið í þjónustu útrásarfurstanna? Allar myndir sem þar birtast af Sérstökum eru þannig að reynt er að gera hann sem hlægilegastan. Fínt er stundum farið í hlutina en þó er ljóst hvar embættismannahjörtu þeirra RUV-ara slá. Nú skal útrásin endurtekin. Nógu miklu er búið að fórna og fyrst dómstólarnir hafa ekki brugðist er rétt að halda áfram þar sem frá var horfið. Skítt með almenning. Við vitum best.
Skil samt ekki vel hvernig álfasögurnar og hindurvitnin falla inn í þetta munstur. RUV hefur (að ég held) þangað til í gærkvöldi (miðvikudagskvöld) látið álfalegan uppruna grjótkastsins á Vestfjörðum afskiptalausan, þó sumir aðrir fjölmiðlar hafi velt sér sem mest uppúr því máli. Nú hefur þeim borist myndefni (einn karl að syngja) og því skal reynt að boða hjátrúna með myndum, þó með hálfum huga sé.
Frosin augnablik. Lífið er samsett úr miklum fjölda frosinna augnablika. Í mínu ungdæmi voru ekki margir sem tök höfðu á því að geyma slík augnablik. Nú er slíkt miklu auðveldara og tilfinning fólks við að sjá löngu gleymd augnablik er sífellt að verða algengari. Gamlar ljósmyndir eru einkum vinsælar vegna þess að þær eru tiltölulega sjaldgæfar. Nú er stafræna tæknin í algleymingi og fjöldi ljósmynda sem tekinn er legíó. Jafnvel mörg legíó.
Bjarni sonur minn (Bjarni Sæmundsson á facebook) hefur stundað það að setja þar upp myndir dagsins. Allar fremur gamlar þó ekki eldgamlar. Sumar þeirra hef ég tekið en alls ekki allar. Myndirnar eru alltaf vel valdar hjá honum og einkum skoðaðar af þeim sem á þeim eru. Það er þó alls ekki algilt að um myndir af fólki sé að ræða því oft birtir hann staðarmyndir sem mikið er spekúlerað í hvaðan eru.
Sjálfur reyni ég að gera þetta líka hér á Moggablogginu og víst er að enginn hörgull er á myndum. Á fyrstu árum Internetsins voru myndir (svo ekki sé talað um lifandi myndir) fremur sjaldgæfar þar, því þær tóku svo mikið pláss. Hið ódýra stafræna geymslupláss er einhver mesta breytingin sem orðið hefur í tölvuheiminum. Nú orðið er oft skelfilega leiðinlegt að blaða í gegnum öll þau myndaalbún sem til boða standa. Þessvegna meðal annars er það sem ég reyni að halda mig við hið talaða (eða öllu heldur skrifaða) orð.
Til stóð að vera með einskonar bókablogg við tækifæri. Kannski er það núna. Stórvirkið Sögu Akraness hef ég áður minnst á og um hana er svolítið fjallað í athugasemdum hjá mér. Hún er hneyksli og peningaausturinn sem þar hefur átt sér stað sömuleiðis. Sjá blogg Hörpu Hreinsdóttur.
Lindargötustrákurinn er bók sem mig minnir að ég hafi minnst á. Hef lesið svolítið í henni síðan. Því miður er hún afar léleg og ég býst ekki við að minnast á hana aftur. Sjálfsævisögur eru gjarnan illa skrifaðar og fáfengilegar. Verst hjá höfundinum að þessari bók er stefnuleysið. Hann er ekki að lýsa neinu sérstöku tímabili heldur uppfullur af karlagrobbi af venjulegasta tagi. Í byrjun velti ég því svolítið fyrir mér hvers vegna ég hef ekki séð minnst á þessa bók opinberlega, en nú veit ég það.
Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans að Bifröst, er ellefu binda stórvirki sem ég hef átt lengi án þess að gera mér grein fyrir hver fjársjóður upplýsinga það er. Maður er orðinn svo vanur að fá allar þær upplýsingar sem mann vanhagar um með gúgli. Fyrir alla þá sem stundað hafa nám í Samvinnuskólanum (og reyndar miklu fleiri) er þetta verk hin mesta náma upplýsinga.
Skordýrablogg hef ég einnig hugsað mér að vera einhverntíma með. Kannski er dagurinn í dag ekkert slæmur til þess. Á gönguferðum mínum um Fossvogsdal og víðar hef ég orðið var við að skordýralífið íslenska hefur tekið talsverðum breytingum. T.d. eru sumar flugurnar þannig að ég kannast alls ekki við þær úr æsku. Geitungar eru þar sérstakur kapítuli, einkum vegna þess að ég er hálfhræddur við þá. Ja, eiginlega alveg skíthræddur, og enn í minni óttaleysi portúgalsks verkamanns sem einfaldlega hrakti þá í burtu með húfunni sinni.
Í gamla daga voru flest skordýr ósköp vinaleg. Þessi sömu dýr eru núorðið að mörgu leyti hinar mestu ófreskjur. Skil ekki hvers vegna. Hefur líklega eitthvað með sjálfan mig að gera. Líka eru öll smádýr orðin svo sjaldgæf að maður hrekkur við að sjá þó ekki sé nema venjulega húsflugu. Fuglalíf væri líka hægt að minnast á en það er hugsanlega fullyfirgripsmikið. Minnist þess þó að dúfurnar á Tenerife kallaði ég fljúgandi rottur og hlaut mikð fuss fyrir.
Séra Baldur, sem nú skrifar aðallega á Eyjuna, er með lokað fyrir ummæli hjá sér. Sjálfsagt er einhver ástæða fyrir því. Kannski er hann bara kominn með fésbókarsýkina. Ég er að hugsa um að hætta að senda aðsóknartölur svona út í loftið eins og ég geri og loka fyrir ummæli. Er ekki stæll á því? Hinsvegar er ég ekki að hugsa um að hætta að númera bloggin mín. Mér finnst það ágætt og greina þau frá öðrum slíkum.
Er vanur að hafa sjálfur opið fyrir athugasemdir. Finnst annað vera ritskoðun en get samt alveg skilið að menn vilji predika í friði þó ég sé ekki þannig gerður sjálfur. Leiðist svolítið að fá athugasemdir eftir dúk og disk en það er líka skiljanlegt. T.d. var Axel Þór Kolbeinsson að kommenta við það sem ég skrifaði um Kögunarmálið nýja um daginn og það lá við að ég missti af því.
Athugasemdir
Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína. Datt í hug þegar þú minnist á gamlar myndir, hvort þú hafir kíkt á síðu hjá Þjóðminjasafninu, þar sem þau biðja fólk stundum að bera kennsl á viðfangsefni gamalla ljósmynda, sem þau hafa komið höndum yfir?
Ellismellur 1.7.2011 kl. 05:57
Nei, það hef ég ekki gert. Þrátt fyrir talsverðan ljósmyndaáhuga þá er ég nefnilega ómannglöggur. Svo ómannglöggur að ég líð stundum fyrir það og er áreiðanlega álitinn merkilegri með mig af mörgum, en ég er í rauninni.
Sæmundur Bjarnason, 1.7.2011 kl. 09:13
http://www.thjodminjasafn.is/syningar/vefsyningar/thekkir-thu-myndina/
Þetta snýst ekki um mannamyndir þarna a.m.k. - Þau eru að skoða safn Geirs Zoega, fyrrum landsverkfræðings og vegamálastjóra núna og myndirnar nær allar teknar á þriðja og fjórða áratug liðinnar aldar. Allavega er gaman að skoða þessar myndir.
Ellismellur 1.7.2011 kl. 13:52
Já, þetta eru flottar myndir, en ég kannast ekki við þetta.
Sæmundur Bjarnason, 1.7.2011 kl. 15:04
"Frosin augnablik. Lífið er samsett úr miklum fjölda frosinna augnablika". Þú ómar eins og líf mitt. Eins og ég hef áður komið inná ,erum við sálufélagar. Ættum að setja inn sögur úr sveitinni 1945-------
Ólafur Sveinsson 2.7.2011 kl. 00:02
Missti af þessu Óli. Það er þetta með sögur úr sveitinni. Ég kann aðallega sögur úr Hveragerði. Gaman að athugasemdunum þínum. Svo er ég fæddur 1942 og hef þá bara verið 3ja ára þegar.......--------
Sæmundur Bjarnason, 3.7.2011 kl. 00:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.