1345 - Garðsauki 2

vignirÞetta gætu verið Vignir bróðir (fjær) og Árni Helgason (nær) á skólaskemmtuninni sem ég hef áður birt myndir frá. (Hef líklega verið að leika fréttaljósmyndara þar.)

Fyrst eftir að við komum að Eystri-Garðsauka vann ég við það ásamt strákunum og kannski einhverjum af fullorðna fólkinu að fjarlægja heyrestar sem orðið höfðu eftir um veturinn þegar heygaltar allstórir höfðu verið nýttir. Þessu mokuðum við á vagn og keyrðum í skurð rétt hjá. Þetta var alllangt frá bænum en þegar matmálstímar voru fór einhver heima við með lak út fyrir bæinn og veifaði því. Þetta var okkar helsta tímaviðmiðun. Úr þekktust varla og allra síst að krakkagríslingum væri treyst fyrir þvílíkum rarítetum.

Að því kom meðan við dvöldum þarna að sláttur hæfist. Guðmundur og þeir sem þarna stjórnuðu létu mikinn yfir því að traktor væri á staðnum og sláttuvél og með henni yrði slegið. Mér þótti þetta með traktorinn dálítið skrítið því ég hafði ekki séð neina vél sem hægt væri að kalla því nafni. Enda kom það í ljós strax og sláttur hófst að það sem þarna var það kallað traktor var í Hveragerði bara kallað fræsari og notað til að róta upp moldinni í gróðurhúsunum. Þótti mér hálfgerður skítur til þessa traktors koma. Og svo var ekki einu sinni hægt að sitja á honum.

Auðvitað var stundum stungið upp með höndunum í gróðurhúsunum í Hveragerði því ekki áttu allir fræsara. Svo gat líka verið snúið að koma þeim inn í húsin. Einu sinni man ég eftir að hafa stungið upp hálft hús með Hansa Gústafssyni. Hann reykti pípu á þeim tíma og sjá mátti reyk stíga uppaf tóbaki í uppstungna hlutanum með svona meters millibili lengst af.

Að Garðsauka ákváðu þær Ingibjörg og stelpan sem var á aldur við hana eitt sinn að elda grjónagraut. Þá hefur líklega enginn fullorðinn verið í húsinu. Þær kunnu vel að gera grjónagraut og eftir því sem þeim hafði verið sagt var mesta hættan sú að grauturinn yrði sangur eða með öðrum orðum að það kæmi ástarbragð af honum. Þær gættu þess því vel að hræra reglulega í pottinum. En eitthvað vantaði. Jú, rúsínurnar. Þær fundu rúsínukassa og settur einn sléttfullan disk af rúsínum í pottinn. Á endanum urðu rúsínurnar ansi fyrirferðarmiklar og þeir sem fengu sér graut höfðu allir orð á því hve mikið væri af rúsínum í honum. En grauturinn var góður.

Eitt af verkum okkar krakkanna var að reka úr túninu. Það var létt verk og löðurmannlegt því girðingar voru góðar. Moshvollinn var næsti bær austan við Garðsauka og var kominn í eyði. Við áttum líka að sjá um túnið þar. Það sást ekki frá bænum þannig að við urðum að fara þangað öðru hvoru og aðgæta hvort rollur hefðu komist í túnið. Svo var yfirleitt ekki því girðingar voru líka í lagi þar ef ég man rétt.

Morguninn sem við Ingibjörg vorum á förum voru öllum að óvörum komnar rollur í túnið sunnan við Garðsauka. Við strákarnir voru snimmhendis sendir af stað að reka þær í burtu. Allir hlupum við af stað eins og fætur toguðu af einhverjum ástæðum og ég fór brátt að dragast aftur úr. Leifur var fyrstur  og Oddur skammt á eftir honum. Þar á eftir kom ég svo og þegar ég sá fram á að verða síðastur í þessu kapphlaupi okkar brá ég á það ráð að setja fótinn fyrir Odd. Hann datt kylliflatur en meiddi sig ekkert sem betur fór. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna mér er þetta svona ofarlega í minni eða af hverju mér datt þetta í hug. Man samt að ég skammaðist mín mikið fyrir þetta því Oddur hafði ekki gert mér nokkurn skapaðan hlut.

Þarna fékk ég í fyrsta sinn á ævinni að skjóta af riffli. Ekki hefðu allir leyft okkur strákavitleysingunum það, en við fengum semsagt að skjóta á flöskur sem komið hafði verið fyrir í hænsnagirðingu í nokkurri fjarlægð. Ekki gekk okkur vel að hitta þær, en þeim fullorðnu sem með okkur voru, þeim mun betur. Þegar allar flöskurnar voru komnar í mask var tekið til við að splundra stútunum. Það gekk verr en hafðist þó. Einhverjar óskjótandi manneskjur áttu leið þarna um en urðu sem betur fór ekki fyrir skotum.

Ekki var neitt salerni á svefnloftinu. Þyrftu menn að pissa var gripið til koppa sem undir rúmunum voru. Þegar búið var um rúmin á morgnana var tækifærið notað og skvett úr koppunum út um gluggann. Fyrir neðan gluggann var lægri bygging (sennilega fjósið) og eitt sinn man ég eftir að hafa næstum orðið fyrir skvettu úr kopp sem útum gluggann kom og lenti á þakinu á byggingunni fyrir neðan og rann svo út á hlaðið.

Þegar ég fór í sveitina hafði ég haft með mér dýrindis færi með sökku og spóni. Á honum var þríkrækja og hann í laginu eins og fiskur. Ekki varð neinn tími til að nota þetta veiðitæki, en síðasta daginn minn kom það eitthvað til tals að líklega væri silungur í læknum sem rann skammt frá bænum. Þá sagði ég náttúrlega frá færinu mínu og var skammaður af Leifi fyrir að hafa ekki sagt frá því fyrr því önglar og sérstaklega spúnar með þríkrækju voru sjaldséðir þarna í fásinninu.

Nú er ég búinn að fatta upp á góðu ráði til að lengja bloggin mín. Það er að setja þar þessar minningar frá Garðsauka. Ég var nefnilega búinn að færa þær í letur fyrir nokkru. Það er samt álitamál hvort vert er að lengja „minningar með morgunkaffinu" úr hófi. Þetta er líka að verða búið.

-Hvað er það sem gerir blogg lesandi?

-Hef ekki hugmynd.

-Kannski hæfileg lengd, hnökralaust mál og eitthvað frábrugðið því venjulegasta.

-Kannski.

-Er þetta blogg þannig?

-Jafnvel.

Tímans rás hjá Illuga er oft fróðleg og hentar vel að lesa í morgunsárið. Það er ekki ónýtt að geta fésbókast svona með vinnuna sína. Það getur samt vel verið að hann eigi eftir að selja þetta og sé einmitt að auglýsa. Auðvitað má hann það alveg. Ég er svosem líka alltaf að auglýsa mín skrif.

Skrýtið að fylgjast með fréttum á Sky News núna seinnipartinn. Beinar útsendingar frá götu fyrir framan eitthvert hótel o.s.frv. Allt snýst semsagt um undirbúning fyrir konunglega brúðkaupið. Stríðið í Líbýu og óveður í Ameríku eru einskisverð aukaatriði miðað við slíkan heimsviðburð.

IMG 5212Hvaða fontur er þetta eiginlega?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rýrnarfontur?

Jón Steinar Ragnarsson, 1.5.2011 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband