30.4.2011 | 01:40
1346 - Hveragerði og allt það
Gamla myndin.
Þetta eru fjósið og bragginn á Reykjum. Bragginn var notaður sem einskonar vélageymsla þó aðallega væri þar allskonar drasl. Man vel eftir gömlum súgþurrkunartækjum sem þar voru. Það var hægt að skríða inní þau.
Þegar Bjössi bróðir minn fæddist hef ég verið orðinn þrettán ára. Ég man að mér þótti óþarfi hjá mömmu að verða ólétt á þessum aldri og fannst hún einkum gera þetta til að ergja mig. Í þetta skipti var ekkert um það að ræða að þykjast sofa eins og þegar Vignir og Bjöggi fæddust því Bjössi kom í heiminn um miðjan dag.
Ég man eftir að hafa verið að leika mér útivið í mesta sakleysi þegar kallað var á mig og ég beðinn að fara uppeftir til Magnúsar læknis því mamma væri að því komin að fæða.
Ég setti upp hundshaus en drattaðist samt af stað uppá hæð og bankaði hjá lækninum og sagði honum það sem mér hafði verið sagt að segja honum. Hann spurði þá hvort vatnið væri komið en ég kannaðist ekkert við að vatnslaust hefði verið. Hann spurði mig ekki nánar út í það en fór mjög fljótlega að Hveramörk 6 sem þá var farið að kalla svo. Gamla húsið hafði alltaf verið kallað Bláfell en þetta var semsagt í nýja húsinu. Ljósmóðir kom einnig og ég veit ekki betur en fæðingin hafi gengið eðlilega fyrir sig. Þetta mun hafa verið skömmu eftir hádegið.
Um þetta leyti vann pabbi í Steingerði. Holsteinaverksmiðju sem var til húsa þar sem eitt sinn hafði verið frystihús og síðar varð stofninn að Kjörís. Nokkru eftir að hann kom heim í kaffi sagði Vignir uppveðraður við hann: Pabbi, pabbi, hefurðu séð það?" Hann vissi semsagt ekki hvort um strák eða stelpu var að ræða. Við Ingibjörg höfðum hinsvegar haft vit á að spyrja um kynið og auðvitað hafði pabbi skoðað litla barnið þó hann hafi ekki sleppt vinnu útaf þessu smáræði.
Á þeim árum sem ég var að alast upp var ágætt að búa í Hveragerði. Karlarnir sem bjuggu í kring höfðu hver sitt rör sem stungið var niður í Bláhver og síðan var heitt vatnið leitt í húsin og þau hituð upp. Nóg var af heita vatninu í hvernum en þeir sem mest þurftu af því og voru með garðyrkjustöðvar svolítið fyrir neðan aðra byggð þurftu sver rör úr asbesti og þau vildu springa.
Þegar ég komst á legg var það ein mínum fyrstu minningum að alltaf var vani að sjóða kartöflurnar a.m.k. og jafnvel fleira í gufukassa einum sem hafði verið komið fyrir norðvestan við íbúðarhúsið. Þessi kassi var mikið þing. Hann var það stór um sig að hægt hefði verið að koma sex til átta miðlungspottum fyrir á botni hans og hæðin slík að vel hefði mátt hafa tvo til þrjá slíka ofan á hverjum öðrum. Gerður var hann úr kassafjölum og lok á honum var úr timbri einnig.
Auðvitað var það mamma sem kom því fyrir í kassanum sem sjóða átti hverju sinni, breiddi nokkra strigapoka yfir opið á kassanum og setti síðan lokið á hann. Skrúfaði þvínæst frá gufunni með renniloka sem var rétt við kassann á röri sem tekið var útúr röri því sem hitunarvatnið úr Bláhver streymdi um.
Bílar voru sjaldgæfir á þessum árum og ég var ekki gamall þegar ég kom mér upp í kálgarðinum heima, með aðstoð pabba, trékassa með gírstöng, bremsum og fleiri nauðsynlegum stjórntækjum sem stungið var ofan í jörðina og þau síðan hreyfð eftir þörfum. Bílhljóðin og einkum gírskiptingarnar voru svo framkallaðar af mér sjálfum og þannig var kominn öflugur vörubíll.
Einkabílar eða svonefndar drossíur voru enn sjaldgæfari en vörubílar. Hreppstjórinn sjálfur, Stefán Guðmundsson, sem bjó rétt hjá okkur átti eitt slíkt tryllitæki og eitt sinn þegar ég var að sniglast í kringum þann bíl byrjaði skyndilega að leka úr einu dekkinu. Ég flýtti mér í burtu en sá þó seinna að dekkið var með öllu vindlaust orðið. Ég kenndi mér um þessi ósköp og var hálfhræddur við Stefán lengi á eftir. Siggi trölli átti vörubíl og naut virðingar fyrir. A.m.k. virtist mamma bera nokkra virðingu fyrir honum. Hann var líka stór og tröllslegur og kom öðru hvoru í heimsókn.
