1347 - Þegar Bláfell brann

kuldiGamla myndin.
Þarna þekki ég engan og veit ekki hvar þessi mynd er tekin en allir eru fremur kuldalegir þarna.

Kannski er frásögnin af því þegar Bláfell brann með því besta sem ég hef skrifað.

Ættarmót var haldið að Hvolsvelli árið 2002. Tilefnið var það að pabbi hefði orðið 100 ára það ár ef hann hefði lifað. Það var á þessu ættarmóti sem mér datt í hug að skrifa þessa frásögn.

Ég sá nefnilega hve unga fólkið var orðið margt og vissi að sum þeirra höfðu kannski aldrei heyrt frá þessu sagt. Eða einungis fengið að heyra stutta og meira eða minna úr lagi færða frásögn af þessum atburði.

Tvívegis áður hef ég birt þessa frásögn á blogginu mínu. Síðast 1. mars árið 2008. (í bloggi númer 265) og í fyrsta sinn löngu fyrr og þá í mörgum hlutum. Þar að auki hefur frásögnin birtst í tímaritinu „Heima er bezt". Man ekki hvenær það var en auðvelt ætti að vera að komast að því.

Nú er ég semsagt búinn að endurbæta þessa frásögn svolítið og læt hana flakka einu sinni enn. Þeir sem lesa bloggið mitt reglulega og hafa séð þetta áður eru hérmeð varaðir við. Detti mér eitthvað í hug að skrifa til viðbótar verður það hér. Ekkert verður á eftir frásögninni um brunann nema hin daglega mynd.

ÞEGAR BLÁFELL BRANN (í desember árið 1951)

Þegar ég kom út fór ég strax að brunarústunum. Þarna hafði heimili mitt verið þangað til í nótt. Ég hafði fæðst í þessu húsi og alið þar allan minn aldur. Nú var allt brunnið til kaldra kola. Ekki einu sinni flekkóttir veggir uppistandandi, því þetta hafði verið timburhús.

Alveg ný viðbygging hafði þó verið klædd að utan með asbesti og um nóttina þegar mest gekk á höfðu smellirnir í asbestinu verið eins og vélbyssuskothríð. Ja, allavega hafði mikið gengið á. Nú var þetta allt saman kolsvart og ólögulegt, hálfbrunnar sperrur, upprúllað járn af þakinu, brunnin húsgögn og hvaðeina allt í einni bendu. Yfir öllu gnæfði samt svartur og sótugur klósettkassi á sínu járnröri. Kassinn sjálfur var líka úr einhverskonar málmi. Keðjan sem togað var í til að sturta niður með var meira að segja á sínum stað. Handfangið þó brunnið.

Ég fann eiginlega ekki til neinna sérstakra tilfinninga, eiginlega kom þetta mér ekki svo mikið við. Foreldrar mínir myndu ráða framúr þeim vandamálum sem við blöstu og það var svosem ekkert sérstakt sem ég saknaði. Engin áhugaverð föt eða merkileg leikföng. Vinirnir og félagarnir mundu áfram verða til staðar, systkinin og foreldrarnir einhvers staðar nálægt eins og venjulega, skólinn á sínum stað o.s.frv.

Að mörgu leyti var hugurinn bara tómur. Eiginlega var ekki til neins að vera að hanga yfir þessu. Nær að reyna að fara eitthvað. Nú var ég með alveg pottþétta afsökun fyrir því að læra ekki neitt. Ekki það að ég þyrfti yfirleitt mikið að læra heima. Mér gekk alveg prýðilega í skólanum án þess. Ég nennti ekki einu sinni að gá að því hvort nokkuð nýtilegt eða merkilegt væri að finna í rústunum heldur rölti af stað upp að Reykjafossi og Kaupfélaginu. Þar mundi ég eflaust hitta einhverja af félögum mínum.

Upp við Reykjafoss hitti ég Jósef Skaftason sem þar var á gangi með Auði systur sinni. Við fórum öll þrjú í áttina að bakaríinu og við Jósef höfðum um margt að tala. Ekkert var þó minnst á atburði næturinnar. Fyrir framan bakaríið heyrði ég að Auður var að spyrja Jósef bróður sinn um eitthvað en hann sagði henni að þegja og hætta þessu rövli. Ég var forvitinn og spurði hvað hún hefði verið að segja.

"Hún var eitthvað að tala um að húsið heima hjá þér hefði brunnið í nótt", sagði Jósef.

"Af hverju vildirðu ekki leyfa henni það?" spurði ég steinhissa.

"Ég hélt að það mundi kannski særa þig", svaraði Jósef.

Ég var alveg gáttaður. Hvernig gat honum dottið slík fjarstæða í hug. Eins og mér sé ekki sama þó húsið hafi brunnið. Það er frekar að ég geti miklast af því að hafa lent í sögulegum atburðum. Þetta er alveg stórmerkilegt. Að aðrir skuli hafa áhyggjur af því hvernig mér líður, þegar mér líður einmitt prýðilega. Ekki hef ég misst nokkurn hlut sem merkilegur getur talist. Ég þarf að vísu sennilega að sofa einhvers staðar annars staðar næstu nætur og eignast eflaust nýtt heimili von bráðar. En hvað með það? Kannski verður það einmitt bara betra en það gamla. Engin ástæða til að væla.

Við Jósef vorum góðir vinir og ásamt með Jóhannesi bróður hans lékum við okkur oft saman. Jósef var einu ári yngri en ég og Jóhannes einu ári eldri. Stundum lékum við okkur í fótbolta á túninu hjá Grund og þá var venjulega einn í marki og hinir tveir þóttust vera einhver tiltekin landslið. Eitt sinn kom Jóhannes okkur mikið á óvart. Hann sagðist vilja spila fyrir landslið Uruguay. Uruguay? Hver fjandinn er það nú?

"Vitið þið ekki að Uruguaymenn eru heimsmeistarar í fótbolta?" segir Jóhannes þá.

"Heimsmeistarar, peimsmeistarar. Þú veist ekki hundaskít um Uruguaymenn", segjum við Jósef, annarhvor eða báðir eða hugsum a.m.k. eitthvað á þá leið.

Í garðyrkjustöð Skafta pabba þeirra Jósefs og Jóhannesar leikum við okkur líka oft. Þar eigum við fullt af merkilegum köllum sem flestir eru hvítir og með stafina Champion um sig miðja. Sumir heita reyndar einhverjum öðrum skrítnum nöfnum og fáeinir eru af öðrum lit en hvítum. Til dæmis eru mjög verðmætir og sjaldgæfir kallar í bleikum lit og við rífumst jafnvel um að eiga þá. Fullorðið fólk segir að allir þessir kallar séu bara bílkerti en við tökum lítið mark á því og látum kallana okkar lenda í ýmsum merkilegum og hættulegum ævintýrum.

Þegar eldurinn kom upp hafði mig verið að dreyma að hópur mann væri að spila á spil með talsverðri háreisti. Ekki þekkti ég mennina nema Stefán hreppstjóra og hafði hann síst lægra en aðrir þó það væri ólíkt honum. Um það leyti sem ég gerði mér grein fyrir að skellirnir í spilunum og hávaðinn við spilamennskuna var snarkið í eldinum frammi á gangi vaknaði ég alveg við það að mamma þaut upp úr rúminu og opnaði hurðina fram á gang.

Ég fór líka fram úr dívaninum mínum þar sem ég svaf inni í svefnherberginu hjá pabba og mömmu. Bræður mínir tveir, Vignir 6 ára og Björgvin 2 ára, voru þar líka.

Þetta var í öðru af þeim tveimur stóru herbergjum sem voru í viðbyggingunni sem lokið hafði verið við nýlega. Stelpurnar, Sigrún og Ingibjörg voru í hinu herberginu en Unnur var farin að heiman. Jórunn amma var einnig í húsinu en ekki fleiri.

Ég hljóp fram úr rúminu á eftir mömmu en hún sneri sér við þegar hún hafði opnað fram á gang og sagði við mig:

"Farðu og vektu hann pabba þinn og segðu honum að það sé kviknað í húsinu."

Ég hlýddi umyrðalaust enda var eitthvað skrýtið um að vera frammi á ganginum. Snark og læti ásamt einkennilegri birtu og þar að auki var rödd mömmu þannig að ekki kom annað til greina en að gegna undireins.

Ég flýtti mér að fara hinum megin við hjónarúmið og ýtti á öxlina á pabba og sagði:

"Pabbi, pabbi. Vaknaðu. Vaknaðu, það er kviknað í húsinu."

Pabbi var ekki lengi að vakna og þegar við komum fram að svefnherbergisdyrunum kom mamma til baka eftir að hafa vakið aðra í húsinu. Stelpurnar þær Sigrúnu og Ingibjörgu og Jórunni mömmu sína. Þegar hún sá að við vorum komnir að dyrunum sagði hún við mig:

"Hlauptu út með stelpunum, við komum svo á eftir með litlu strákana."

Ég hljóp yfir ganginn rétt á eftir stelpunum sem ég sá í þessu hlaupa út. Þó leiðin væri ekki löng var einhver geigur í mér. Undarleg birta var á ganginum og snark og hiti fyrir ofan mig. Ég þorði þó ekki að líta upp því ég óttaðist að það mundi tefja mig. Þegar komið var yfir ganginn tók við opin dyragætt og eitt þrep niður og þá var komið í bíslagið og útidyrahurðin til vinstri.

Þegar ég kom út stóðu stelpurnar þar og horfðu inn um opnar útidyrnar og á dyragættina innaf bíslaginu. Ég tók mér stöðu við hlið þeirra og saman stóðum við þarna og biðum eftir því að foreldrar okkar og bræður kæmu út úr brennandi húsinu.

