24.5.2011 | 00:23
1370 - Hafragrautarblogg
Gamla myndin.
Þessi mynd er af Sigrúnu systir.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson bloggar um hafragrautargerð og hefur litla trú á mínum hæfileikum á því sviði. Ég viðurkenni að ég hef bloggað um hafragraut en er samt ekki eins flinkur við að grípa skeiðar og Óli Stef. Hef forðast allar tölur í sambandi við uppskriftir enda er sirka hafragrautur bestur. Um daginn sá ég t.d. uppskrift af einhverju þar sem átti að nota 254 grömm af hveiti og missti undireins áhugann á þeirri uppskrift.
Jóhannes birtir nákvæma uppskrift og ég geri helst þá athugasemd við hana að saltið er of mikið hjá honum. Það á eiginlega ekki að vera nema svona eitt til eitt og hálft dass. Að öðru leyti finnst mér uppskriftin hjá honum vera góð og ég öfunda hann af súra slátrinu. Hef ekki efni á slíkum lúxus og tími heldur ekki að kaupa Sólgrjón. Læt mér nægja Euroshopper haframjöl og sleppi stundum hunangi og döðlum.
Örbylgjuofna forðaðist ég lengi vel en er loksins núna búinn að taka þá í sátt. Skil ekki af hverju óhætt er að hita upp mat í þeim en stórhættulegt að elda hafragraut þar.
Ég var um daginn að kvarta undan ómerktum kjötvörum í Krónunni í Lindum og var sagt að allt væri þetta ríkisstjórninni að kenna. Starfsfólkið vildi gjarnan hafa allt verðmerkt en mætti það allsekki. Var eiginlega alveg orðlaus. Vorkenndi bara Jóhönnu greyinu. Margt má hún þola.
Á sunnudagsmorguninn einmitt um það leyti sem öskufallið var að stríða mönnum sem mest í nágrenni Vatnajökuls fór ég í gönguferð útá Kársnes. Þar var veðrið sérlega gott. Um það orti ég tvær vísur:
Í vaxandi mæli ef veðrið er gott
þá vel ég að sitja á bekkjum.
Gráðið á voginum Fossvogs er flott
og fegurðin losnar úr hlekkjum.
Blærinn er svalur og birtan er góð,
brunandi hjólin þau syngja.
Veturinn farinn og vorið í móð,
en veraldaráhyggjur þyngja.
Eina vísu enn tókst mér að gera. Þegar ég var beint á móti Nauthólsvíkinni tók ég mynd af Háskólanum í Reykjavík. En þegar röðin kemur að því að birta þá mynd á blogginu (ef hún er nógu góð til þess) verð ég líklega búinn að gleyma vísunni svo sennilega er bara best að birta hana strax:
Nefnilega í Nauthólsvík
nú er kominn skóli.
Er sú bygging engu lík
við Öskjuhlíð á róli.
Eitt það versta við bloggskrif (og líklega önnur skrif líka) er að maður getur aldrei verið viss um að lesendur manns skilji mann rétt. Þess vegna þarf það sem maður skrifar að vera skýrt. Áður fyrr var besservisseraháttur líka nokkuð nauðsynlegur til að geta skrifað eitthvað að ráði. Nú á þeim Gúgldögum sem við lifum á er það orðið mun minna áríðandi. Maður má heldur ekki telja eftir sér að svara athugasemdum. Þar má oft útskýra nánar það sem misskilist hefur.
Ég þykist skrifa nokkuð skýrt a.m.k. skil ég ágætlega það sem ég skrifa. Krúsidúllustíll getur verið ágætur til að skapa viss áhrif en hann getur líka spillt fyrir. Sjálfur reyni ég eftir mætti að hafa mín skrif eins og ég held að lesendur mínir vilji.
Margt má um dýradráp segja. Það er alveg sjónarmið útaf fyrir sig að spendýr (höfrungar og hvalir eru þar meðtaldir) skuli ekki drepa. Sumir segja að engin dýr með heitt blóð eigi að drepa. En mér finnst að þá eigi menn að vera samkvæmir sjálfum sér og ekki borða kjöt af þessum dýrum heldur. Grænmetisætum dáist ég talsvert að. Þær geta án þess að eiga á hættu að vera sakaðar um ósamkvæmni tekið hvali og kjúklinga í fóstur. Auk þess er grænmeti áreiðanlega mun hollara en kjöt og alls ekki víst að maðurinn sé sú alæta að upplagi sem hann er sagður vera.
En eru jurtir eitthvað óæðra lífsform en spendýr? Er sjálfsagt að gæða sér á þeim og éta af hjartans lyst? Efast má um það og reyndar hvað sem er. Jafnvel tilveruna sjálfa. Einhvern vegin verður þó að draga fram lífið. Í sinni einföldustu mynd snýst það aðeins um það að éta eða vera étinn.
Já, ég er pólitískur og get ekki neitað því. Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins segir í grein sem birtist á netinu og er þar að tala um hræringar í þjóðardjúpinu og búsáhaldabyltinguna:
Það er mín sannfæring, að þeir straumar nú séu krafan um beint lýðræði og að sá flokkur eða þeir flokkar, sem verða fyrstir til að gera það grundvallarmál að sínu muni nái trausti fólksins í landinu. Þessi krafa snýst í raun um að færa völdin frá flokkunum til fólksins."
Þarna er ég alveg sammála Styrmi, en að það sé best að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að ná því fram að völdin fari frá flokkunum til fólksins er ég alls ekki sammála honum um. Skil reyndar ekki hvernig honum dettur það í hug. Held að hann meini að völdin eigi ekki að fara frá sérhagsmununum og meðal sérhagsmunafólksins vill Sjálfstæðisflokkurinn vera áfram áhrifamestur eins og hann hefur lengst af verið. Galdurinn hjá flokknum hefur hingað til verið að telja sem flestum trú um að þeir hafi sérhagsmuni.
Athugasemdir
Sæll Sæmundur. atarna var góð færsla hjá þér. Ég er ekki viss um að hamfara bloggararnir hugsi mikið um lesendur sína. Það er sennilega stærsti munurinn á þér og þeim. Ég tel mig ekki til hamfarabloggara en nota bloggið til að koma skipulagi á hugsanir mínar. Blogga líka oft frá mér gremjuna. Það virkar vel. Verð samt að minnka þennan kerknis kveðskap. Þetta jaðrar oft við að vera níð hjá mér. En vísurnar þínar voru fínar. Augljóst að hugur þinn er heiðskír
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.5.2011 kl. 08:30
Lítið gleður landann nú
á ljósvakanna öldum
samt er kreppan sárust sú
sem er af mannavöldum
Náttúran ei gefur grið
Grímsvötn græta landann
Nú liggur á að losna við
lið sem eykur vandann
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.5.2011 kl. 09:56
Flott Sæmundur að fá svona góða mynd af Sigrúnu. Þá er það bara að fylgja þessu eftir með Unni og Ingibjörgu!!
Jóhannes F Skaftason 24.5.2011 kl. 10:40
-- Hmm, ég held að eitt dass sé alveg nóg, Sæmundur.
-- Beint lýðræði? Er það nokkuð sama og skrílræði?
Sigurður Hreiðar, 24.5.2011 kl. 11:01
Takk fyrir greininguna Jóhannes Laxdal og vísurnar eru ágætar. Kannski hugsa ég (og blogga) meira um lesendurna en sumir Hamfarabloggarar.
Sæmundur Bjarnason, 24.5.2011 kl. 13:07
Takk, Jóhannes Finnur. Bjarni sonur minn hefur verið að birta myndir dagsins á fésbókinni. Þar var um daginn mynd af Unni. Svo eru gjarnan myndir af Ingibjörgu á bloggi eða fésbók Atla Harðarsonar. Það er hreinasta furða hvað hægt er orðið að finna á Gúglinu.
Sæmundur Bjarnason, 24.5.2011 kl. 13:09
Sigurður, ég fellst alveg á þetta með dassið!!
Varla ertu að efast um að Styrmir Gunnarsson sé sannur sjálfstæðismaður.
Sæmundur Bjarnason, 24.5.2011 kl. 13:12
Nei, Sæmundur, ég efast ekki um Styrmi, en ég efast um þetta svokallaða „beina lýðræði“. Hef of oft séð hve auðvelt er fyrir lýðskrumara að æsa lýðinn.
Sigurður Hreiðar, 24.5.2011 kl. 15:19
Sigurður, ef það er svona auðvelt að æsa lýðinn, sem þú kallar, má þá ekki eins auðveldlega afæsa hann?
Sæmundur Bjarnason, 24.5.2011 kl. 16:54
Ef ég skil þig rétt notar þú orðið „afæsa“ fyrir það sem ég myndi líklega kalla „róa“ og ég á eftir að sjá lýðskrum notað til þess -- eða þá sem fara fram með rósemi og friðsemd ná að „æsa lýðinn“, svo ég noti nú aftur það hugtak.
Sigurður Hreiðar, 24.5.2011 kl. 17:55
En getur ekki hugsast að það sem einn kallar "lýðskrum" kalli annar eitthvað annað?
Sæmundur Bjarnason, 24.5.2011 kl. 19:42
Sem þýðir?
Sigurður Hreiðar, 24.5.2011 kl. 22:03
Eiginlega ekkert annað en það að ég vil gjarnan hafa síðasta orðið á mínu bloggi.
Sæmundur Bjarnason, 25.5.2011 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.