Fyrst minnst er á bíla má geta þess að vörubílum mátti breyta í boddybíla með því að koma fyrir boddýi til farþegaflutninga á palli þeirra. Þessi boddý tóku gjarnan tíu til tólf manns og þeir sem þar voru gátu setið meðfram hliðum boddýsins á bekkjunum þar. Þar fyrir utan voru auðvitað til hálfkassabílar sem voru einslags sambland af vöruflutningabíl og rútu og gátu bæði flutt farþega og hverskyns vörur.
Ég var bráðþroska og varð snemma nokkuð bókhneigður. Í samræmi við venjur fjölskyldunnar var ég sendur til Sveinu í Grasgarðinum til að læra að lesa áður en ég var nógu gamall til að hefja nám í Barna- og Miðskólanum í Hveragerði.
Ég var einn af fáum krökkum sem kunni að lesa þegar ég hóf nám í 1. bekk og var því fljótlega fluttur í 2. bekk. Ætli Kolla í Álfafelli hafi ekki verið flutt milli bekkja einnig.
Þegar ég var orðinn læs ákvað pabbi að tími væri til kominn að gefa mér bók og ég man vel hvaða bók það var. Hún hét Gusi grísakóngur" og fjallaði um frægar Disney-persónur og þar á meðal var sá skúrkur sem í Andrésar andarblöðunum sem ég komst seinna upp á lag með að lesa á dönsku var kallaður Store stygge ulv". Frásögnin í bókinni fjallaði um tilraunir hans til að blása hús grísanna um koll og býst ég við að margir kannist við þá sögu.
Ég man ekki mikið eftir fyrstu bókunum sem ég las, en meðal þeirra var efalaust bókin um Dísu ljósálf og líklega einnig bókin um Alfinn álfakóng. Mér þóttu þessar bækur þó fremur barnalegar og miklu meira koma til bókarinnar um Ívar hlújárn eftir Walter Scott. Allar þessar bækur las ég mörgum sinnum og þær áttu það sameiginlegt að mynd var á efri hluta hverrar blaðsíðu. Söguþráður bókarinnar um Ívar hlújárn er mér enn minnisstæður.
Ég man líka vel eftir því að einhvern tíma á þessum árum var ég í heimsókn hjá Sigga í Fagrahvammi og sá þar nokkrar bækur í bókahillu sem hann átti og þar á meðal einhverja bók sem ég hafði áhuga á. Spurði því Sigga hvernig þessi bók væri. Svar hans er greypt í huga mér: Það veit ég ekki, ég hef ekki lesið hana."
Þetta fannst mér svo ótrúlegt að engu tali tók. Að einhver maður gæti átt bók án þess að hafa lesið hana var hugsun sem aldrei hafði hvarflað að mér. Á mínu heimili voru allar bækur marglesnar og síðan aftur og aftur.
Þarna hefur hugur minn ef til vill opnast fyrir muninum á milli fátækra og ríkra. Þetta hafði samt engin áhrif á vinskap okkar Sigga hvorki fyrr né síðar.
Ef til vill eru allmargir sem hugsa líkt og ég. Bókmenntalega séð finnst mér í vaxandi mæli að það sem kallað er fagurbókmenntir eða skáldsögur sé minna virði en frásagnir allskonar, jafnvel þó litaðar séu af svikulu minni skrásetjara. Þetta er eflaust vegna þess að ég er að eldast og ræð betur við að skrifa þannig sjálfur.
Það tíðkaðist í mínu ungdæmi að þeir sem látir voru hlaupa apríl þann fyrsta þess mánaðar máttu hefna sín með því að láta viðkomandi hlaupa apríl í staðinn þann þrítugasta sama mánaðar. Í dag er 30. apríl en ég viðurkenni auðvitað ekki að hafa nokkru sinni hlaupið apríl svo ég kvíði engu.
Sé að það hentar mér líklega best að skrifa sem mest um uppvöxt minn í Hveragerði á sínum tíma. Fréttaskýringar mínar, pólitískar hugleiðingar og ýmsar spekúlasjónir aðrar eru eflaust lítils virði þó mér finnist það ekki. Það er auðvelt að týna sjálfum sér með því að skrifa sem mest um allt mögulegt. Mikilvægast er að það sem skrifað er sé lesið. Hvernig er hægt að tryggja það? Með því að halda sig við það sem maður hefur meira vit á en aðrir. Ég veit ekki til að aðrir en ég skrifi meira eða betur um Hveragerði eins og það var áður fyrr, svo kannski ætti ég að halda mig við það.
Það fer dálítið öfugt í mína pólitísku samvisku að hlusta á Vilhjálm Egilsson fyrir hönd Samtaka Atvinnulífsins fara fram að ríkisstjórnin geri þetta eða hitt. Hefði frekar búist við af honum að hann óskaði þess að ríkisstjórnin gerði sem minnst. Nú er ekki annað að sjá en hann og félagar hafi a.m.k. tapað áróðursstríðinu.
Atli Harðarson, systursonur minn, heimspekingur og aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi segir frá því á sinni fésbók að hann hafi sótt um stöðu skólameistara við Fjölbrautaskólann á Akranesi sem losna mun í sumar. Ásamt honum sækja þessir um stöðuna:
Geir Hólmarsson, framhaldsskólakennari.
Ingi Bogi Bogason, sjálfstætt starfandi ráðgjafi.
Ingileif Oddsdóttir, framhaldsskólakennari og náms- og starfsráðgjafi.
Jóhannes Ágústsson, fyrrverandi skólastjóri.
Lind Völundardóttir, framhaldsskólakennari.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari.
Gert er ráð fyrir að ráðið verði í stöðuna frá 1. ágúst næstkomandi.
Auðvitað vona ég og geri ráð fyrir að Atli hljóti stöðuna.
Álpaðist inn í stofu áðan. Þar var sjónvarpið á fullu blasti og ég heyrði þessi vísdómsorð. Ég skil ekki þennan kjól, Bogi. Gerir þú það?" Kannski er þetta samt ekkert óskiljanlegra en frítt aukaspark og umdeild vítaspyrna.
Athugasemdir
þú batnar bara með hækkandi hitastigi og sól Sæmi :)
ég var í sveit í borgarfirði og þar var svona skranhaugur.. þar gat ég raðað saman "bíl" með sætum stýri og dekkjum.. og breyttist í langfrðabílstjóra, vörubílstjóra, slökkviliðsmann á augabragði :) endalaus hamingja.. þetta vekur upp margar góðar minningar.
eigðu góða helgi
Óskar Þorkelsson, 30.4.2011 kl. 11:17
Yndislegt þegar þú setur niður pennan um gamla daga í Hveragerði.
Gaman af að lesa um það þegar þú fórst í skólann fyrst og varst fljúgandi læs.
Ég get hinsvegar frætt þig um það að ég ætlaði aldrei að læra lesa, enda fannst mér það bara óþarfi, því allir heima voru læsir og gátu bara lesið fyrir mig.
Svo var mér komið í hljóðlestur, hjá konu Halldórs rafvirkja, minnir hún hafi heitið Guðbjörg eða Guðfinna. Henni tókst að koma drengnum í lestrarlegt ástand og eftir það var ég bestur í mínum bekk í lestri. Guð blessi hana fyrir það.
Svo las ég allt milli himins og jarðar, held ég hafi lesið nánast allar fornsögurnar á "fornmálinu". Svo að sjálfsögðu "Tarazan", sem kenndi mér að elska hina seiðmögnuðu Afríku með öllum sínu fjölbreytta dýra- og mannlífi.
Svo að sjálfsögðu er ég þakklátur "Andrés Önd", sem kenndi mér dönsku: Guð blessi minninga hans.
Síðast enn ekki síst má ég ekki gleyma Hróðmari kennara, sem átti ekki sjö dagana sælda með alla þessa ótrúlega óþekku strákara sem fylltu skólastofurnar.
Hróðmar er nú sá kennari ég mun aldrei gleyma, mannlegur og þolinmóður, og sá kennari sem ég á mest að þakka.
Og allir góðir andar blessi minningu þessa frábæra manns.
Karl Jóhannsson 30.4.2011 kl. 12:19
Takk Óskar. Já, vörubíllinn minn var flottur!!
Takk Kalli (fyrir mér heitirðu alltaf Kalli Jóhanns) Auðvitað man ég líka vel eftir Hróðmari. Hann kenndi mér samt ekki mikið meðan ég var í barnaskóla, minnir mig. Man betur eftir Helga Geirs skólastjóra, já og svo náttúrulega Ólínu. Ætli hún hafi ekki verið bekkjarkennarinn minn. Man líka eftir Hermanni í Gerðakoti og mörgum fleiri.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2011 kl. 12:53
Gman að svona texta. Þú ert nú með þeim betri hérna og svo sannarlega kunna hér margir til verka.
Árni Gunnarsson, 30.4.2011 kl. 13:54
Takk Árni.
Sæmundur Bjarnason, 30.4.2011 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.