Það var fremur kalt í veðri enda komið fram í desember, örlítil snjóföl yfir öllu og jörð frosin. Þó við systkinin værum berfætt og aðeins klædd náttfötum varð okkur ekki kalt. Að minnsta kosti var ekki um það rætt. Reyndar var ekki rætt um neitt. Við stóðum bara þarna og biðum án þess að segja eitt einasta orð.

Ég man að ég stóð syðst og næst kálgarðinum, Ingibjörg í miðjunni og Sigrún næst veginum. Við stóðum dálítið á ská miðað við húsið og störðum í eldinn.

Eftir nokkra stund tóku eldtungur að standa út um opna dyragættina sem við horfðum eins og dáleidd á. Eldurinn magnaðist smátt og smátt og eldtungurnar breiddust fljótlega út um alla ofanverða dyragættina. Ég og systur mínar tvær sem voru nokkrum árum eldri en ég, stóðum þarna í umkomuleysi okkar og horfðum á eldinn magnast og æsast og fylla að lokum alla dyragættina.

Hugur minn var sem lamaður. Þarna voru foreldrar mínir og tveir bræður inni í eldinum og ég gat ekkert gert. Það væri óðs manns æði að ætla sér að fara aftur inn í húsið enda datt engu okkar það í hug. Við stóðum bara þarna sem lömuð og gátu hvorki hreyft legg né lið. Ég reyndi að gera mér í hugarlund hvernig lífið mundi verða uppfrá þessu. Ég og systur mínar yrðum munaðarlaus og mundum hvergi eiga öruggt skjól. Hugurinn var fastur og ég gat ekki hugsað um neitt nema þetta sama aftur og aftur.

"Nú verð ég munaðarlaus, mamma og pabbi dáin og bræður mínir ekki lengur til. Þetta er hræðilegt. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég get eiginlega ekki gert neitt. Bara staðið hérna og starað í eldinn." Aftur og aftur þyrluðust þessar hugsanir í huga mér. Engin niðurstaða fékkst, bara þetta sama aftur og aftur. Ég hafði enga hugmynd um hve lengi ég stóð þarna. Stelpurnar stóðu við hliðina á mér og hugsuðu sennilega eitthvað svipað. Ekkert okkar sagði eitt einasta orð. Það eina sem við gátum gert var að stara í þögulli skelfingu í eldinn. Við vorum yfirkomin af ógn þess sem var að gerast. Gersamlega lömuð. Ógnin lagðist yfir okkur og kom í veg fyrir að við fyndum fyrir hita frá eldinum eða kulda frá umhverfinu.

Skyndilega kom Vignir blaðskellandi fyrir hornið á húsinu og sagði: "Hvað er þetta? Ætlið þið ekki að koma?"

Álögin runnu af okkur systkinunum á augabragði og við eltum Vigni sem sneri strax við og fór aftur bak við hús. Þar voru foreldrar okkar og Björgvin og höfðu þau öllsömul komist út úr húsinu með því að brjóta rúðu í glugganum á svefnherberginu, því þegar búið var að finna Vigni sem hafði falið sig undir rúmi í öllum ósköpunum, var eldurinn á ganginum orðinn svo magnaður að ekki var fært þar út úr húsinu.

Við fórum nú öll sjö yfir til Steinu og Tedda í næsta húsi og vöktum upp. Amma hafði víst farið til Stefáns hreppstjóra og vakið upp þar. Hjá Steinu og Tedda var okkur að sjálfsögðu vel tekið. Pabbi hafði skorið sig illa á hendinni við að brjóta gluggann og mamma hafði ekki haft tíma til að setja á sig sín sérslípuðu og öflugu gleraugu og háði það henni mikið fyrstu dagana eftir brunann, en að öðru leyti amaði svosem ekkert að okkur.

IMG 5218Ég veit ekkert hver á heima þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góðann daginn, þessi frásögn segir manni margt um að hvernig mannshugurinn já eða barnshugurinn upplifir hörmungar.

kærara þakkir.

Óskar Þorkelsson, 1.5.2011 kl. 08:53

2 identicon

Blessaður Sæmundur.

Bara ein athugasemd en sú er að það hefur verið Fríða (Hólmfríður) systir okkar sem Jósef var með þarna því Auður er fædd árið 1951. 

Jóhannes F Skaftason 1.5.2011 kl. 08:56

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jóhannes. Þetta er eflaust rétt hjá þér. Stelpan sem Jósef var með þarna var örugglega nokkurra ára gömul.

Sæmundur Bjarnason, 1.5.2011 kl. 11:03

4 identicon

Þetta var alveg mögnuð frásögn, takk fyrir

Vilhjálmur Gunnarsson 1.5.2011 kl. 11:04

5 identicon

Var framhaldsnámskeið í spönsku fyrir allmörgum árum til að læra spönsku frá Suður Ameríku. Kennarinn var frá Uruguay og þegar hann vara að segja frá landinu sínu, sagði hann að það eina sem þeir væru stoltir af og landi væri þekkt fyrir væri fótbóltinn. Svo Jóhannes var greinilega vel inni í málum.

karl johannsson 1.5.2011 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband